Mörgu þarf að huga að þegar leiguíbúð er skoðuð
Best er að hafa allt á hreinu áður en skrifað er undir leigusamning til að fyrirbyggja öll óþarfa vandamál og ósætti eða ófyrirséðan kostnað. Hér að neðan má nálgast gagnlegan gátlista sem kemur sér vel þegar leiguíbúð er skoðuð
Fyrst og fremst: Hvað er innifalið í verðinu?
Hundrað þúsund og hundrað þúsund er ekki endilega það sama. Best er að vita nákvæmlega hvað er innifalið í leiguverðinu:
- Rafmagn?
- Hiti?
- Hússjóður? Og þrif á sameign?
- Netið?
- Er leigan gefin upp? Fólk sem greiðir svarta leigu á ekki rétt á húsaleigubótum.
- Þarf að borga tryggingu? Ef svo er, hversu há er hún?
Ef eitthvað af þessu er ekki innifalið í leiguverðinu er gott að spyrja leigusalann um hversu háar greiðslur þetta eru venjulega á mánuði.
Almennt ástand
Fólk sér það nú yfirleitt fljótt hvernig almenn umgengni á húsnæði er; hvort íbúðin sé í góðu eða slæmu ástandi. Til að athuga þetta er best að skima yfir gólfefni og ástand þeirra, skoða veggina og sjá hvort þeir séu nýlega málaðir og virða fyrir sér innréttingar, glugga og hurðir. Fólk býr í húsum en dýr búa sér til greni: Ef íbúðin er hálfgert greni er sennilega best að afþakka pent og finna eitthvað annað.
“Má ég . . ?”
Svo leigusalinn fari ekki að vera með neina stæla eða vesen þegar íbúðinni er skilað er gott að vera viss um hvort það sé í lagi að gera einhverjar breytingar. Þetta gætu verið spurningar eins og: Má ég . . .
- . . . mála?
- . . . negla nagla í veggina?
- . . . hengja upp hillur?
- . . . bora í veggina?
- . . . skipta um ljós í loftinu?
Er íbúðin hreinleg og snyrtileg?
Þetta er ef til vill það atriði sem ber að hafa í huga þegar öll rými eru skoðuð. Verður búið að þrífa vel áður en maður flytur inn? Það liggur í eðli hlutanna að það sem er snyrtilegt og vel með farið endist lengur og er í betra ástandi.
Öryggi á oddinn
Eru reykskynjarar í íbúðinni? Kemst maður út ef það kviknar í? Flestum finnst þetta hálfgert aukaatriði – en samt vilja þó fæstir brenna lifandi. Því er ráðlegt að setja öryggi á oddinn í þessum málum eins og öðrum: Maður fyrirbyggir ekki slysin eftir á.
Samgöngur, bílastæði og þjónusta í nágrenninu
Staðsetning skiptir fólk kannski mismiklu máli: Sumir vilja EINGÖNGU vera í 101 á meðan aðrir sjá vart muninn á 101 og 110. Þó er gott að ganga úr skugga um að öll þjónusta sé í grenndinni og að samgöngur til og frá verði ekki vandamál. Langur akstur til og frá vinnu eða skóla er fljótur að skila sér í auknum kostnaði. Eins er gott að spyrja fyrir út í bílastæðamál ef fólk á bíl. Tilheyra einhver stæði íbúðinni? Er erfitt að fá stæði nálægt? Er gjaldskylda á svæðinu?
Fólkið í blokkinni
Háværir, dónalegir og leiðinlegir nágrannar geta verið vankantur á annars góðri íbúð. Eins getur verið sniðugt að vita svolítið um leigusalann: Er þetta áreiðanleg manneskja? Er hægt að treysta því að hún sinni viðhaldi og svindli ekki á manni? Því er best að forvitnast um tilvonandi nágranna sína og hagi þeirra – og leigusalann ef það er hægt.
- Er þetta eldra fólk?
- Heldur þetta fólk partý?
- Er snyrtilega gengið um stigagang og lóð?
Ef fyrrverandi leigjandi sýnir íbúðina ætti ekki að vera mikið mál að lokka upp úr honum hvort nágrannarnir séu frábærir eða leyndur galli.
Má taka kisu með?
Ef fólk á gæludýr verður að ganga úr skugga um að það sé leyfilegt að vera með dýr í íbúðinni. Húsreglurnar kveða oft á um þetta – en sennilega er best að fá samþykki frá öðrum íbúum í húsinu. Eins þarf að huga að aðstöðu fyrir dýrin. Komast þau auðveldlega inn og út? Er góð aðstaða fyrir þau í íbúðinni?
Vatn, ofnar og raki
Manneskjan er 75% vatn og án þess deyr hún. Hvernig væri því að kanna rennsli í vöskum og sturtu. Eins er ágætt að kanna ofna; hvort þeir virki sem skyldi og hvort þeir séu nógu margir til að kynda íbúðina. Of mikill raki hefur hinsvegar slæm áhrif á heilsu fólks og því eru vatns-, leka- og rakablettir ekki góðs viti.
Skápapláss
Hvar er hægt að geyma þessa forljótu ryksugu? Er fataskápur í svefnherberginu? Er pláss fyrir allt snyrtidótið sem kærastan á í baðskápnum? Rúmast eitthvað fyrir í eldhúsinnréttingunni? Það er ákjósanlegt að hafa góðar hirslur í íbúðinni því fæstir vilja eyða tíma og pening í fataskáp frá Ikea.
Kitchen nightmares
Hvernig er það – eru innréttingar í góðu lagi? Það er snjallræði að fá að taka aðeins í skúffurnar og skápana og kanna ástandið á innréttingunni. Eru lagnirnar í vaskskápnum nokkuð ryðgaðar? Leka þær? Hvað með ísskápinn og eldavélina – fylgir það með? Er hægt að nota þetta drasl?
Gluggar og hurðir
Hvernig er ástandið á gluggunum? Er hægt að opna þá? Eru gluggakarmarnir morknir? Eru vindskeiðin í lagi? Eins þarf að skoða hurðir; hvort þær séu tryggar, öruggar og vel með farnar.
Sameign og önnur aðstaða
Gott er að hafa í huga að ef geymsla fylgir íbúðinni þá er hún yfirleitt hluti af fermetrafjöldanum. Það er gott að hafa góða geymslu – en er geymslan nokkuð helmingurinn af íbúðinni? Annað sem ætti að kanna:
- Hvernig er þvottaðstaða?
- Hvernig lítur sameignin út? Kemur einhver að þrífa hana? Þarf leigjandinn að greiða þann kostnað?
- Er geymslan snyrtileg? Er hægt að læsa henni?
- Hvar er hægt að hengja upp þvott?
- En ruslið – þarf að fara langar vegalengdir með það?
- Fylgir hjólageymsla?
- Eru svalir? Er hægt að grilla á þeim?
Þó að þessir hlutir hljómi e.t.v. smávægilegir þá eru þeir raunar stór þáttur í að reka heimili.
Samband við umheiminn
Til að forðast það að fjöltengi hreiðri um sig í íbúðinni þarf að ganga úr skugga um að nóg sé af innstungum. Svokallaður ”Internet-router“ þarf líka að komast í samband á hentugum stað. Og þó það sé indælt að horfa á sjónvarpið í baði er sennilega hentugast að hafa tengi fyrir slíkt í stofunni. Ef fólk vill ekki að snúruflækjur taki yfir íbúðina er best að athuga hvort öll tengi séu ekki örugglega á sínum stað – og nóg sé af þeim.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?