Hvað er skilgreint sem heimilisofbeldi?

Heimilisofbeldi er sennilega algengasti ofbeldisverknaður sem framinn er á Íslandi. Það birtist bæði í formi líkamlegs og andlegs ofbeldis. Líkamlegt ofbeldi eru barsmíðar, nauðganir og aðrar líkamsmeiðingar. Andlegt ofbeldi á sér fjöldann allan af birtingarmyndum, má þar nefna: einangrun, lítilsvirðingu, höfnun, fjárhagslega stjórnun, niðurlægingu, hótanir og tilfinningalega kúgun. Allt líkamlegt ofbeldi telst einnig til andlegs ofbeldis.

  • Á heimasíðu Kvennaathvarfsins má finna gátlista sem leitast við að varpa ljósi á hvort fólk sé beitt heimilisofbeldi. Þar er tekið fram að reynt sé að hafa textann auðlesanlegan og er því ekki alltaf tekið sérstakt tillit til kyngervis eða kynhneigðar í orðavali.
  • Á vef Jafnréttisstofu má einnig finna góðar upplýsingar er varða heimilisofbeldi. Þar er farið yfir ólík form og birtingarmyndir heimilisofbeldis. 

Hvert geta þolendur heimilisofbeldis leitað?

Heimilisofbeldi linnir ekki nema gripið sé til aðgerða og óljós loforð geranda duga skammt. Þögnin er versti óvinur þolenda því er mikilvægt að þolendur heimilisofbeldis leiti sér aðstoðar eins fljótt og auðið er.

  • Kvennaathvarfið veitir þjónustu og ráðgjöf fyrir konur og börn, sem eru þolendur heimilisofbeldis. Veitt er athvarf fyrir konur þegar dvöl í heimahúsi er óbærileg vegna ofbeldis. Einnig veitir Kvennaathvarfið símaráðgjöf og viðtalstíma. Frekari upplýsingar má nálgast á heimasíðu Kvennaathvarfsins.
  • Stígamót taka á móti fórnarlömbum heimilisofbeldis. Þar er hægt að fá ráðgjöf, fræðslu og stuðning. Bæði er hægt að mæta í viðtal eða ræða í gegnum síma. Nánari upplýsingar má nálgast á heimasíðu Stígamóta.
  • Þjónustumiðstöðvar sveitafélaganna geta einnig komið til hjálpar. Þar er hægt að fá ráðgjöf og upplýsingar um úrræði. Best er að hafa samband við sína þjónustumiðstöð með því að hringja eða mæta á staðinn. Lista yfir þjónustumiðstöðvar Reykjavíkurborgar má nálgast á síðu borgarinnar.
  • Drekaslóð eru samtök sem aðstoða þolendur ofbeldis með einstaklingsviðtölum, fræðslu og hópastarfi. Nánari upplýsingar má nálgast á heimasíðu Drekaslóðar.
  • Bjarkarhlíð er þjónustumiðstöð fyrir fullorðna þolendur ofbeldis af öllum kynjum. Boðið er upp á einstaklingsviðtöl og ráðgjöf hjá félagsráðgjöfum, lögreglu  og lögfræðingum öllum að kostnaðarlausu.

Hvað á fólk að gera ef það verður vart við heimilisofbeldi?

Ef fólk sér, heyrir eða verður vart við heimilisofbeldi skal það tafarlaust hringja á lögreglu. Þegar fólk verður hinsvegar vart við heimilisofbeldi hjá vinum og fjölskyldu, s.s. í gegnum ákverka og marbletti, getur málið verið snúnara. Best er þá að setjast niður í góðu næði, ef til vill með fleirum í nánasta í hring, og ræða málið við þolandann. Hvetja skal hann eða hana til að leita sér hjálpar hjá fagaðilum.

Hvað á fólk að gera ef því er sagt frá heimilisofbeldi?

Það getur verið erfitt að hlusta á einhvern segja frá því að hann eða hún sé beittur heimilisofbeldi. Engu að síður er mikilvægt að hlusta og reyna að aðstoða þolandann. Ef einhver trúir manni fyrir því að hafa orðið fyrir ofbeldi er gott að hafa þetta í huga:

  • að halda ró sinni;
  • að hlusta og trúa því sem hann eða hún segir;
  • að vera til staðar fyrir manneskjuna og vera góður hlustandi;
  • að hvetja þolandann til að leita hjálpar við að takast á við vandann. Heimilisofbeldi linnir ekki nema gripið sé til aðgerða og óljós loforð geranda duga skammt.

Á heimasíðu Kvennaathvarfsins má nálgast fræðsluefni sem viðkemur heimilisofbeldi.

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar