Hver eru einkenni lekanda?

Lekandi getur verið einkennalaus. Einkenni koma oftast fram einum til sjö dögum eftir smit en geta þó gert það síðar.

Hjá konum eru einkennin:

  •     útferð frá leggöngum,
  •     sviði við þvaglát,
  •     verkir neðarlega í kvið,
  •     milliblæðingar eða blæðingar eftir kynmök,
  •     verkir við kynmök.

Hjá körlum eru einkennin:

  •     útferð frá typpi,
  •     verkir eða sviði við þvaglát,
  •     verkir eða bólga í eistum.

Er lekandi hættulegur?

Já, lekandi er alvarlegur sjúkdómur því hann getur valdið ófrjósemi. Þetta á bæði við um konur og karla. Lekandi getur einnig valdið sýkingu og bólgu í liðum, augnsýkingum og í verstu tilvikum sýkingu í eggjaleiðurum og kviðarholi.

Hvernig er lekandi greindur?

Hægt er að staðfesta lekanda með ræktun frá stroksýni úr þvagrás, leghálsi, þvagi eða endaþarmi eftir aðstæðum. Hægt er að hafa samband við göngudeild húð- og kynsjúkdóma og panta tíma í rannsókn. Kvensjúkdómalæknar á stofu geta einnig tekið sýni.

Hvernig er meðferðin við lekanda?

Notuð eru sýklalyf við lekanda. Margir stofnar lekandabakteríunnar eru ónæmir fyrir ýmsum sýklalyfjum. Þess vegna er nauðsynlegt að taka sýni til ræktunar til að kanna næmi bakteríunnar fyrir sýklalyfjum svo hægt sé að tryggja að rétt meðferð verði gefin.

Hvernig smitast lekandi?

Smit á sér stað við samfarir þegar sýkt slímhúð kemst í snertingu við slímhúð bólfélagans. Smit getur einnig átt sér stað við endaþarms- og munnmök.

Hvernig má koma í veg fyrir smit?

Smokkurinn er eina vörnin gegn smiti.

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar