Hvað er sveppasýking á kynfærum?

Sveppasýking á kynfærum orsakast af gersveppnum „Candida albicans“. Hann er til staðar víða á líkamanum, m.a. í meltingarvegi, húð og í leggöngum kvenna, en aðeins í litlu magni.  Ef magn hans eykst veldur það hinsvegar sveppasýkingu með tilheyrandi óþægindum.

Hver eru einkenni sveppasýkingar á kynfærum?

Einkenni sveppasýkingar hjá konum eru:

  • hvítleit útferð;
  • kláði;
  • roði og sviði á skapabörmum, jafnvel í kringum endaþarmsop;
  • sviði við þvaglát;
  • vond lykt.

Einkenni sveppasýkingar hjá körlum er:

  • roði og bólga undir forhúð;
  • stundum hvítleit skán og kláði;
  • vond lykt, – ekki ósvipuð úldnum fiski eða gráðaosti.

Yfirleitt er hægt að skera úr um hvort um sveppasýkingu er að ræða með því að láta taka sýni hjá kynsjúkdómalækni.  Mikilvægt er að ganga úr skugga um að einkennin séu ekki af völdum annarra sjúkdóma. Aðrir kynsjúkdómar, eins og klamydía og lekandi, hafa svipuð einkenni. Einnig gætu einkenni bent til annarra sjúkdóma en kynsjúkdóma, eins og t.d. sykursýki.

Hvað orsakar sveppasýkingu?

Ýmislegt getur orsakað sveppasýkingu og aukið magn sveppa í líkama fólks. Þar á meðal:

  • notkun sýklalyfja, magasárslyfja og jafnvel getnaðarvarna;
  • meðganga;
  • sykursýki;
  • óhófleg neysla á ýmsum matvælum, t.d. geri, sykri og mjólkurvörum;
  • streita og álag;
  • óhófleg áfengisneysla;
  • umhverfismengun;
  • geislameðferðir.

Smitast sveppasýking á milli fólks?

Í stuttu máli, já. Sveppasýking á kynfærum flokkast ekki sem kynsjúkdómur, en þó getur hún smitast frá konu til karls. Sjaldgæft er að karlar smiti konur af sveppasýkingu.

Má stunda kynlíf með sveppasýkingu?

Það má stunda kynlíf með sveppasýkingu en betra er að nota smokk á meðan meðferð stendur til að koma í veg fyrir smit á milli aðila.

Hver er meðferðin við sveppasýkingu?

Stundum læknast sveppasýking af sjálfu sér, en valdi hún miklum óþægindum er hægt að meðhöndla konur með kremi og leggangastíl, sem fæst í apótekum án lyfsseðils. Karlmenn má einnig meðhöndla með kremi. Sjaldan þarf að taka inn lyf við sveppasýkingum. Algengt er að þeir sem fái sveppasýkingu fái hana aftur.

Til að fyrirbyggja sveppasýkingu má reyna eftirfarandi:

  • Ef fólk tekur sýklalyf er hægt að taka inn Acidophilus töflur samfara því. Þær fást í apótekum og matvöruverslunum.
  • Hægt er að draga úr neyslu á geri, áfengi, sykri og mjólkurvörum (sér í lagi mygluostum).
  • Gæta að hreinlæti og þurrka sér vel eftir böð.
  • Ganga ekki í þröngum buxum og g-strengs nærbuxum. Skipta út gömlum nærbuxum og nota nærbuxur úr bómull.
  • Gæta þess að sýklar berist ekki frá endaþarmi yfir í leggöng, t.a.m. þegar fólk skeinir sér eða stundar kynlíf.
  • Öflug leið til að vinna gegn endurteknum sveppasýkingum er að byggja upp ónæmiskerfið. Ýmis bætiefni sem styrkja ónæmiskerfið eru fáanleg í     apótekum, en mikilvægast er að leggja stund á heilbrigðan lífsstíl.

Nánari upplýsingar um sveppasýkingu í kynfærum má nálgast á vef Húðlæknastöðvarinnar og vef Heilsuhússins.

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar