Allt um húðlækna

    1245

    Ég vil fá að vita hvað þeir gera, starfsmöguleika, námið sem þeir þurfa að fara í gegnum og fleira 🙂

    Hæ og takk fyrir spurninguna.

    Húðlæknar eru sérfræðingar í meðhöndlun allra húð- og kynsjúkdóma og eru húðlækningar í raun tvenns konar:

    Almennar húðlækningar:

    T.d. bólusjúkdómar, exemsjúkdómar, góðkynja húðæxli, illkynja húðæxli, hársjúkdómar, litabreytingar, psoriasis og skyldir sjúkdómar, veirusýkingar, bakteríusýkingar, sveppasýkingar, kynsjúkdómar, húðmeðferðir og fræðsluefni.

    Lýtahúðlækningar:

    T.d. ávaxtasýrumeðferð, Dermapen, fitufrysting, fylliefni, háreyðingarlaser, húðflúr, húðslípun, húðþétting, meðferð á hrukkum, meðferð á rósroða, öldrun húðarinnar, SkinCeuticals.

    Ljúka þarf grunnnámi í læknisfræðum og er hægt að lesa betur um hvernig það virkar hér.

    Í stuttu máli er grunnnám í læknisfræði þriggja ára háskólanám til BS-gráðu sem ekki veitir starfsréttindi. Almennt lækningaleyfi og réttindi til að stunda lækningar á Íslandi fæst að loknu sex ára námi til embættisprófs og eins árs starfsnámi til viðbótar.

    Á fimmta ári fer fram bóklegt og verklegt nám í t.d. húð- og kynsjúkdómum og er hægt að lesa meira um læknisfræðinámið hér.

    Langflestir læknar sérhæfa sig að loknu grunnnámi. Sérfræðimenntun er að lágmarki fimm ára sérhæfð starfsþjálfun undir handleiðslu sérfræðilækna og að því loknu fæst sérfræðipróf.

    Hvað gera húðlæknar: Greina með ræktun, smásjárskoðun og húðsýnatöku hvers kyns húðvandamál. Blóð og þvagsýni eru einnig inni í myndinni eftir atvikum. Flest húðvandamál er sýnileg berum augum og því má búast við að húðlæknir þekki viðkomandi vandamál með sjóngreiningu einni saman. Ofnæmi sem rekja má til húðar eru oft tengd starfi sjúklings og umhverfi. Þess vegna koma húðpróf sérstaklega til greina en þau eru sérhæfð greiningartæki sem þarf a.m.k. 3. sólarhringa til að framkvæma. Greining krabbameina í húð, fótasár og lyfjaofnæmi koma þessari sérgrein mikið við. Meðferð og fræðsla samkvæmt greiningu.

    Húðlæknar starfa svo ýmist á heilsugæslum, á einkareknum stofum, húðlæknastofum og á sjúkrahúsum.

    Mbk.

    Áttavitinn ráðgjöf


    • Var efnið hjálplegt?
    •    Nei

    Ert þú með spurningu?

    Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

    Spyrja spurningar