Hvað er kommúnismi?
Kommúnismi er nokkurs konar róttæk og byltingarsinnuð útfærsla sósíalísma, sem kommúnistar segja byggja á vísindalegri greiningu á mannkynssögunni.
Hugmyndafræðin var sett fram af þeim Karl Marx og Friedrich Engels í „Kommúnistaávarpinu“ árið 1848 og hlaut hún mikla útbreiðslu í kjölfarið, þó svipaðar hugmyndir hafi verið á kreiki fram að því.
Hvað einkennir kommúnisma?
Karl Marx og skoðanabræður hans töldu að mannkynssagan væri saga stéttaátaka og að stéttir iðnbyltingarinnar á 19. öld væru „borgararnir“ eða auðvaldið, sem áttu fyrirtækin og verksmiðjurnar, gegn „verkalýðnum“ eða almúganum, sem vann fyrir borgarana.
Að þeirra mati einkenndist þjóðfélagið af því að borgararnir „arðrændu“ verkalýðinn, þ.e. létu þá vinna of mikið fyrir sig og hirtu hagnaðinn sjálfir á meðan verkalýðurinn berðist í bökkum. Þetta væri tilkomið af því að ríkið verndaði eignarétt atvinnurekenda og borgara yfir framleiðslu sem væri í raun félagsleg; þ.e. fáir menn áttu framleiðslu sem margir menn komu að og græddu því óeðlilega mikið á henni.
Þeir töldu þessa einokun atvinnurekenda á framleiðslunni hljóta að magna átök milli verkalýðs og vinnuveitenda. Að lokum myndu þau átök leiða af sér byltingu „öreiganna“ (verkalýðsins eða almúgans) gegn borgurunum, þar sem eignaréttur þeirra yrði afnuminn og framleiðslan þjóðnýtt í þágu heildarinnar.
Þannig var markmið kommúnista svipað og annarra sósíalista – jöfnuður, samvinna og þjóðnýting framleiðslunnar – en leiðin átti að vera bylting verkalýðsins og gat ekki orðið í ríkjandi kerfi. Byltingin átti því að kollvarpa samfélaginu og færa framleiðsluna í hendur verkalýðsins, sem mundi eiga hana og nýta í sameiningu og dreifa hagnaðinum á sanngjarnan hátt sín á milli.
Kommúnistar töldu þessa byltingu vera óhjákvæmilega en hvöttu um leið til hennar og boðuðu yfirleitt að hún gæti ekki orðið nema með valdbeitingu eða ofbeldi gegn ráðandi stéttum.
Hvar hefur kommúnismi verið við lýði?
Kommúnismi hefur verið verulega áhrifarík stefna í stjórnmálum heimsins frá upphafi 20. aldar. Kommúnistar náðu völdum í hinum gríðarstóru Sovétríkjum árið 1917 og héldu þeim fram til ársins 1991, auk þess sem þeir hafa verið við völd í stórum hluta Austur-Evrópu, Asíu, Afríku og Júgóslavíu.
Nú eru kommúnistastjórnir enn við völd í Kína (frá 1949), Norður-Kóreu (frá 1948) , Kúbu (frá 1961), Víetnam (N-Víetnam frá 1954 en í öllu landinu frá 1976) og Laos (frá 1975).
Kommúnistaflokkur Íslands er eini íslenski stjórnmálaflokkurinn sem hefur opinberlega kennt sig við kommúnisma og lifði hann á árunum 1930-1938. Sumir telja þó að stefnan, hugmyndir hennar og fylgismenn hafi lifað flokkinn af í íslenskum stjórnmálum og samfélagi.
Byltingin átti því að kollvarpa samfélaginu og færa framleiðsluna í hendur verkalýðsins, sem mundi eiga hana og nýta í sameiningu og dreifa hagnaðinum á sanngjarnan hátt sín á milli.
Sjá einnig:
„Kommúnistaávarpið“ eftir Karl Marx og Friedrich Engels,
bókina „Íslenskir kommúnistar 1918-1998“ eftir Hannes Hólmstein Gissurarson,
vef About.com,
vef„Infoplease“.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?