Hææ, ég er ung kona á þrítugsaldrinum. Ég er ótrúlega ráðvilt í lífinu, mér finnst ég svo einmana, mig vantar einhvern mann inn í líf mitt. Mér finnst ég svo útundan, fólk á mínum aldri er að trúlofa sig, eignast börn og fleira. Á meðan er ég bara í háskólanámi, ekki einu sinni í sambandi. Ég er alls ekki að leitast eftir hjónabandi eða börnum strax, mig vantar bara einhvern til þess að deila lífi mínu með, þetta eiga jú að vera bestu ár lífsins. Er eðlilegt að vera á þrítugsaldrinum og hafa aldrei verið í sambandi áður? Ég hef oft orðið skotin í strákum en það hefur aldrei leitt til neins. Hvernig finn ég ást? Mér líður eins og ég verði ein alla ævi. Kannski ljótt að segja það en mér finnst oft ógeðslega erfitt að sjá fólk sem er ómyndarlegra en ég komast í sambönd og sjá ofbeldismenn komast í sambönd en ekki ég. Maður fer að efast um sjálfan sig, maður fer að halda að maður sé ljótur án þess að taka eftir því sjálfur, maður fer að halda að maður sé leiðinlegur en taka ekki eftir því sjálfur osfrv.
Kveðja ein gömul sem er farin að finna fyrir pressu
Hæ og takk fyrir að hafa samband.
Það er mjög eðlilegt að hafa ekki verið í sambandi áður á þínum aldri. Þetta er akkúrat tíminn þar sem þú getur einbeitt þér að sjálfri þér og fundið út hvað það er sem þú hefur áhuga á og ekki og er um að gera að prófa sig áfram.
Við þurfum öll að passa okkur á að eyða ekki tíma og orku í að bera okkur saman við aðra þó það geti verið erfitt. Ef manneskja er örvæntingarfull í leit sinni að maka getur það virkað fráhrindandi. Eins og fólk á til að segja: Þetta kemur þegar þú átt síst von á því.
Þú veist hvað þú hefur fram á að færa svo ekki missa trúna á sjálfa þig.
Hér er skemmtileg grein sem vert er að kíkja á sem fer yfir hvað hægt er að gera í makaleit.
Gangi þér vel.
Mbk.
Áttavitinn ráðgjöf
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?