Hvað er skilgreint sem kynferðisofbeldi?

Nauðganir og öll kynferðisleg áreitni er kynferðisofbeldi. Flestir hugsa um nauðgun þegar kynferðisofbeldi ber á góma en rétt eins og með annað ofbeldi eru til margar tegundir kynferðisofbeldis. Kynferðisofbeldi er ekki eingöngu líkamleg valdbeiting heldur einnig óumbeðin og óviðeigandi kynferðisleg hegðun með eða án snertingar. Kynferðisofbeldi getur til dæmis verið stafrænt.

Nauðgun má skilgreina svona:

Nauðgun er að neyða aðra persónu til kynferðislegra athafna gegn vilja hennar. Nauðgun felst í því að einstaklingur neyðir annan einstakling til kynferðismaka, hvort sem um er að ræða samfarir eða aðrar athafnir sem tíðkast í kynlífi eða gætu kallast kynferðislegar.

Skilgreina má kynferðislega áreitni svona:

Kynferðisleg áreitni er þegar einstaklingur beinir kynferðislegum athöfnum, orðum eða myndum að persónu gegn vilja hennar. Upplifi manneskjan það þannig að hún hafi verið beitt kynferðisofbeldi, þá er það raunin, því þá hefur verið farið yfir þau mörk sem viðkomandi setur.

Hvert getur þolandi nauðgunar eða kynferðisofbeldis leitað?

Þolendur kynferðisofbeldis og nauðgana eiga oft erfitt með að segja frá ofbeldinu. Það er þó mikilvægur liður í bata að ræða málin við fagfólk. Þar að auki er kynferðisofbeldi alvarlegur glæpur og sækja á fólk til saka sem brýtur kynferðislega á öðrum. Gott er að hafa í huga að aldrei er of seint að vinna úr sínum málum – jafnvel þó fólk hafi orðið fyrir ofbeldinu í barnæsku. Hér að neðan má sjá lista yfir staði sem taka á móti þolendum kynferðisofbeldis:

 • Neyðarmóttaka Landspítalans fyrir þolendur kynferðisofbeldis er opin allan sólarhringinn. Þjónustan stendur öllum til boða og nýtur móttakan forgangs. Fólk fær læknis- og sálfræðimeðferð, fræðslu og ráðgjöf, og aðstoð vilji það kæra vegna málsins. Frekari upplýsingar má nálgast á síðu Neyðarmóttökunnar.
 • Áfallamiðstöð Landspítalans: Þjónustan stendur öllum til boða. Þeir sem hafa verið beittir kynferðisofbeldi geta leitað sér aðstoðar, fengið ráðgjöf og stuðning eða sótt sér læknismeðferð. Best er að hringja fyrst og biðja um þjónustu hjá Neyðarmóttökunni (543-2085). Nánari upplýsingar má nálgast á heimasíðu Áfallamiðstöðvarinnar.
 • Stígamót taka á móti þolendum kynferðisofbeldis. Þangað kemur bæði fólk sem hefur nýlega verið beitt ofbeldi sem og fólk sem var beitt ofbeldi í æsku. Þjónustan er ókeypis og þar ríkir fullkominn trúnaður. Hægt er að nálgast frekari upplýsingar á heimasíðu Stígamóta.
 • Drekaslóð er þjónustumiðstöð fyrir þolendur kynferðisofbeldis og aðstandendur þeirra. Veitt er aðstoð og ráðgjöf. Þjónustan er öllum opin. Frekari upplýsingar má finna á heimasíðu samtakanna.

Hvað á fólk að gera ef það heyrir af kynferðisofbeldi eða nauðgun sem einhver annar hefur orðið fyrir?

Það getur verið erfitt að hlusta á einhvern segja frá því að hann eða hún hafi orðið fyrir kynferðisofbeldi eða nauðgun. Engu að síður er mikilvægt að hlusta og reyna að aðstoða þolandann og styðja hann í ferlinu.

Samkvæmt Barnaverndarlögum ber fólki skylda til þess að láta Barnavernd vita ef grunur er um að barni (undir 18 ára aldri) sé beitt ofbeldi.

Ef einhver trúir manni fyrir því að hafa orðið fyrir ofbeldi er gott að hafa þetta í huga . . .

 • Að halda ró sinni. Ef maður verður mjög æstur er hætta á að þolandinn þori ekki að segja meira eða finnist sem þetta hafi verið sér að kenna.
 • Að hlusta og trúa því sem hann eða hún segir.
 • Að vera til staðar fyrir manneskjuna. Oft felst mikil huggun í samverunni þótt það sé ekki endilega verið að ræða um málið.
 • Koma því áleiðis að enginn eigi skilið að vera beittur ofbeldi.
 • Útskýra að þetta sé ekki viðkomandi að kenna og að nauðgun sé aldrei hægt að réttlæta.
 • Muna að hvernig sem aðstæður voru, þá á þolandinn aldrei sök á þessu sjálfur og aldrei er hægt að segja að viðkomandi hafi kallað þetta yfir sig.
 • Láta í ljós að manneskjan sé jafnmikils virði þótt hún hafi orðið fyrir þessari erfiðu reynslu og hún haldi reisn sinni.
 • Hvetja þolandann til að leita sér hjálpar við að takast á við vandann og afleiðingar ofbeldisins.

Ef einstaklingur segir frá kynferðislegri misnotkun gegn barni sem er undir 18 ára aldri, eða barnið gerir það sjálft, þá ber að tilkynna það til barnaverndaryfirvalda samkvæmt lögum.

 

 • Var efnið hjálplegt?
 •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar