Hver eru einkenni sárasóttar?

Fyrstu einkenni sárasóttar eru sár á þeim stað sem bakterían komst í snertingu við, oftast á kynfærum, í endaþarmi eða munni. Nokkru síðar geta myndast útbrot á húðinni. Ef sjúkdómurinn fær að grassera lengi í fólki koma einkenni fram í miðtaugakerfi og hjarta- og æðakerfi. Fyrstu einkenni sárasóttar koma í ljós 10 dögum til 10 vikum eftir smit.

Er sárasótt hættuleg?

Já. Ef fullnægjandi meðferð er ekki veitt á fyrstu stigum sjúkdómsins getur bakterían valdið ýmsum sjúkdómum síðar á ævinni eins og hjarta-, heila- og taugasjúkdómum. Á árum áður var mjög algengt að fólk þróaði með sér geðveiki í kjölfar sárasóttarsmits.

Hvernig er sárasótt greind?

Sárasótt er greind með blóðprufu sem allir læknar geta gefið tilvísun fyrir. Hægt er að hafa samband við göngudeild húð- og kynsjúkdóma eða heimilislækni.

Hvernig er sárasótt meðhöndluð?

Sýklalyf eru gefin við sárasótt og lækna þau sjúkdóminn.

Hvernig smitast sárasótt?

Bakterían sem veldur sárasótt smitast við óvarin kynmök. Sýktir einstaklingar eru aðallega smitandi þegar þeir eru með útvortis sár. Áður fyrr óttaðist fólk sárasótt mest allra kynsjúkdóma. Hér á landi hefur hún verið frekar sjaldgæfur sjúkdómur en þó greinast enn fáeinir á ári. Þá er oftast um gamalt smit að ræða.

Hvernig er hægt að koma í veg fyrir smit?

Smokkurinn verndar einungis þann hluta kynfæranna sem hann hylur, en er þó eina vörnin. Slímhúð og húð sem ekki er hulin getur því sýkst af sárasótt.

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar