Það eru margir sem upplifa að finnast farið yfir sín mörk þegar kemur að kynlífi og því miður algengt að fólk láti sig hafa það heldur en að segja frá. Þetta er oft óttinn við að bregðast ekki maka sínum eða hræðsla við viðbrögðin sem fylgja. Það vilja vonandi flestir gera vel við maka sinn en ef þér líður ekki vel með ákveðna athöfn er það bara allt í lagi. Þú hefur alltaf réttinn til að segja nei og á hinn aðilinn að geta tekið því án þess að fara í fýlu, vera með leiðindi eða óþarfa pressu, sama hvort þið séuð í sambandi eða ekki.
Hvað flokkast undir óheilbrigða kynhegðun?
Það þarf ekki að vera að hegðunin sé ofbeldishneigð en hún veldur samt áhyggjum. Það er líklegt að hegðunin sé lúmsk og stjónsemi sé fyrir hendi, jafnvel eitthvað sem er innprentað í samfélagið. Þú heldur kannski að það sé ekkert að en einhver er ástæðan fyrir því að þér líður ekki vel með athafnirnar. Slík hegðun getur haft mikil áhrif á sálarlífið án þess að maður taki eftir því.
Hvað þarf ég að hafa í huga?
Það eru ýmis hegðunarmynstur sem valda áhyggjum en hvað lætur mögulegar viðvörunarbjöllur klingja?
Gera gott við maka þinn en fá ekkert í staðinn
Ef maki þinn er sífellt að biðja um kynlífsgreiða og gefur ekkert af sér tilbaka… þá er það heldur ósanngjarnt. Það gæti þótt ekkert tiltökumál til að byrja með en á einhverjum tímapunkti fær maður nóg. Sambönd snúa að jafnrétti – þú klórar mér á bakinu og ég klóra þér.
Nöldur og suð þrátt fyrir að vera búin/n að segja nei
Það er fáránlegt að jafningi manns suði í manni eftir að hafa fengið nei. Aldrei, aldrei, aldrei detta í meðvirkni þegar þessi hegðun brýst fram hjá makanum. Stattu fast á þínu og reynið að ræða saman um málið… á jafningjagrundvelli auðvitað.
Að hefja mök þegar annar aðilinn er sofandi
Það er ekki kynlíf með samþykki ef annar aðilinn er sofandi heldur er það flokkað sem kynferðisofbeldi eða nauðgun. Ef þú þarft að losa um greddu meðan hinn aðilinn er sofandi… vektu manneskjuna, fáðu samþykki!
Það eru margir sem halda að þetta sé allt gott og blessað en þú átt ekki maka þinn og stjórnar ekki hvenær hann/hún/hán er til í tuskið.
Þegar uppi er staðið er auðvitað ykkar að ákveða hvernig þið viljið hátta hlutunum. Sumir vilja einfaldlega láta vekja sig með snertingu og þá þarf að ræða það og vera á sömu blaðsíðunni.
Gagnrýni og niðurlæging
Þetta er mannskemmandi í hverskonar samböndum, en ennþá verra í rauninni þegar þetta á sér stað með mannseskju sem þú telur þig treysta.
Sem dæmi: Það er sett út á munngælutækni þína, rekkjunauturinn minnist á þyngd þína eða reynir að stjórna því hvort og hvernig þú snyrtir á þér líkamshárin. Þetta er óþarfi að öllu leyti og gerir engum gott. Gagnrýni á að vera uppbyggileg ekki særandi.
Hér geturðu lesið um hvernig hægt er að ræða við makann á virðingarfullan hátt um kynlíf og það sem betur má fara.
Gróft kynlíf getur auðveldlega farið úr böndunum
Ef þú hefur ekki samþykkt t.d. bindingar eða annað sem telst til kynlífs í grófari kantinum fyrirfram og maki þinn meiðir þig ER ÞAÐ EKKI Í LAGI! Sér í lagi ef þú segir stopp en það er haldið áfram án þess að virða þínar óskir.
Að nota líkama þinn fyrir streitulosun
Kynlíf er góð leið til að losa um streitu en það þýðir samt ekki að önnur manneskja geti notað þinn líkama til að láta sjálfu/sjálfri/sjálfum sér líða betur. Ef þú hefur samþykkt kynlíf, eða þið notið bæði/báðir/báðar kynlíf sem streitulosun er það allt gott og blessað. En ef makinn sér þig bara sem einhvern stressbolta til kreista, er það heldur ósanngjarnt. Það á ekki að hlutgera fólk.
Að apa eftir klámi
Margir hverjir kynnast kynlífi í gegnum klám. Klám er allskonar og alls ekki alltaf sýnd eðlileg mynd af því og er það því oft ekki í takt við raunveruleikann.
Klámið hjálpar kannski við að fá hugmyndir, en auðvitað þarf að ræða það við maka sinn/rekkjunaut hvort að hann/hún/hán hafi áhuga á að leika eftir athafnirnar.
Að taka mynd eða myndband án samþykkis
Ef þú vilt fanga augnablikið á mynd – FÁÐU LEYFI!
Ef þú vilt fanga augnablikið á mynd (og þið eruð 18 ára+) getur verið gaman að búa til sína eigin „klámmynd“ eða senda nektarmyndir sín á milli – en AÐEINS ef það er samþykki beggja aðila. Ef einhver pressar á þig að senda myndir, taka upp o.s.frv. er það bara alls ekki kúl.
Hvað get ég gert ef ég tel að kynlífið í mínu sambandi sé ekki eðlilegt/heilbrigt?
Ef þú kannast við eitthvað af þessu hér að ofan, ekki fríka út. Við erum hér til að hjálpa.
Sum óheilbrigð hegðun hefur kannski ekki eins djúpstæð áhrif og aðrar í byrjun en fer þó illa í einstaklinginn og er því hægt að grípa inn í strax.
Heilbrigð sambönd byggjast á góðum samskiptum svo finndu tíma til að ræða þessa hluti eða mögulegar áhyggjur við maka þinn.
Maki þinn gæti þess vegna ekki hafa tekið eftir því að þessi tiltekna hegðun hefði neikvæð áhrif á þig. Í slíkum tilfellum er líklegt að makinn verði miður sín þegar þú segir frá. Ef aðilinn fer í vörn og neitar að eiga í virðingarfullum samræðum við þig, ættirðu kannski að endurskoða sambandið – af hverju þið eruð saman til að byrja með. Er þetta þess virði? Áttu betra skilið?
Ef hegðunin er alvarlegri geturðu samt enn reynt að eiga þessar samræður. Ef þér finnst það óþægilegt, talaðu við einhvern annan, t.d. vin, hjúkrunarfræðing eða ráðgjafa. Það er engin ein rétt leið að leita sér stuðnings, sérstaklega vegna svona persónulegra mála. Gerðu það sem þér finnst vera rétt og eflir þig.
Einhver nákomin/n mér er að lenda í þessu, hvað get ég gert?
Það er erfitt að vita hvað skal gera þegar þig grunar að ekki sé allt með felldu í sambandi vina t.d. Þú gætir þess vegna haldið að þú værir að gera illt verra ef þú réttir út hjálparhönd.
Vinurinn gæti trúað að það sé ekkert til að hafa áhyggjur af sem er oft uppskera sambands sem einkennist af stjórnandi hegðun annars aðilans. Ef samtal virkar ekki, haltu samt áfram að láta vita að þú sért til staðar og tilbúin/n að hlusta ef einstaklingnum snýst hugur. Það er ekki hægt að neyða neinn til að opna sig en vonandi kemur að því þegar einstaklingurinn er tilbúinn.
Úrræði vegna líkamlegs, andlegs eða kynferðisofbeldis
Þjónustumiðstöðvar Reykjavíkurborgar
Þjónustumiðstöðvar Reykjavíkurborgar eru staðsettar á fimm stöðum og sinna ýmiskonar þjónustu við einstaklinga og fjölskyldur. Þar er hægt að leita sér stuðnings ef um ofbeldistengd málefni er að ræða, hvort sem er á heimili eða utan þess. Stuðningurinn er í formi ráðgjafar þar sem þjónustumiðstöðvarnar veita m.a. félags- og fjölskylduráðgjöf.
Sími: 411-1111
Þjónusta Stígamóta er fyrir fólk frá 18 ára aldri, bæði konur og karla. Flestir sem koma til Stígamóta eru brotaþolar kynferðisofbeldis, bæði í æsku og/eða á fullorðinsárum. Stígamót eru líka fyrir fjölskyldumeðlimi og aðra aðstandendur brotaþola.
Sími : 562-6868 / 800-6868
Bjarkarhlíð er miðstöð fyrir þolendur ofbeldis. Markmið Bjarkarhlíðar er að veita stuðning og ráðgjöf ásamt fræðslu og umfjöllun um eðli og afleiðingar ofbeldis, auk þess að gefa skýr skilaboð um að ofbeldi sé ekki liðið. Bjarkarhlíð býður upp á fyrirlestra og námskeið um birtingarmyndir ofbeldis og afleiðingar þess. Bjarkarhlíð er við Bústaðaveg og tók til starfa 1. febrúar 2017.
Sími 553-3000
Neyðarmóttaka fyrir þolendur kynferðisofbeldis – Landspítalinn
Markmið neyðarmóttökunnar er að tryggja velferð og stöðu þeirra sem til þjónustunnar leita vegna nauðgunar, tilraunar til nauðgunar eða annars kynferðisofbeldis.
Tilgangur með þjónustu neyðarmóttökunnar er að draga úr eða koma í veg fyrir andlegt og líkamlegt heilsutjón sem oft er afleiðing kynferðisofbeldis.
Þeim sem leita til neyðarmóttökunnar skal sýnd fyllsta tillitssemi og hlýja og þess gætt að þeim sé ekki mætt með vantrú eða tortryggni.
Símanúmer:
543 1000 – Aðalskiptiborð LSH
543 2000 – Afgreiðsla bráðamóttöku LSH
543 2094 – Neyðarmóttaka á dagvinnutíma
543 2085 – Áfallamiðstöð LSH
Fræðslu- og þjónustumiðstöð fyrir þolendur alls kyns ofbeldis og aðstandendur þeirra. Miðstöðin er fyrir bæði konur og karla.
Símanúmer: 551 5511 / 860 3358
Athvarf fyrir konur og börn þeirra þegar dvöl í heimahúsum er þeim óbærileg vegna andlegs eða líkamlegs ofbeldis eiginmanns, sambýlismanns eða annarra heimilismanna.
Athvarfið er einnig fyrir konur sem hefur verið nauðgað.
Sími: 561 3720
Neyðarnúmer allan sólarhringinn: 561 1205
Í neyðartilfellum skal ávallt hringja beint í 112.
Heimildir:
Reykjavíkurborg
Bjarkarhlíð
Stígamót
Kvennaathvarfið
The Mix
Landspítalinn
Drekaslóð
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?