Hver eru einkenni lifrarbólgu?
Bráð lifrarbólga veldur oft kviðverkjum og gulri húð. Ógleði, hiti og slappleiki eru líka einkennandi ásamt rauðbrúnum lit á þvaginu og ljósum hægðum. Sumir fá einnig liðverki. Lifrarbólga getur verið alveg einkennalaus. Einkenni bráðrar lifrarbólgu koma oftast í ljós tveimur til þremur mánuðum eftir smit.
Er lifrarbólga hættuleg?
Já, bráð lifrarbólga getur í einstaka tilfellum leitt til dauða. Þegar lifrarbólga B er viðvarandi getur hún verið alvarleg og lífshættuleg. Þá getur hún þróast yfir í skorpulifur og lifrarkrabbamein.
Hvernig er lifrarbólga greind?
Sjúkdómurinn er greindur með blóðprufu sem hægt er að fá tilvísun fyrir hjá öllum læknum. Niðurstöður liggja fyrir innan nokkurra daga. Hægt er að hafa samband við göngudeild húð- og kynsjúkdóma eða heimilislækni.
Hver er meðferðin við lifrarbólgu?
Meðferð er til við bráðri lifrarbólgu B en henni er aðeins beitt í alvarlegri tilvikum. Þeir sem smitast á fullorðinsaldri fá reyndar einungis bráða lifrarbólgu í eitt skipti og batnar þeim síðan. Ef lifrarbólgan þróast yfir í viðvarandi lifrarbólgu er í vissum tilfellum hægt að veita meðferð við henni. Hægt er að fá fyrirbyggjandi meðferð við lifrarbólgu B með bólusetningu og getur fólk, sem gæti verið í smithættu en er ekki smitað, látið bólusetja sig.
Hvernig smitast lifrarbólga?
Veiran leynist í líkamsvessum eins og blóði, sæði og leggangavökva/slími. Við samfarir smitast veiran með þessum líkamsvessum á kynfæri, í munn og endaþarm.
Hvernig er hægt að koma í veg fyrir smit?
Rétt notkun smokksins getur komið í veg fyrir smit. Sprautufíklar skulu gæta þess að deila aldrei sprautum eða sprautunálum eða skeiðum með öðrum.
Hver er munurinn á lifrabólgu B og C?
Afleiðingar lifrabólgu B og C er nokkurnvegin þær sömu. Munurinn er hinsvegar sá að hægt er að bólusetja sig fyrir afbrigði B – en ekki C. Einnig koma síður fram einkenni hjá þeim sem smitast af afbrigði C en þeim sem smitast af B. Eins smitast lifrabólga C aðallega með blóði á meðan að B getur auðveldlega smitast við kynmök.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?