Vegan – grænkerar
Grænkerar eru grænmetisætur sem neyta engra dýraafurða. Þessi hópur sækir alla næringu úr plönturíkinu og borðar því ekki kjöt, fisk, mjólkurvörur, egg eða aðrar dýraafurðir. Grundvöllur veganisma er sú siðferðislega afstaða að rangt sé að líta á dýr sem hráefni eða vörur. Þar af leiðandi er einnig algengt að vegan fólk forðist að nota allar vörur sem eru unnar eru úr, af eða með dýrum líkt og leður, ull, silki, sápu úr dýrafitu o.s.frv. og það sama á við um vörur sem prófaðar eru á dýrum.
Af hverju vegan?
Þrjár megin ástæður liggja oftast fyrir því að fólk gerist vegan. Það er vegna dýraverndunar, umhverfisverndunar og af heilsufarsástæðum.
Dýravernd
Þau sem gerast vegan af dýrverndunarástæðum telja að öll dýr hafa jafnan rétt til lífs án þjáningar. Þess vegna telja þau það siðferðislega óverjandi að drepa dýr eða valda þeim skaða með öðrum hætti. Þetta er í raun byltingakennd hugmynd þar sem samfélagið lítur alla jafna á dýr sem vörur eða framleiðslueiningar – að gæludýrum undanskyldum.
Umhverfisvernd
Framleiðsla, flutningur, slátrun og vinnsla á kjötvörum orsakar mikinn útblástur gróðurhúsalofttegunda. Til þess að ala dýr þarf að gefa þeim að borða en það fer mikið land undir ræktun fóðurs fyrir dýr sem alin eru til manneldis sem annars mætti nota til framleiðslu ræktunar á mat. Auk þess eru skógar felldir til þess að rækta fóður handa dýrum en tré binda koltvísýring sem er ein helsta gróðurhúsalofttegundin og þar af leiðandi ein af megin orsökum hnattrænnar hlýnunnar. Eyðing skóga dregur úr líffræðilegri fjölbreytni – þ.e. fleiri tegundur dýra og plantna deyja út og ofræktun og ofbeit lands veldur jarðvegseyðingu.
Heilsufar
Ljóst er að vegan mataræði getur haft góð áhrif á heilsufar. Rannsóknir hafa sýnt fram á að vegan mataræði dregur úr hættu á sykursýki tvö, háum blóðþrýsting, offitu og hjartasjúkdómum.
Hvað þarftu að hafa í huga?
Líkt og með aðrar lífsstíllsbreytingar þá þarf að hugsa um þau áhrif sem þær hafa á lífið frá degi til dags.
Næring
Hægt er að nálgast öll lífsnauðsynleg næringarefni og vítamín úr plönturíkinu. Vegan mataræði inniheldur hinsvegar lítið af D-vítamíni, B-12, sinki, ómega-3 fitusýrum og kalki. Því þurfa veganistar að hafa þessi næringarefni í huga og mögulega taka inn bætiefni eftir þörfum.
Fyrirhöfn
Að vera vegan getur krafist mikillar vinnu, sérstaklega í upphafi. Það getur verið hjálplegt að líta á þessa breytingu sem ferli þar sem dýraafurðir hverfa jafnt og þétt úr mataræðinu. Dýraafurðir leynast víða en hinsvegar hefur úrval vegan matvæla og matölustaða sem bjóða upp á vegan rétti aukist gríðarlega undan farin ár. Auðvelt er að sjá hvaða vörur eru vegan og hvar þær fást á merkt vegan.
Samfélagið
Fólk sem gerist vegan getur lent í því að mæta andstöðu frá fjölskyldu, vinum og jafnvel ókunnugum. Hinsvegar nýtur vegan-lífstíllinn sífelt meiri viðurkenningar og vinsælda. Best er að reyna að láta þessa afskiptasemi hafa sem minnst áhrif á sig.
Vegan samfélagið
Það er mjög virkt íslenskt vegan samfélag á internetinu. Upplýsingar um vegan á íslensku má finna á vefsíðu samtaka grænkera á Íslandi og heimsíðu veganúar átaksins sem dæmi. Þá er til staðar virkur umræðuhópur á Facebook sem ber heitið Vegan Ísland.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?