Hvað eru kjördæmi?
Íslandi er skipt upp í svokölluð kjördæmi eða landssvæði. Í alþingiskosningum bjóða stjórnmálasamtök fram sérstakan framboðslista í hverju kjördæmi fyrir sig. Stærri flokkarnir bjóða yfirleitt fram lista í öllum kjördæmum, en það er ekki skylda og sumir bjóða eingöngu fram í einu eða fáum kjördæmum.
Þeir sem búa í tilteknu kjördæmi geta bara kosið milli þeirra lista sem eru í framboði í því kjördæmi. Þeir frambjóðendur sem eru kosnir í tilteknu kjördæmi verða síðan þingmenn þess kjördæmis á Alþingi. Þeir eru því nokkurs konar fulltrúar þess landshluta á þinginu, þó sumir vilji frekar líta á alla þingmenn sem fulltrúa allrar þjóðarinnar.
Álíka fyrirkomulag, þar sem þingmenn eru kosnir á þing innan tiltekinna svæða/kjördæma, tíðkast í mörgum öðrum ríkjum.
Hver eru kjördæmi Íslands?
Kjördæmin á Íslandi nú eru sex; þrjú á landsbyggðinni og þrjú á höfuðborgarsvæðinu.
- Norðvesturkjördæmi nær yfir Norðvesturland og er með 9 þingmenn.
- Norðausturkjördæmi nær yfir Norðausturland og er með 10 þingmenn.
- Suðurkjördæmi nær yfir Suðurland og Vestmannaeyjar og er með 10 þingmenn.
- Suðvesturkjördæmi nær yfir sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu á suðvesturhorni landsins, fyrir utan Reykjavík sjálfa, og er með 12 þingmenn.
- Reykjavíkurkjördæmi-Norður nær yfir Reykjavíkurborg norðan Hringbrautar/Miklubrautar og er með 11 þingmenn á Alþingi.
- Reykjavíkurkjördæmi-Suður nær yfir Reykjavíkurborg sunnan Hringbrautar/Miklubrautar og er með 11 þingmenn á Alþingi.
Hvenær voru kjördæmin búin til?
Frá því Alþingi var endurreist í Reykjavík árið 1844 hafa Íslendingar kosið til þess í kjördæmum. Fyrst voru 20 kjördæmi á landinu og einn þingmaður fyrir hvert kjördæmi. Síðan þá hefur kjördæmaskipan margoft verið breytt og voru kjördæmin flest árin 1908-1919 eða 34, með 1-2 þingmönnum hvert. Árið 1959 var landinu hins vegar skipt í átta stærri kjördæmi sem hvert átti nokkra þingmenn á Alþingi.
Árið 2003 var kjördæmunum loks fækkað í sex og þingmannafjölda þeirra breytt til meira samræmis við íbúafjölda.
Hvers vegna vilja sumir að landið verði gert að einu kjördæmi? Hvað er misvægi atkvæða?
Kjördæmin eru mjög mis fjölmenn og þó fjölmennari kjördæmin hafi fleiri þingmenn en þau fámennari eru þau fámennari samt með mun fleiri þingmenn á hvern íbúa.
Það þýðir að einstaklingur sem býr í norðvesturkjördæmi hefur t.d. um tvöfalt meiri áhrif á það hver situr á Alþingi heldur en einstaklingur sem býr í Reykjavík. Þetta þýðir að fólk hefur ekki jafnmikil áhrif í alþingiskosningum eftir því hvar það býr á landinu og er það kallað misvægi atkvæða.
Sumir vilja gera landið að einu kjördæmi til þess að áhrif kjósenda á úrslit alþingiskosninga séu jafnmikil, sama hvar þeir búa á landinu. Aðrir benda á að ólík landssvæði hafi ólíka hagsmuni og þurfi fulltrúa á Alþingi til að tala sínu máli; þar sem mun færri búa á landsbyggðinni muni áhrifin týnast á Alþingi ef kjördæmin hverfi. Sömuleiðis óttast margir að framboðslistar fyrir allt landið yrðu óþægilega stórir.
Einstaklingur sem býr í norðvesturkjördæmi hefur t.d. um tvöfalt meiri áhrif á það hver situr á Alþingi heldur en einstaklingur sem býr í Reykjavík. Þetta þýðir að fólk hefur ekki jafnmikil áhrif í alþingiskosningum eftir því hvar það býr á landinu og er það kallað misvægi atkvæða.
Sjá nánar:
um kjördæmi á kosningavef innanríkisráðuneytisins,
um misvægi atkvæða á vef landskjörstjórnar,
kort af Reykjavík,
bókina „Íslenska stjórnkerfið“ eftir Gunnar Helga Kristinsson.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?