Á að fá sér kött?

Ef fólki langar í kött er mikilvægt að hugsa málið vel fyrst. Að taka að sér gæludýr fylgir mikil skuldbinding og slíkt ætti aldrei að gera nema að vel ígrunduðu máli. Í fyrsta lagi þarf að hugsa: hefur maður fjárráð og tíma til þess að eiga kött? Þó kettir séu á margan hátt sjálfbjarga, þá eru þeir miklar félagsverur og þurfa mikla ást og umönnun. Árlega berast mörg hundruð óskilakettir til Kattholts, en aðeins tekst að finna litlum hluta þeirra ný heimili. Stór hluti þeirra er svæfður. Því er mikilvægt að taka ekki að sér gæludýr nema maður geti hugsað sér að annast það, jafnvel næstu 20 árin. Eins þarf að spyrja sig: hvað á að gera við köttinn ef maður fer í frí? Er einhver sem getur séð um hann ef fólk fer í sumarbústað yfir helgi? Kettir eru miklar félagsverur og fyrir þá sem vinna langan vinnudag getur verið góð hugmynd að ættleiða tvo ketti sem eru góðir vinir: Það dregur úr einmanaleika hjá þeim á daginn. Það dugar þó ekki eitt og sér, því kettir þurfa líka mikið atlæti frá eiganda sínum.

Þegar köttur er tekinn inn á heimilið þarf að ganga frá nokkrum hlutum

Fólki ber skylda að ganga frá ákveðnum atriðum þegar það fær sér kött.

 • Eigendum er skylt að láta örmerkja kettina sína. Það er gert hjá dýralækni.
 • Eigendum er skylt að láta gelda fressketti eftir að þeir hafa náð 6 mánaða aldri. Það er einnig gert hjá dýralækni.
 • Bólusetja þarf alla ketti árlega til að fyrirbyggja sýkingar í mönnum og öðrum dýrum sem og að ormahreinsa þá. Þetta er einnig gert hjá dýralækni.
 • Eigandi kattarins ber ábyrgð á að dýrið valdi ekki ónæði, hávaða eða óþrifnaði. Berist kvörtun frá nágranna ber eiganda dýrsins að bregðast við henni.
 • Lágmarka skal tjón sem kettir valda á fuglalífi borgarinnar, til dæmis með því að láta þá ganga með ól með bjöllu.
 • Samkvæmt lögum um fjöleignarhús þarf samþykki allra eigenda sem hafa sameiginlegan inngang, stigagang eða annað sameiginlegt húsrými til að kattahald sé leyfilegt í húsinu.

Hvað kostar að fá sér kött?

Töluverður kostnaður fylgir því að eiga kött. Fyrir það fyrsta þarf að fóðra þá: Fullvaxta kettir þurfa að meðaltali 250 kaloríur á dag, þar sem matur er mis næringaríkur og dýr, getur kostnaður við fóður verið misjafnlega hár. Á mánuði getur kostnaðurinn auðveldlega verið 5000 krónur. Gott er að hafa í huga að gæðafóður veitir kettinum betri heilsu, hann fer síður úr hárum o.s.frv. Eins þarf að útvega kettinum hreinan og góðan kattasand en slíkt getur einnig kostað nokkur þúsund krónur. Ofan á þetta leggst svo kostnaður við dýrlæknisþjónustu og ýmsa hluti sem fylgja kettinum. Þótt það feli í sér ákveðinn kostnað í byrjun, að fá sér kött, þá eru kettir í raun ekki svo dýrir í rekstri.

Hér á neðan má sjá helstu kostnaðarliði við kattahald:

 • Kattamatur. Hann er mjög misdýr og gæðin eru eftir því. Dýrara fóður veitir kettinum betri heilsu, útlit og líðan.
 • Kattasandur. Upphæðin getur orðið drjúg ef um innikött er að ræða. Margir útikettir gera hinsvegar þarfir sínar úti og grafa úrgang sinn í jörðu.
 • Matardallar, skálar og kattarsandskassi.
 • Hreinsiefni, ilmefni í kattasand, kattasandsskóflu og fleiri fylgihlutir þarf oft að kaupa.
 • Hálsól og merkisspjald.
 • Bæli.
 • Klórustöng. Einnig er gott að kaupa „Cat-nip“ -sprey, til að úða á stöngina og hæna köttinn að henni.
 • Bursti. Sumir kaupa einnig naglaklippur og snyrta klær kattanna sinna. Það er hinsvegar ekki ráðlegt að klippa klær af útiköttum, þar sem þeir verða að geta varið sig og bjargað sér út úr ógöngum sem þeir kunna að lenda í.
 • Ferðabúr.
 • Leikföng. Margir kettir kjósa þó að leika sér með bandspotta, penna eða eitthvað smádót sem þeir finna sér heima.
 • Ef til vill þarf að koma kattarlúgu fyrir á útidyrum, eða annað til að auðvelda kettinum ferðir sínar.
 • Fælusprey, ef fæla þarf köttinn frá ákveðnu svæði, til dæmis stofusófanum.

Hvar finnur maður kött til að ættleiða?

Á Netinu, í dagblöðum og hjá kattaræktendum má iðulega finna auglýsingar um ketti sem eru ýmist gefins eða til sölu. Fólk ætti þó ávallt að íhuga að taka að sér ketti frá samtökum eins og Kattholti og Dýrahjálp og koma þannig í veg fyrir að þeim verði lógað.

 • Í Kattholti eru ávallt margir kettir sem bíða þess að einhver ættleiði þá. Ef maður tekur að sér fresskött í Kattholti greiðir maður 13.000 krónur fyrir og 15.000 krónur fyrir læðu. Inni í þessum kostnaði er gelding og örmerking, sem eru aðgerðir sem eigandi þyrfti annars að greiða fyrir sjálfur.
 • Hjá Dýrahjálp Íslands eru fjölmargir kettir í heimilisleit. Sumir þeirra eru kettlingar og aðrir fullorðnir. Á vefnum má finna upplýsingar um hvort búið sé að gera allar þær aðgerðir sem kveðið er á um.

Annað sem þarf að huga . . .

Kattareigendur, sem og þeir sem eru að hugsa um að fá sér kött, ættu að hafa eftirfarandi í huga . . .

 • Gera þarf ráð fyrir að þrífa heimilið oftar. Kettir fara alltaf eitthvað úr hárum, þótt draga megi úr því með ýmsum aðferðum, t.d. góðu fóðri, burstun og almennri vellíðan. Þeir eiga líka til að kasta upp svokölluðum hárkúlum („hair balls“) þar sem þeir þurfa að losa sig við hárin úr meltingarveginum eftir að hafa sleikt sig. Kettir borða gras til að vinna hárin úr meltingarveginum.
 • Margir vilja helst taka að sér kettlinga. Þó eru fjölmargir kostir við að ættleiða eldra dýr. Það krefst oft ekki jafn mikillar vinnu við uppeldið, þar sem það er oft og tíðum rólegra og skuldbindingin er ekki til jafnmargra ára, þar sem dýrið er orðið eldra.
 • Kettir geta lifað í yfir 20 ár. Meðalaldurinn er þó 12 til 15 ár.
 • Geti maður af einhverjum ástæðum ekki haft köttinn lengur hjá sér ber manni að leita allra mögulegra leiða til að finna honum gott heimili.
 • Að svæfa köttinn vegna þess að maður getur ekki séð um hann lengur ætti að vera algjört neyðarúrræði.
 • ALDREI skal sleppa heimilisdýri út í náttúruna og skilja það eftir þar. Það er ill meðferð á dýri.

Á heimasíðu Reykjavíkurborgar má nálgast upplýsingar um kattahald. Frekari upplýsingar má nálgast í síma 411-8500 eða með því að senda tölvupóst á netfangið dyraeftirlit@reykjavik.is.

 

 • Var efnið hjálplegt?
 •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar