Hvað er flatlús?
Flatlús er sníkjudýr, ekki ólíkt lúsinni sem tekur sér bólstað í hárinu á höfði fólks, nema hvað flatlúsin sest yfirleitt að í kynfærahárum.
Hver eru einkenni flatlúsar?
Flatlús sést með berum augum. Hún kemur sér fyrir í hárum, oftast í kringum kynfæri, en einnig getur hún verið í handarkrika, bringuhárum, augnabrúnum, augnhárum og hársverði. Flatlúsin sýgur blóð gegnum húðina og veldur roða og miklum, staðbundnum kláða.
Er hættulegt að fá flatlús?
Nei, flatlús veldur ekki líkamstjóni. Fyrst og fremst eru það óþægindi sem fylgja henni.
Hvernig smitast flatlús?
Flatlús smitast við nána snertingu en einnig með handklæðum, sængurfatnaði og fötum.
Hvernig er flatlús greind?
Flatlús er greind í læknisskoðun. Hægt er að hafa samband við göngudeild húð- og kynsjúkdóma eða heimilislækni.
Hver er meðferðin við flatlús?
Hægt er að kaupa lúsaáburð án lyfseðils í lyfjaverslunum. Hann er borinn á alla hærða staði nema hársvörðinn á höfðinu. Fara skal nákvæmlega eftir leiðbeiningunum sem fylgja með í umbúðum lyfsins. Bólfélagar og fjölskyldumeðlimir verða líka að fá meðferð svo smit eigi sér ekki stað aftur. Sængurver og föt skal þvo á venjulegan hátt.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?