Hvað er HIV?

HIV er vírus sem getur smitast manna á milli með blóði, sæði, leghálsslími og brjóstamjólk.  HIV er skammstöfun fyrir Human Immunodeficiency Virus.  Þetta er nú ansi stór munnbiti, svo við skulum brjóta þetta niður:

H – Human – Veiran ræðst bara á mannfólk.

I – Immunodeficiency – “Immuno system” þýðir “ónæmiskerfi” á meðan “deficiency” þýðir skortur”.  Veiran ræðst á ónæmiskerfið og eyðileggur frumur sem hjálpa þér að ráðast á sjúkdóma.  Það skaddar því ónæmiskerfið þannig að þig skortir varnir til að verjast sjúkdómum.

V – Virus – Vírus eða veirur eru örsmáar eindir sem geta smitað frumur lífvera. Veirur nota frumur lífverunnar sem þær eru í til þess að fjölga sér.

HIV hegðar sér á margan hátt eins og aðrir vírusar, svo sem kvefvírus.  Venjulega ræður þó ónæmiskerfið við vírusana sjálft, en þar sem HIV ræðst á ónæmiskerfið ræður það ekki við vírusinn.  HIV veiran er því í þér ævilangt (með nokkrum mjög langsóttum undantekningum).

HIV veiran ræðst á T-hjálparfrumur eða CD4-frumur og tekur þær yfir.  HIV notar þessar frumurnar til að fjölga sér og þannig breiðist HIV veiran hratt um líkamann.  Þegar HIV hefur eyðilagt nægilega margar CD4-frumur er ónæmiskerfi líkamans í hættu og getur ekki varist sveppum, vírusum og sníklum sem það ætti annars ekki í vandræðum með.

Hvað er alnæmi (AIDS)?

Þegar HIV veiran hefur náð að eyðileggja ákveðið margar CD4-frumur er líkaminn orðinn mjög varnarlaus gegn alls kyns sýkingum.  Þá er manneskjan komin með alnæmi.  Alls ekki allir einstaklingar með HIV sjúkdóminn fá alnæmi, því HIV veirunni er hægt að halda niðri með lyfjum.  Alnæmi er heilkenni, það er samansafn einkenna og sjúkdóma.

Hver eru einkenni HIV?

Hluti nýsmitaðra fá einkenni fáeinum dögum eða vikum eftir smit. Helstu einkennin eru almennur slappleiki, hálssærindi, eitlabólgur, útbrot, höfuðverkur og vöðva- og liðverkir.  Þessi einkenni eru í raun ekkert ólík flensueinkennum.  Eftir það eru flestir einkennalausir í mörg ár.  Það er því mikilvægt að fólk í áhættuhópum fari reglulega í blóðprufu til að kanna hvort um smit sé að ræða.

Einkenni alnæmis, sem er lokastigið, eru óvenjulegar sýkingar sem sjást yfirleitt ekki nema hjá einstaklingum með verulega skert ónæmiskerfi. Þegar svo er komið sögu geta sjúklingar fengið svæsnar lungnabólgur, sýkingar í miðtaugakerfi, langdreginn niðurgang, lystarleysi og megrast verulega.

Sjúklingar með alnæmi geta einnig fengið sjaldgæfar tegundir af krabbameinum. Algengast þeirra er svokallað Kaposis sarkmein. Sést það oftast sem fjólubláir blettir eða skellur á húð, sem er það sem maður sér oft í bíómyndum þegar einstaklingurinn er langt genginn með alnæmi.

Hvernig smitast HIV?

HIV-veiran er yfirleitt ekki bráðsmitandi, en getur smitast með líkamsvessum.  Þessir líkamsvessar eru:

  • Blóð
  • Sæði
  • Leghálsslím
  • Endaþarmsvökvi
  • Brjóstamjólk

Líkamsvessarnir þurfa að komast í opin sár, slímhúð eða hreinlega verið sprautað inn í blóðstreymið svo að smit sé mögulegt.  Slímhúð er rakir, mjúkir líkamsvefir, en slímhúð er að finna í endaþarmi, leggöngum, þvagopi á limi og í munni.

HIV-veiran smitast fyrst og fremst:

  • Með kynmökum.  Endaþarmsmök eru hættulegri en leggangamök.  Þá er áhættusamara að vera “bottom” heldur en “top” í endaþarmsmökum.  Að vera með aðra kynsjúkdóma fyrir getur einnig aukið líkurnar.
  • Þegar fólk deilir menguðum sprautunálum, sprautum eða öðrum tólum sem notuð eru til að undirbúa fíkniefni sem sprautað er í blóðrásina.

 

Mun óalgengara er að HIV smitist með eftirfarandi hætti:

  • Að móðir smiti barn sitt á meðgöngu, í fæðingunni og með því að gefa því brjóst.
  • Að vera stunginn með HIV mengaðri nál eða beittum hlut (á aðallega við heilbrigðisstarfsfólk).
  • Að smitast við blóðgjöf eða líffæragjöf.  Mjög lítil áhætta, því að allt blóð er skimað.
  • Að vera bitinn af manneskju með HIV.  Mjög ólíklegt og aðeins er möguleiki á smiti ef maður er bitinn til blóðs.
  • Við munnmök.  Munnmök þar sem limur er sleiktur eða soginn og sáðlát í munn á sér stað eru áhættusamari.
  • Smit þar sem HIV-sýkt blóð eða HIV-sýktir líkamsvessar fara í opið sár eða á slímhúð getur átt sér stað, en það er rosalega sjaldgæft.
  • Mjög djúpur sleikur getur mögulega valdið smiti ef HIV smituð manneskja er með munnangur eða blæðandi góma.  Þetta er þó mjög, mjög sjaldgæft.  HIV smitast ekki með munnvatni.

 

HIV smitast ekki:

  • Með lofti eða vatni.
  • Með skordýrabitum.
  • Með munnvatni, tárum, svita, hósta eða hnerra.
  • Með venjulegum snertingum, svo sem handabandi, faðmlögum eða með því að deila drykkjarílátum.
  • Með klósettsetum.

HIV smitast ekki í daglegri umgengni. Algjörlega hættulaust er því að búa á sama heimili eða vera í daglegu samneyti við þann sem er smitaður af veirunni.

Smit er mun ólíklegra frá HIV-smitaðri manneskju sem er með “ómælanlegt veirumagn”, það er þegar veirumagnspróf mælir engar veirur lengur.  Þær eru þó ennþá til staðar og geta smitað en það er mjög ólíklegt.  Ef að smitaður einstaklingur tekur lyfin sín rétt nær hann oft að halda veirumagninu ómælanlegu út ævina.

Hvernig er tjékkað á HIV?

HIV-smit er greint með mótefnaprófi í formi blóðprufu.  Á Göngudeild smitsjúkdóma, A3. LSH í Fossvogi er tekið á móti einstaklingum í HIV ráðgjöf og mótefnamælingu. Móttakan er opin frá 8-16 mánudaga til fimmtudaga og svo til hádegis á föstudögum. Símanúmerið er 543-6040 og hægt er að fá tíma með litlum fyrirvara og oftast samdægurs.

Hvernig er meðferðin við HIV?

HIV er ólæknandi sjúkdómur. Þó er hægt að taka daglega inn HIV-lyf sem geta hægt á fjölgun veirunnar í líkamanum og þar með bætt líðan og lengt líf HIV-jákvæðra. Lyfjatökunni geta fylgt aukaverkanir. Lyfin verða sjúklingar að taka allt sitt líf.  Lyfin valda því að veirumagninu er haldið mjög lágu.  Ef einstaklingurinn tekur ekki inn lyfin getur HIV orðið að alnæmi á nokkrum árum.  Ef lyfin eru hins vegar tekin eru litlar líkur á því og lífslíkur einstaklingsins svipaðar og hjá ósmituðu fólki.  Það dregur líka úr líkum á því að smita aðra.

Er HIV dauðadómur?

Nei.

Að lifa með HIV

Lyfin við HIV eru orðin svo góð í dag að þótt að einstaklingurinn sé smitaður getur hann lifað góðu og heilbrigðu lífi, eignast börn og fjölskyldu.  Hins vegar eru miklir fordómar í samfélaginu og sumir líta á HIV smitað fólk eins og það sé geislavirkt.  Þessa fordóma þarf að uppræta, því HIV er alls ekki sami dauðadómurinn og það var fyrir áratug eða tveimur.

Heimildir:

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar