Það eru til ótal starfsstéttir í heiminum og það getur verið erfitt að velja hvað maður vill verða. Sumir fást aðeins við eitt starfssvið út ævina, á meðan aðrir flakka á milli starfsstétta og takast á við mörg mismunandi verkefni.  Í greinaröðinni Hvernig verð ég […]? ætlum við að fara yfir leiðina að mismunandi störfum. Hér beinum við sjónum okkar að stílistum.

Hvað gerir stílisti?

Stílisti er manneskja sem þarf að hafa mjög gott auga fyrir litum, tísku og formum.  Það eru til nokkrar gerðir af stílistum:

  • Persónulegur stílisti aðstoðar fólk við að velja föt sem henta manneskjunni vel, hvað varðar útlit og túlkun persónuleikans. Stílisti velur liti, snið, efni og fylgihluti.
  • Ljósmyndastílisti starfar við auglýsingagerð, tískuljósmyndun og kvikmyndir.  Stílistinn velur fyrirsætur, klæðnað, leikmuni og fleira.
  • Matarstílisti starfar við auglýsingagerð og matarljósmyndun og aðstoðar ljósmyndara og kokka við að láta mat líta girnilega út á fallegum bakgrunni.
  • Innanhússtílisti velur húsgögn sem endurspegla stíl persónunnar og aðstoðar við innréttingu og röðun.

Hvernig veit ég hvort starf stílista sé eitthvað fyrir mig?

Stílistar þurfa fyrst og fremst að hafa næmt auga fyrir litum, formum, uppsetningu og tísku. Ef þú hefur mikinn áhuga á tísku gæti stílistastarfið verið fyrir þig, en þú þarft líka að vera góð(ur) í mannlegum samskiptum og eiga auðvelt með að setja þig í spor annarra. Persónulegur stílisti þarf til að mynda að velja föt sem henta viðskiptavininum og fara honum vel, ekki endilega föt sem stílistinn hefur sjálfur smekk fyrir.

Hvar lærir maður að verða stílisti?

Það er enginn skóli á Íslandi sem kennir starf stílistans með beinum hætti, þó að fatahönnun, myndlist, grafísk hönnun og annað listnám geti gefið góðan grunn. Sumir stílistar fara í sérstakt stílistanám, á meðan aðrir komast áfram á reynslu og innsæi.

  • Listaháskóli Íslands er með hönnunarbraut sem er mjög góður grunnur.  Nemandinn velur á milli arkitektúrs, fatahönnunar, grafískrar hönnunar eða vöruhönnunar í BA-náminu en MA-námið er í hvers kyns hönnun og því vel hugsandi að einstaklingurinn gæti einbeitt sér að stílistun í meistaranáminu sínu.

Nám í útlöndum og fjarnám:

  • British College of Professional Styling býður upp á 12-24 vikna fjarnám sem veitir diplómu.  Öll samskipti fara fram í gegnum tölvupóst og í hverri viku eru ný viðfangsefni, svo sem litir, portfólíógerð, stíll karla og tíska.
  • IED í Mílanó býður upp á mastersnám í tískusamskiptum og stíliseringu.  Að lokinni brautskráningu geta nemendur unnið við tískuráðgjöf, stíliseringu, ímyndarráðgjöf, tískumarkaðsráðgjöf og sem straumbreytir/tískuviti (e. trendsetter).
  • London School of Styling er nám sem byggist upp á 7 dagslöngum kúrsum með nokkurra vikna millibili.  Fjórir dagar eru ljósmyndatökur með fagmönnum og hinir dagarnir fara í markaðsetningu, möppugerð og fleira.

Hvar mun ég svo starfa sem stílisti?

Stílistar starfa á ýmsum sviðum, svo sem:

  • Sem persónulegir ráðgjafar fyrir stjörnur og stjórnmálamenn.  Það eru sennilega ekki margar íslenskar stjörnur með stílista á launum hjá sér árið um kring til þess að velja partíklæðnað, en margir kaupa sér vafalaust ráðgjöf, t.d. í upphafi stjórnmálaferils eða við sérstök tækifæri, svo sem við verðlaunaafhendingar eða frumsýningar.
  • Sem persónulegur ráðgjafi fyrir einstakling. Stílistinn fer þá í gegn um fataskáp viðkomandi, parar saman föt sem fara vel saman og fer jafnvel í verslunarferðir með viðkomandi.
  • Sem stílisti við tískumyndatökur eða myndatökur fyrir blöð.  Stílistinn sér þá um val á fötum, fyrirsætum, bakgrunni og fleiru.
  • Sem stílisti fyrir tískublað.  Þá sér stílistinn um að velja föt í umfjöllun, fjalla um tísku og fleira.
  • Sem innanhússtílisti. Stílistinn aðstoðar þá einstakling eða fjölskyldu að velja húsgögn, liti og smámuni sem endurspegla stílinn þeirra.
  • Sem tískuráðgjafi fyrir tískusýningar, í markaðsmálum, samskiptum og fleira.

Heimildir:

Starfsmaður Áttavitans mátar skelfilegan hatt

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar