Hver eru einkenni klamydíu?
Eins og gildir um marga aðra kynsjúkdóma er fólk oft smitað af klamydíu án þess að vera með nokkur einkenni. Ef einkenni koma fram gera þau það einhvern tíma á fyrstu þremur vikunum eftir kynmök.
Hjá konum eru einkennin eftirfarandi:
- Breytt útferð eða blæðing milli tíða.
- Sviði við þvaglát og/eða tíð þvaglát.
- Verkir í grindarholi. Fólk getur fengið hita meðfram þessu og ætti þá að leita til læknis samdægurs.
- Í einstaka tilvikum veldur sjúkdómurinn liðverkjum og liðbólgum.
Hjá körlum eru einkennin eftirfarandi:
- Glær vökvi, gul eða hvít útferð úr þvagrásinni.
- Sviði við þvaglát og/eða tíð þvaglát.
- Eymsli og/eða verkir í pung.
- Í einstaka tilvikum veldur sjúkdómurinn liðverkjum og liðbólgum.
Er klamydía hættuleg?
Í stuttu máli, já. Klamydía er hættuleg sökum þess að hún getur valdið ófrjósemi bæði hjá konum og körlum.
Hvernig smitast klamydía?
Smit á sér stað við samfarir þegar sýkt slímhúð annars einstaklingsins kemst í snertingu við slímhúð hins. Bakteríurnar geta líka smitast við munnmök. Viss hætta er á því að klamydía geti borist í augu ef sýktur einstaklingur snertir kynfærin og nuddar síðan augun. Þess vegna er góður handþvottur mikilvægur, t.d. eftir að hafa farið á salerni.
Hvernig er klamydía greind?
Karlmenn fara í einfalda þvagprufu. Hjá konum er tekin þvagprufa og/eða strok frá leghálsi. Hægt er að hafa samband við göngudeild húð- og kynsjúkdóma og panta tíma í rannsókn. Kvensjúkdómalæknar á stofu geta einnig tekið sýni.
Hvernig er sjúkdómurinn meðhöndlaður?
Meðhöndlun klamydíu er einföld. Tekin eru sýklalyf, oft ein eða tvær töflur í eitt skipti. Ekki má hafa samfarir frá því að meðferð hefst og í allt að viku eftir að henni lýkur. Mikilvægt er að bólfélagar fái meðhöndlun samtímis.
Hvernig get ég komið í veg fyrir smit?
Smokkurinn er eina vörnin gegn klamydíusmiti.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?