Hvernig eignast maður kærustu eða kærasta?

Það þýðir lítið að leita sér að kærustu eða kærasta. Svona hlutir gerast yfirleitt bara – og oft gerast góðir hlutir hægt. Fólki, sem er of upptekið af því að finna sér elskhuga, hættir til að virka örvæntingarfullt og það getur verið fráhrindandi.

Í staðinn er betra að vinna í sjálfsálitinu og vera ánægður með sjálfan sig

Það er mikilvægt að fara út á meðal fólks, vera virkur í félagslífinu, kíkja á djammið eða aðra staði þar sem fólk hittist. Þannig kynnist maður nýju fólki. Best er að byrja á því að eignast nýja vini því fólk veit aldrei hver er sá rétti eða sú rétta. Varasamt er að treysta of mikið á djammið í makaleitinni, því kynni sem fólk á þar eru gjarnan undir áhrifum áfengis og því ekki alveg marktæk. Því er um að gera að virkja félagslífið á öðrum grundvelli líka, til dæmis með því að sækja námskeið, taka þátt í félagsstarfi, íþróttum og fleira í þeim dúr.

Æfingin skapar meistarann

Sumir eru óöruggir í kringum hitt kynið. Því er mikilvægt að æfa sig í þessu eins og öðru: Vera óhræddur við að spjalla og ekki taka það of mikið inn á sig ef maður fær höfnun. Að vera fær í daðri og léttu spjalli getur skipt sköpum og því er um að gera að nýta tækifærin sem gefast til að æfa sig í því. Mikilvægt er líka að muna að daður er hárfín lína. Húmor, glaðlyndi og það að vera hæfilega opinskár er yfirleitt það sem fólki, -af báðum kynjum líkar best við.

Það er um að gera að vera opin/nn, hreinskilin/nn og örugg/ur

Ef áhugi kviknar, þá er óþarfi að verða stressaður yfir því að bjóða hinni manneskjunni á stefnumót. Margir eru hræddir við höfnun en því miður er eina leiðin að spyrja bara. Það versta sem gæti gerst er að manneskjan segi nei. Ef manneskjan er dónaleg eða gerir lítið úr manni er ljóst að þetta er ekki einhver sem maður hefði viljað enda í pari með hvort eð er. Það getur vissulega verið sárt að fá höfnun – en það er líka ágætis æfing. Gott er að einbeita sér að því að taka höfnuninni ekki of persónulega og láta hana ekki draga úr sjálfsörygginu.

Yfirleitt fær maður ekki höfnun vegna einhvers í fari manns sjálfs eða persónuleika, heldur vegna þess að tilfinningaleg staða og persónulegar aðstæður hinnar manneskjunnar, eru af einhverjum ástæðum þannig að ný rómantísk kynni koma ekki til greina.

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar