Hvernig leigi ég út íbúðina mína?

  5849

  Sæl,

  Ég hyggst leigja út íbúðina mína.
  Hverju bera að huga að?
  Ég vil tryggja að allt sé rétt gert, fyrir mig og leigjendur.
  Og að lokum, hvernig er skattur reiknaður af leigutekjum? Og hvar liggur lágmark þeirra með tilliti til frítekjumarks?

  Fyrir fram þakkir.

  Hæ og takk fyrir spurninguna.

  Það er ýmislegt sem hafa þarf í huga þegar kemur að því að leigja út íbúðina sína og mælum við með að kíkja inn á Leiga.is og vefsíðu Íbúðalánssjóðs.

  En förum aðeins yfir það helsta:

  Leigusamningar um húsnæði eiga að vera skriflegir.  Einnig eiga allar breytingar á leigusamningi eða viðbætur við hann, sem heimilar eru samkvæmt húsaleigulögum, að vera skriflegar og undirritaðar af aðilum samningsins.
  Þá getur annar hvor aðili sem þarf samkvæmt ákvæðum húsaleigulaga eða leigusamnings að fá samþykki hins, krafist þess að fá það staðfest skriflega.

  Húsaleigusamningur þarf að vera í þremur samhljóða eintökum;
  Eitt eintak fyrir leigjanda, annað fyrir leigusala og þriðja eintakið er varðveitt hjá Leigu.is.
  Ef þinglýsa þarf leigusamningi (t.d. varðandi húsaleigubætur), þarf að auki eitt eintak á löggiltum skjalapappír.

  Húsaleigu á að greiða fyrsta dag hvers mánaðar fyrirfram fyrir einn mánuð í senn nema um annað sé samið. Ef gjalddaga ber upp á almennan frídag skal hann vera næsti virki dagur þar á eftir.

  Ef leigjandi hefur ekki gert skil á leigunni innan sjö sólarhringa frá gjalddaga er leigusala rétt að krefjast hæstu lögleyfðu dráttarvaxta af leigufjárhæð til greiðsludags.

  Hafi leigusamningi verið þinglýst skal leigjandi láta aflýsa honum þegar leigutíma lýkur. Hafi hann ekki látið gera það í síðasta lagi innan viku þar frá skal honum aflýst að kröfu leigusala.

  Áður en afhending hins leigða húsnæðis fer fram er leigusala rétt að krefjast þess að leigjandi setji honum tryggingu fyrir réttum efndum á leigusamningnum, þ.e. fyrir leigugreiðslum og skaðabótum vegna tjóns á hinu leigða, sem leigjandi ber ábyrgð á samkvæmt ákvæðum húsaleigulaga eða almennum reglum. Í 40. gr. húsaleigulaga er að finna með hvaða hætti trygging getur verið.

  Á vef Íbúðalánasjóðs kemur fram að leigusali verði að gæta þess að hafa góðar tryggingar fyrir efndum á leigusamningnum, bæði hvað varðar fjárhæð og tegund tryggingar. Eigi þriðji aðili að bera ábyrgð á efndum samningsins er mikilvægt að kanna eignastöðu viðkomandi og ganga úr skugga um að hann sé borgunarmaður komi til vanefnda á samningi aðila. Þá þarf að íhuga vandlega fjárhæð tryggingar.

  Algengt hefur verið að krafist sé tryggingar fyrir fjárhæð sem jafngildir þriggja mánaða leigu. Síðustu ár hafa útburðarmál þó tekið mun lengri tíma en þau gerðu áður og trygging leigusala löngu orðin tóm þegar leigjandi er loks borinn út eftir að vanskil hafa orðið á leigu. Þetta er ein helsta ástæða þess að algengt er orðið að leigusalar fari fram á hærri tryggingar eða jafnvel ótakmarkaða sjálfskuldarábyrgð þriðja manns.

  Mikilvægt er að leigusali láti fara fram úttekt á húsnæðinu við upphaf leigutíma. Verði fasteignin, innréttingar, tæki eða annað fyrir tjóni á leigutímanum er mjög erfitt fyrir leigusala að sýna fram á að tjónið sé í raun að rekja til leigjanda ef ekki liggur fyrir hvert ástand eignarinnar var við afhendingu hennar. Algengt er að leigusalar hunsi þetta þar sem þeim þykir það óþarfa kostnaður en kostnaðurinn er ekki hár, sér í lagi þegar litið er til þess að annars verður skaðabótakrafa leigusala oft að engu, mótmæli leigjandi bótaskyldu. Núgildandi húsaleigulög gera ráð fyrir að byggingafulltrúar framkvæmi umræddar úttektir.

  Tekjuskattlagning húsaleigutekna hjá einstaklingum fer samkvæmt reglum um fjármagnstekjuskatt ef fyrningarstofninn er undir ákveðnum viðmiðunarmörkum. Fjármagnstekjuskattur er 18% af tekjum sem falla undir þá skilgreiningu, en þó með 30% frítekjumörkum. Þó má einstaklingur sem leigir út húsnæði tímabundið, draga frá leigutekjum leigugjöld af íbúðarhúsnæði sem hann leigir sjálfur (leiga á móti leigu).

  Hér geturðu svo kynnt þér skyldur leigusala ef viðhalds á íbúð er krafist meðan á útleigu stendur.

  Heimildir:
  Alþingi
  Íbúðalánasjóður
  Leiga.is
  Skatturinn

  Mbk.

  Áttavitinn ráðgjöf.


  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

  Ert þú með spurningu?

  Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

  Spyrja spurningar