Íhaldsstefna er sú heimspeki og stjórnmálastefna að vilja halda í ríkjandi ástand, hefðir og gildi.

Íhaldsstefnu er yfirleitt stillt upp í andstöðu við ýmsar ólíkar umbótastefnur, byltingastefnur eða hugmyndir um breytingar; hvort sem það er frjálshyggja, sósíalismi, femínismi eða önnur stefna.

Uppruni íhaldsstefnunnar

Íhaldsmenn miðalda sóttu upphaflega réttlætingu sína fyrir áframhaldandi völdum einvalda og yfirráðum kirkjunnar yfir samfélaginu í trúarbrögð og yfirnáttúrulegar hugmyndir.

Í stjórnmálum síðari daga, upp frá upplýsingunni á 18. öld, varð sú réttlæting þó sífellt áhrifaminni og sköpuðu menn eins og Edmund Burke og David Hume þá hugmyndafræði íhaldsstefnunnar sem lifir enn.

Sú hugmyndafræði byggir á því að ríkjandi stofnanir og sögulegar hefðir samfélagsins gegni nytsamlegu hlutverki, hafi sannað gildi sitt og þjóni oft hlutverki sem ekki er augljóst á hverjum tíma. Því beri að fara varlega í allar samfélagslegar breytingar og halda frekar í gömul gildi og venjur ef það er unnt.

Íhaldsstefnan í stjórnmálum

Íhaldsmenn og stuðningsmenn konungsins stóðu gegn byltingarsinnum í Frakklandi í lok 18. aldar og á 19. öld. Þeir sátu hægra megin í þingsalnum en umbótasinnar vinstra megin og þaðan koma hugmyndir um hægri og vinstri í stjórnmálum, þó þær séu flóknari á síðari tímum (sjá grein um hægri og vinstri í stjórnmálum).

Á síðari dögum hefur íhaldsstefna verið áberandi, t.d. í Bandaríkjunum, sem andstaða við aukin ríkisútgjöld og birst sem fylgi við gömul fjölskyldugildi og trúarbrögð. Hún hefur einnig verið áberandi í umræðunni um ýmsar breytingar á stjórnkerfum og stjórnmálum síðari tíma, t.a.m. í umræðu um Evrópusambandið.

Árið 2011 var síðan stofnað Félag Íhaldsmanna á Íslandi og eru þeir með vefsvæði á Fésbókinni.

Myndin sem fylgir greininni er af Jóni Þorlákssyni sem kenndur hefur verið við íhaldsstefnuna.

Sú hugmyndafræði byggir á því að ríkjandi stofnanir og sögulegar hefðir samfélagsins gegni nytsamlegu hlutverki, hafi sannað gildi sitt og þjóni oft hlutverki sem ekki er augljóst á hverjum tíma.

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar