Af hverju fær fólk fótasvepp?
Ákveðnir sveppir og bakteríur lifa í líkama okkar án þess að valda skaða. En í sumum tilvikum geta þær fjölgað sér um of og valdið sýkingu. Þetta er það sem gerist þegar fólk fær fótasvepp: Vöxtur sveppa verður of mikill og veldur því sveppasýkingu. Fótasveppir eru algengustu sveppasýkingarnar í húð fólks og þrífast þeir best í hita og raka. Fótasveppir eru algengir hjá íþróttafólki, þeim sem stunda mikið sundstaði eða sækja aðrar almenningssturtur.
Hver eru einkenni fótasvepps?
Einkenni fótasvepps geta verið mismunandi eftir fólki – og mismikil. Eftirfarandi atriði geta gefið vísbendingu um að fólk sé með fótasvepp:
- Mikil táfýla og táfýla sem lyktar dálítið eins og gráðaostur.
- Kláði, stingur og sviði í húðinni á tánum.
- Rauð útbrot á fótum, litlar bólur eða húð sem flagnar.
- Blöðrur, rifur eða lítil göt á húð, til dæmis á milli tánna.
- Útbrot sem valda því að vessi lekur úr þeim.
- Skorpa eða hrúður á fótum.
- Táneglur taka litbreytingum, verða þykkari eða losna.
Hvað er til ráða við fótasvepp?
Stundum læknast fólk af fótasvepp af sjálfu sér ef húðinni er haldið þurri og fólk forðast að vera lengi í lokuðum skóm. Þetta á þó sjaldnast við um sveppi í tánöglum. Besta ráðið er sennilega að kaupa krem í apóteki, t.d. Lamisil sem oftast er notað þegar þetta vandamál kemur upp og fæst það án lyfseðils. Sé vandamálið illviðráðanlegt eða sveppurinn kominn í táneglur verður að leita til húðlæknis.
Besta ráðið er sennilega að kaupa krem í apóteki, t.d. Lamisil sem oftast er notað þegar þetta vandamál kemur upp og fæst það án lyfseðils
Önnur góð ráð
Til að forðast fótasvepp, eða reyna að vinna bug á honum, er best að fara að þessum ráðum:
- Gæta hreinlætis, halda fótum þurrum og þurrka sér vel á milli tánna eftir böð.
- Skipta daglega um sokka og henda sokkum sem eru orðnir of gamlir.
- Þvo handklæði reglulega með þvottaefni á hita yfir 60°c.
- Þrífa reglulega sturtubotninn eða baðkarið.
- Hægt er að notast við púður á fætur sem dregur í sig raka. Einnig er til púður sem inniheldur efni sem vinna á sveppum.
- Snjallræði er að klæðast baðtöfflum þegar farið er í sturtu á almenningsstöðum.
- Nota skal skó sem lofta vel og forðast að vera lengi í heitum og lokuðum skóm.
- Gott er að skipta út gömlum íþróttaskóm eða öðrum skóm sem lykta illa.
- Þeir sem eru mjög viðkvæmir fyrir smiti geta notað sveppakrem einu sinni í viku, sem fyrirbyggjandi aðgerð.
Á vef Húðlæknastöðvarinnar má finna ítarlega grein um sveppasýkingu á fótum.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?