Þegar maður hefur fengið góða hugmynd sem raunhæft er að hrinda í framkvæmd, er ekki úr vegi að fara að kynna sér mögulega styrktaraðila. Fjölmargir styrkir standa félögum og einstaklingum til boða, til náms, lista- og menningarverkefna, atvinnusköpunar, rannsókna og annarra uppbyggilegra verkefna. En oftar en ekki eru margir umsækjendur um hvern styrk og því er mikilvægt að vanda sig við gerð styrkumsóknarinnar.

Hvar sækir maður um styrki?

Á Áttavitanum má finna upplýsingar um ýmsa styrki og sjóði. Áður en ráðist er í umsóknir er mikilvægt að kynna sér vel styrktarsjóði og úthlutunarreglur. Það sparar bæði umsækjandanum og styrkveitandanum tíma og vinnu að sótt sé um á réttum stöðum og í réttum sjóðum. Ef sjóðnum er ekki ætlað að styrkja verkefni á borð við það sem sótt er um fyrir, eru engar líkur á að styrkurinn verði veittur. Vænlegast er að leita eftir styrkjum hjá stofnunum, félagasamtökum og fyrirtækjum sem tengjast umfjöllunarefni verkefnisins.

Gerð styrkumsókna snýst um sölumennsku.

Þegar maður gerir styrkumsókn er mikilvægt að setja sig í spor viðtakandans og reyna að ímynda sér hvernig umsóknin virkar á hann.

Styrkumsókn þarf að vera…

auðskiljanleg, hnitmiðuð og skemmtileg! Ekki skrifa langan, þurran og leiðinlegan texta. Styrkumsóknin er í raun auglýsingatæki sem á að sannfæra þann sem deilir út styrknum að hér sé á ferðinni verðugur styrkhafi með spennandi verkefni sem gefur eitthvað af sér.

Skref fyrir skref…

  • Í byrjun er ágrip, sem er stutt og hnitmiðuð lýsing á verkefninu. Það verður að segja allt sem segja þarf, en má alls ekki vera of langt.
  • Umsóknin þarf að sýna fram á að verkefnið verði að veruleika. Þess vegna er oft farið fram á að fólk gefi upp aðra styrki og fjármögnunarleiðir sem farnar eru í verkefninu. Enginn styrkir eitthvað sem er ólíklegt að verði nokkurn tíma að veruleika.
  • Jákvæðni og bjartsýni er nauðsynleg. Neikvæðni og röfl á ekki heima í styrkumsókn. Markmiðið er að hrífa styrkveitandann með sér í hugmyndinni.
  • Allt sem skiptir máli þarf að vera í umsókninni. Allur óþarfi spillir hinsvegar fyrir. Það virkar ekki vel á þann sem tekur á móti umsókninni að fá til sín bunka af fylgigögnum.
  • Fara eftir leiðbeiningum! Senda með það sem beðið er um, en annað ekki. Oft eru sérstök eyðublöð sem skila þarf inn þegar sótt er um styrk og þá ber manni að nýta þau, en ekki skrifa sína eigin umsókn.
  • Fylla út í alla reiti á eyðublaðinu. Ekki sleppa því og vísa í fylgigögn, slíkt pirrar þann sem fær umsóknina í hendur og gerir styrkveitinguna ólíklegri.
  • Beina á spjótum að verkefninu sjálfu en ekki að þeim aðila sem sækir um styrkinn og ágæti hans, nema sérstaklega sé farið fram á ákveðnar upplýsingar.
  • Bakgrunnur verkefnisins, tilgangur og markmið, eru nauðsynleg í umsókn. Hvaða ávinningi gæti verkefnið skilað? Hver yrði mögulega afraksturinn eða niðurstaðan? Er verkefnið atvinnuskapandi? Fræðandi? Gott fyrir byggðarlagið? Kemur það einhverjum til hjálpar?
  • Vanda skal vinnu við kostnaðar- og tímaáætlun. Oft er beðið um að þessar upplýsingar fylgi umsókninni og miklu máli skiptir að þær séu vel úthugsaðar og raunhæfar.
  • Í umsókn skal benda á alla þætti sem styrkt gætu umsóknina. Þetta gæti t.d. verið sérstaða verkefnisins og mögulegir samstarfsaðilar.
  • Trúverðugleiki er lykilhugmyndin. Þegar spurt er um aðra styrki er oft verið að leita eftir því hvort málið hafi verið hugsað til enda og raunhæft sé að það verði að veruleika.
  • Vandvirkni skiptir máli. Það þarf að vanda alla uppsetningu, málfar og stafsetningu. Athuga að fyllt sé rétt út í alla reiti og að öll gögn sem beðið er um fylgi með.
  • Styrkjum er úthlutað á grunni gæða verkefna og umsókna. Þetta er samkeppni um fjármagn og því er það besta hugmyndin og best framsetta styrkumsóknin sem fær styrkinn.
  • Halda styrkjadagbók! Mikilvægt er að hafa gott yfirlit yfir það hvar maður sótti um, hvenær og hversu mikið? Nauðsynlegt er að halda líka vel utan um alla tengiliði, ef maður átti í samskiptum við einhvern vegna umsóknarinnar og skrifa hjá sér hver niðurstaðan varð af því.
  • Vanda samskiptin við styrkveitendur. Sjálfsögð kurteisi getur haft úrslita áhrif. Það er manni til framdráttar að vera áhugasamur og fylgja málunum eftir, en það getur líka spillt fyrir að vera of ýtinn.

Hvað á að gera ef maður fær ekki styrkinn?

Gott er að velta möguleikanum fyrir sér fyrir fram og hugsa málið til enda. Hvaða aðrar fjármögnunarleiðir gætu komið til greina? Stundum fær maður líka jákvæð viðbrögð, en ekki alveg það sem maður óskaði sér. Til dæmis gæti maður fengið styrkinn, en allt of lága upphæð. Þá er gott að vera búinn að ákveða hvernig maður hyggst bregðast við því. Er hægt að draga úr kostnaði, fara ódýrari leiðina, gefa vinnuframlag eða eitthvað slíkt? Og hvar er hægt að sækja um styrki annars staðar? Margt smátt gerir eitt stórt og ef hugmyndin er góð er mikilvægt að gefast ekki upp þótt móti blási.

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar