Hvað er stafrænt kynferðisofbeldi?

Stafrænt kynferðisofbeldi er þegar nektarmyndum eða öðru kynferðislegu efni af annarri manneskju er dreift án hennar samþykkis. Drefingin getur átt sér stað í gegnum netið og utan þess. Stafrænt kynferðisofbeldi getur valdið þeim sem verður fyrir því bæði andlegum og félagslegum skaða. Að deila og dreifa því er alvarlegt brot á einkalífi og frelsi en það er nánast ómögulegt er að taka slíkt efni úr umferð.

stafrænt kynferðisofbeldi getur valdið þeim sem verða fyrir því andlegum og félagslegum skaða.

Má þetta bara?

Þó svo vanti lög sérstaklega gegn stafrænu kynferðisofbeldi er það samt ólöglegt og dómar hafa fallið fyrir dreifingu þess. Á Alþingi hefur fólk verið að vinna í sérstökum lögum sem gera dreifingu hrellikláms ólöglega, það má meðal annars skoða hér.

Öllum er að sjálfsögðu frjálst að taka nektarmyndir af sjálfum sér og telst það til tjáningarfrelsis. Hinsvegar ef þig langar að senda öðrum nektarmynd skaltu vera viss um að viðkomandi hafi áhuga á því að fá slíka þar sem það getur verið lögbrot að senda kynferðislegt myndefni til þeirra sem ekki vilja sjá það.

Ef þú færð slíkt myndefni sent í trúnaði, t.d. í einkaskilaboðum, er þér ekki frjálst að deila því án leyfis. Í fyrsta lagi er það verndað af höfundarréttarlögum og í öðru lagi getur dreifing myndanna brotið gegn persónuverndarsjónarmiðum vegna viðkvæms eðlis þeirra. Þá er það litið mjög alvarlegum augum þegar kynferðislegar myndir eru teknar af manneskju án hennar vitneskju og þeim síðan dreift.

Að lokum þá er það einnig brot að hóta að dreifa nektarmyndum af annari manneskju.

Stutta svarið er því nei, þetta má alls ekki.

Hvað get ég gert?

Ef þú lendir í því að kynferðislegu efni af þér er dreift án þíns samþykkis, þá ertu fórnarlamb stafræns kynferðisofeldis. Skömmin er ekki þín heldur þess sem brýtur gegn þér. Það sem þú getur gert er að leita til lögreglu sem aðstoðar þig við að kæra brotið og Stígamóta til þess að fá stuðning.

Hugtökin hefndarklám og hrelliklám

Hugtakið hefndarklám gefur í skyn að gerandi sé að hefna sín á þolanda. Það er þó alls ekki alltaf tilfellið. Stafrænu kynferðisofbeldi getur verið dreift af ýmsum ásetningi. Stundum er það birt til þess að valda tilfinningalegu tjóni, stundum í þeim ásetningi að eyðileggja orðspor fólks, en því getur einnig verið deilt af hugsunarleysi. Hugtakið hefur einmitt verið gagnrýnt fyrir að vera ólýsandi og villandi og þykir æskilegra að nota hugtakið stafrænt kynferðisofbeldi.

Hugtakið hrelliklám hefur einnig verið gagnrýnt fyrir að vera villandi, sökum þess að tilgangur geranda er ekki alltaf sá að hrella þolanda. Afleiðingar af dreifingu stafræns kynferðisofbeldis geta þó meðal annars verið þær að þolendur eru hrelltir af ýmsum aðilum eftir að dreifing efnisins á sér stað.

Nánari upplýsingar og heimildir:

Vefsíða Kvennréttindafélags Íslands.
Skýrsla Vigdísar Fríðu um hrelliklám
Vefsíða Stígamóta.
Pistill Maríu Rúnar Bjarnadóttur, doktorsnema í lögfræði, um hrelliklám.
Frumvarp um bann við hefndarklámi.
Lögreglan.

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar