Einkenni kynsjúkdóma eru mismunandi. Margir þeirra hafa samt samskonar einkenni. Hér er að finna stuttar lýsingar á þekktum kynsjúkdómum karla og einkennum þeirra.

Ef þú ert með eitt eða fleiri af þessum einkennum skaltu hafa samband við heilsugæsluna í þínu hverfi/byggðalagi eða panta tíma á göngudeild húð- og kynsjúkdóma sem staðsett er á Landspítalanum í Fossvogi (Sími:543-6050) og fá þar nánari ráðgjöf, próf eða meðferð.

ATH! Á  Áttavitanum má einnig finna gein um helstu enkenni kynsjúkdóma kvenna

Helstu einkenni kynsjúkdóma karla

Taflan hér að neðan sýnir skilmerkilega einkenni kynsjúkdóma karla. Að neðan má svo lesa meira um sjúkdómana og einkenni þeirra.

Einkenni kynsjúkdóma karla

Athugaðu að sumar kynsjúkdómabakteríur fyrirfinnast einnig í hálsi og endaþarmi, en einkenni af þeirra völdum eru ekki talin með hér.

Einkenni klamydíu

Klamydía er kynsjúkdómur sem smitast með bakteríu sem tekur sér bólfestu á slímhúð kynfæra, þvagrásar eða í endaþarmi. Bakterían getur valdið bólgum á þessum stöðum. Um 2000 Íslendingar greinast árlega með klamydíu
Hjá körlum eru einkennin eftirfarandi:

  • Glær vökvi, gul eða hvít útferð úr þvagrásinni.
  • Sviði við þvaglát og/eða tíð þvaglát.
  • Eymsli og/eða verkir í pung.
  • Í einstaka tilvikum veldur sjúkdómurinn liðverkjum og liðbólgum.

Meira um klamydíu á Áttavitanum 

Einkenni lekanda

Lekandi er kynsjúkdómur sem getur valdið ófrjósemi. Bakterían tekur sér bólfestu í kynfærum, þvagrás, endaþarmi eða hálsi.
Hver eru einkenni lekanda
Lekandi getur verið einkennalaus. Einkenni koma oftast fram einum til sjö dögum eftir smit en geta þó gert það síðar.
Hjá körlum eru einkennin eftrirfarandi:

  • útferð frá typpi,
  • verkir eða sviði við þvaglát,
  • verkir eða bólga í eistum.

Meira um lekanda á áttavitanum 

Einkenni sárasóttar

Sárasótt, eða syphilis, er kynsjúkdómur sem orsakast af bakteríu. Sjúkdómurinn veldur útbrotum á húð og getur valdið skaða á hjarta, heila og taugum.
Hver eru einkenni sárasóttar?
Fyrstu einkenni sárasóttar eru sár á þeim stað sem bakterían komst í snertingu við, oftast á kynfærum, í endaþarmi eða munni. Nokkru síðar geta myndast útbrot á húðinni. Ef sjúkdómurinn fær að grassera lengi í fólki koma einkenni fram í miðtaugakerfi og hjarta- og æðakerfi. Fyrstu einkenni sárasóttar koma í ljós 10 dögum til 10 vikum eftir smit.

Meira um sárasótt á Áttavitanum 

Einkenni kynfæravarta

Kynfæravörtur eru sýking af völdum HPV-veira. Margar gerðir eru þekktar af þessum veirum og hafa sumar þeirra verið tengdar leghálskrabbameini. Sýkingin getur valdið vörtum við og á kynfærum. Talið er að meira en helmingur þeirra sem eru virkir í kynlífi beri HPV-veiruna einhvern tímann á ævinni.
Hver eru einkenni kynfæravarta?
Kynfæravörtur myndast við og á kynfærum. Þær sjást vel með berum augum og hafa dæmigert útlit: eru ýmist flatar eða upphleyptar, rauðleitar, brúnleitar eða húðlitaðar. Þær geta valdið kláða og ertingu. Alls ekki allir verða varir við sýkingu. Vörturnar koma í ljós frá þremur vikum og allt að tveimur árum eftir smit.

Meira um kynfæravörtur á Áttavitanum 

Enkenni herpes (áblásturs)

Herpes, eða kynfæraáblástur, er sýking af völdum veiru sem orsakar litlar blöðrur og sár á kynfærum. Herpes getur verið mjög svæsinn sjúkdómur, sérstaklega í upphafi smitsins, og getur valdið töluverðum óþægindum
Hver eru einkenni herpes?
Fyrstu einkenni herpes eru sviði eða verkur í húð eða slímhúð. Síðan koma fram misstórar blöðrur. Blöðrurnar springa fljótt og verða að sársaukafullum sárum. Auk þess getur sýkingin valdið hita, höfuðverk, slappleika og í undantekningartilfellum heilahimnubólgu. Í fyrsta sinn sem blöðrur og sár myndast gróa þau vanalega innan þriggja vikna. Þegar sýking á sér aftur stað koma sárin yfirleitt á sama stað og áður en eru vægari, sársaukaminni og gróa yfirleitt hraðar.
Einkennin koma vanalega í ljós einni til þremur vikum eftir smit. Sumir fá einkennin seinna og eru dæmi um að liðið geti langur tími þar til einkennin koma fram. Flestir sem smitast fá reyndar aldrei sár og blöðrur og margir vita því aldrei að þeir séu smitaðir af herpes.

Meira um herpes á Áttavitanum 

Einkenni flatlúsar

Flatlús er sníkjudýr, ekki ólíkt höfuðlúsinni sem tekur sér bólstað í hárinu á höfði fólks, nema hvað flatlúsin sest yfirleitt að í kynfærahárum.
Hver eru einkenni flatlúsar?
Flatlús sést með berum augum. Hún kemur sér fyrir í hárum, oftast í kringum kynfæri, en einnig getur hún verið í handarkrika, bringuhárum, augnabrúnum, augnhárum og hársverði. Flatlúsin sýgur blóð gegnum húðina og veldur roða og miklum, staðbundnum kláða.

Meira um flatlús á Áttavitanum 

Einkenni lifrabólgu

Lifrarbólga er bólga í lifrinni sem orsakast af veiru sem smitast með líkamsvessum. Hluti smitaðra fær viðvarandi lifrarbólgu, einkum ef smitið verður á barnsaldri.
Hver eru einkenni lifrarbólgu?
Bráð lifrarbólga veldur oft kviðverkjum og gulri húð. Ógleði, hiti og slappleiki eru líka einkennandi ásamt rauðbrúnum lit á þvaginu og ljósum hægðum. Sumir fá einnig liðverki. Lifrarbólga getur verið alveg einkennalaus. Einkenni bráðrar lifrarbólgu koma oftast í ljós tveimur til þremur mánuðum eftir smit.

Meira um lifrabólgu á Áttavitanum 

Einkenni HIV og alnæmis

HIV er veira sem ræðst á varnarkerfi líkamans þannig að smám saman missir líkaminn getuna til að berjast á móti sýkingum og sumum tegundum krabbameins. Lokastig HIV kallast alnæmi en þá er líkaminn orðinn alveg varnarlaus gegn sýkingum sem almennt væri ekki.
Hver eru einkenni HIV?
Hluti nýsmitaðra fá einkenni fáeinum dögum eða vikum eftir smit. Helstu einkennin eru almennur slappleiki, hálssærindi, eitlastækkanir, útbrot, höfuðverkur og vöðva- og liðverkir. Eftir það eru flestir einkennalausir í mörg ár, en veiran vinnur smám saman á vörnum líkamans og skemmir ónæmiskerfið. Alnæmi er lokastig sjúkdómsins en þá fer ónæmiskerfið að bresta. Þetta gerist oftast mörgum árum eftir smit. Sá sem er kominn með alnæmi deyr oftast innan fárra ára og þá ekki úr alnæminu sjálfu heldur öðrum sjúkdómum sem líkaminn getur ekki barist við.

Meira um HIV á Áttavitanum (https://attavitinn.is/kynlif/kynsjukdomar/heilsa-og-utlit/hiv)

Hvað skal gera ef þú finnur fyrir einkennum kynsjúkdóms ?

Ef þú ert með eitt eða fleiri af þessum einkennum skaltu strax hafa samband við heilsugæsluna í þínu hverfi/sveitarfélagi eða panta tíma á göngudeild húð- og kynsjúkdóma sem staðsett er á Landspítalanum í Fossvogi (Sími:543-6050) og fá þar nánari ráðgjöf, próf eða meðferð.

Heimildir

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar