Af hverju borgar fólk í lífeyrissjóð?
Lífeyrissjóðurinn þinn gegnir þrenns konar hlutverki:
- Hann greiðir þér ellilífeyri til æviloka.
- Hann greiðir þér lífeyri ef þú verður fyrir tekjumissi vegna slyss eða veikinda (örorkulífeyrir).
- Hann greiðir maka þínum og börnum lífeyri ef þú fellur frá (maka- og barnalífeyrir).
Lífeyrissjóðum er ætlað að vera samtrygging fyrir launfólk í landinu. Með því er greiða í lífeyrissjóð er verið að leggja grunninn að fjárhagslegu öryggi á elliárunum. Lífeyrissjóðir tryggja ellilífeyri eftir að fólk lýkur störfum og til æviloka. Einnig tryggja lífeyrissjóðsgreiðslur fólki örorku- og endurhæfingarlífeyri ef það missir starfsorkuna vegna slysa eða veikinda.
Þarf að borga í lífeyrissjóð?
Já, öllum 16 ára og eldri er skylt að greiða í lífeyrissjóð. Lögbundið lágmarksgjald til lífeyrissjóðs er 12% af heildarlaunum frá 16 ára aldri til sjötugs. Starfsfólk greiðir almennt 4% af launum sínum í lífeyrissjóð og mótframlag vinnuveitanda á að vera um 11,5%.
Sjálfstætt starfandi einstaklingum er skylt að greiða 12% launa sinna í lífeyrissjóð, þar sem þeir teljast hvort í senn launþegi og vinnuveitandi.
Á fræðsluvef Landssamtaka lífeyrissjóðanna, gottadvita.is, má finna nánari svör við ýmsum spurningum sem upp geta komið varðandi lífeyrissjóðsgreiðslur.
Hvað er viðbótarlífeyrissparnaður?
Viðbótarlífeyrissparnaður er viðbót við lögbundinn lífeyrissparnað. Hægt er að greiða aukalega í séreignarsjóð (inn á reikning sem tilheyrir starfsmanninum og engum öðrum). Greiðslan er 2-4% af laununum og þarf þá vinnuveitandi að greiða 2% í mótframlag.
Launþegar og sjálfstæðir atvinnurekendur hafa val um að greiða allt að 4% af heildarlaunum sínum til viðbótar við venjulegan skyldu lífeyrissparnað. Gott er byrja að spara snemma með viðbótarlífeyrissparnað til að koma í veg fyrir verulega tekjuskerðingu við starfslok.
Nokkrir kostir viðbótarlífeyrissparnaðar:
- Bætt lífskjör á efri árum.
- Viðbótarlífeyrissparnaður er undanþeginn skatti á meðan sparnaði stendur (við úttekt þarf þó að borga tekjuskatt).
- Mótframlag er greitt af vinnuveitanda.
Á vef Landsbankans má reikna út mögulegar greiðslur úr viðbótarlífeyrissjóði að lokinni starfsævi.
Hver er munurinn á lögbundnum lífeyrissjóðsgreiðslum og viðbótarlífeyrissparnaði?
Þegar maður greiðir lögbundinn lífeyrissparnað safnast hann ekki upp hjá manni sjálfum, eins og á bankabók, heldur fer í sameiginlegan sjóð allra sem í hann greiða. Upphæð er svo deilt út til sjóðsfélaga og fær hver um sig ákveðna upphæð. Það er því ekki beinar krónur sem maður safnar sér inn á bók. Viðbótarlífeyrissparnaðurinn er hinsvegar séreign sem safnast upp inni á bók.
Á hverju ári eiga sjóðsfélagar að fá sent yfirlit um iðgjöld frá lífeyrissjóði sínum um áunnin réttindi. Gott er að skoða þau vel.
Hver er minn lífeyrissjóður?
Á launaseðli þínum á að koma fram í hvaða lífeyrissjóð þó greiðir. Allir eru skyldugir til að eiga aðild að þeim lífeyrissjóði sem vísað er til í kjarasamningi þeirra eða ráðningarsamningi. Ef enginn kjarasamningur tekur til viðkomandi starfs eða samningsbundin starfskjör eru ekki byggð á kjarasamningi velur einstaklingur sér lífeyrissjóð eftir því sem reglur sjóðanna leyfa. Reglur einstakra lífeyrissjóða leyfa þó ekki aðild hvers sem er. Þannig er því til dæmis varið með lífeyrissjóði opinberra starfsmanna.
Nánari upplýsingar:
Upplýsingavefur um lífeyrismál.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?