Hvenær er fólk tilbúið að sofa hjá?

Það er einungis manneskjan sjálf sem veit svarið við þessari spurningu. Það verður að hugsa málið vel og ræða við rekkjunautinn um hvort hann eða hún sé líka tilbúin/nn. Ef sambandið er gott og aðilarnir treysta hvorum öðrum þá er ekkert óeðlilegt við að fólk hafi samfarir. Og ef annar hættir við, þá er það í góðu lagi líka og nauðsynlegt að virða þá ákvörðun.

Gott er að spyrja sig eftirtalinna spurninga áður en ákvörðunin er tekin:

 • Líður manni vel með þeim aðila sem maður er að hugsa um að sofa hjá?
 • Getur maður tjáð sig auðveldlega við hann?
 • Er fólk hrifið hvort af öðru?
 • Hvaða þýðingu hefur kynlífið? En fyrir hinn aðilann?
 • Hvað gerist ef fólk bíður með það að sofa saman? Hvaða kosti hefur það að bíða og hvaða galla?
 • Er eitthvað annað sem fólk getur prófað saman áður?
 • Hvað er það sem fólki finnst spennandi við að sofa hjá? Hvað er það sem veldur áhyggjum?
 • Er fólk búið að kynna sér getnaðarvarnir?
 • Eru líkur á kynsjúkdómasmiti? Hvernig er best að koma í veg fyrir það?
 • Er utanaðkomandi þrýstingur að valda því að maður ætlar að sofa hjá einmitt núna?

Einnig getur verið gott að búa til lista með kostum og göllum þess að sofa hjá. Það hjálpar fólki að átta sig á eigin hugsunum og tilfinningum. Ef það er eitthvað sem veldur miklum áhyggjum er kannski betra að bíða aðeins. Mikilvægast af öllu er þó þetta: kynlíf er fyrir mann sjálfan og aldrei ætti að sofa hjá neinum vegna utanaðkomandi þrýstings.

Gott er að hafa í huga . . .

 • Fyrsta skiptið gerist aðeins einu sinni og aldrei aftur. Því skal reyna að skapa því jákvæða og góða minningu.
 • Hægt er að stunda gott kynlíf án þess að beinar samfarir eigi sér stað.
 • Mikilvægt er að nota getnaðarvarnir og verja sig gegn kynsjúkdómasmiti. Ábyrgt kynlíf er ávallt farsælla og kemur í veg fyrir kvíða og áhyggjur eftir á.
 • Kynsjúkdómar geta einnig smitast við munnmök og endaþarmsmök.
 • Ef fólk treystir sér ekki til að ræða þessi mál við hinn aðilann er ólíklegt að nægilegt traust sé á milli fólks til að sofa hjá.

 

 • Var efnið hjálplegt?
 •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar