Hvað þýða merkingarnar á fötunum?

Balinn:

Bali með tölu þýðir að þvo megi flíkina á því hitastigi sem talan segir til um, í fullri þvottavél, og að hún þoli mikla þeytivindingu.
Bali með tölu og striki undir þýðir að flíkin sé viðkvæm. Þvo má hana í hálffullri vél við það hitastig sem gefið er upp, en aðeins þeytivinda í hálfa til eina mínútu. Bali með hönd ofan í merkir að flíkina megi aðeins þvo í höndunum, helst við ekki meira en 30 gráðu hita. Hana má hvorki nudda né vinda.

Straujárnið:

Straujárn með einum punkti þýðir að strokflöturinn á járninu megi ekki vera heitari en 110 gráður þegar straujað er. Þetta á t.d. við um nælon- og akrýlefni. Straujárn með tveimur punktum merkir að hitinn megi ekki vera meiri en 150 gráður. Þetta á við um pólýester og ullarefni. Straujárn með þrem punktum merkir að járnið megi ekki vera heitara en 200 gráðu heitt. Það á t.d. við um bómull og lín.

Aðrar merkingar:

Hringur með bókstaf inni í merkir að hreinsa megi flíkina. Stafurinn gefur starfsfólki á fatahreinsuninni upplýsingar um æskilega hreinsiaðferð. Þríhyrningur með stöfunum CL eða CP merkir að flíkin þoli klórbleikingu. Þegar krossað er yfir einhver af ofangreindum táknum merkir það að flíkin þoli ekki viðkomandi þvottameðferð.

Frekari upplýsingar um þvottamerkingar má fina á vef Ginetex

Hvaða þvott á að þvo saman?

Flokka skal í ljósan, svartan og blandaðan þvott en hann má ekki þvo saman. Efni þola líka mismikinn hita og því ætti að flokka þvott eftir því hvort hann þolir 40° eða 60°.

Gæta skal þess að ekkert rakt liggi í þvottakörfunni. Það getur smitað liti á milli efna og valdið því að fötin mygla.

 •   Venjuleg föt er yfirleitt best að þvo á 40°. Sum föt þola þó að vera þvegin á 60°.
 •   Rúmföt þola oftast 60°.
 •   Fíngerðan þvott ætti ekki að þvo á meira en 30°.
 •   Tuskur og annað í þeim dúr geta þolað suðuþvott, eða 90°.
 •   Ull ætti alltaf að þvo sér, enda þarf sérstakt prógramm á vélinni og ullarþvottaefni fyrir slíkan þvott.
 •   Nýjar flíkur bera oft með sér lit og aukaefni og þær ætti alltaf að þvo sér til að skemma ekki annan þvott.

Hægt er að ná burt fastri gamalli svitalykt, úr uppáhaldsflíkinni sem maður tímir ekki að henda, með því að leggja hana í bleyti í volgt vatn með nokkrum matskeiðum af matarsóda úti í vatninu.

Hvernig þvær maður þvott í höndunum?

Flestir eru vanir að geta skellt öllu í vélina, en sumar flíkur eru sérlega viðkvæmar og stundum getur maður lent í því að hafa ekki aðgang að þvottavél. Þá þarf að þvo í höndunum. Þvottaefni er þá leyst upp í heitu vatni í bala, vask eða baðkeri og flíkurnar lagðar í bleyti. Síðan er þeim nuddað í vatninu og loks skolað af þeim. Ekki er gott að láta venjulegan þvott liggja of lengi í bleyti, þar sem þvottaefnið getur skemmt efnið og leyst upp litina. Suðuþvottur má liggja lengur.  Gott er að skola þvottinn tvisvar til þrisvar, svo allt þvottaefnið fari úr.

Hægt er að útbúa handknúna þvottavél, úr fötu og drullusokk. Heitt vatn með þvottaefni er sett ásamt þvottinum í fötuna. Síðan er þvotturinn strokkaður með drullusokknum þar til hann verður hreinn.

Hvernig er best að þurrka þvott?

Sumt má ekki fara í þurrkarann, og sumum líkar betur að þvotturinn hangi til þerris. Best er að láta þvottinn hanga beinan og í brotum, svo sniðin haldi sér og hægt sé að brjóta hann fallega saman.

 •   Varast skal að fá klemmuför eða óþarfa brot í flíkina á röngum stað. Boli ætti t.d. að leggja yfir snúruna á brjóstlínunni,  hjá handarkrikanum.
 •   Rúmföt ætti að hengja hornrétt og samsíða báðum megin snúrunnar.
 •   Skyrtur og kjóla ætti helst að láta þorna á herðatré.

Hvernig nær maður blettum úr?

Grundvallarregla er að gera ekkert að vanhugsuðu máli. Blettir geta versnað og fest sig enn betur ef beitt er rangri aðferð. Hægt er að kaupa fjölmargar gerðir blettahreinsiefna, en einnig geta gömul og góð húsráð gagnast þegar ná skal burt blettum:

 • Fitubletti í gólfteppum má t.d. að nudda með hreinsuðu bensíni. Nota skal lítið af því og vara sig á því að það er eldfimt. Heitt vatn getur hinsvegar brætt fitublettinn í teppið.
 • Fín föt sem fá í sig bletti ætti strax að senda í hreinsun.
 • Kaffi, vín- og gosdrykkjablettir nást úr gólfteppum ef kartöflumjöli er hellt yfir þá þegar í stað. Það er látið standa í sólarhring og síðan ryksugað upp. Ef bletturinn er gamall má reyna að bera á hann „glycerín“ sem fæst í lyfjabúðum.
 • Salti er stráð yfir rauðvínsbletti í fötum, síðan dýft í kalt vatn og nuddað úr áður en flíkin er þvegin.
 • Blóðblettir nást úr með köldu vatni. Dugi það ekki má reyna að nudda flíkinni upp úr saltvatni.
 • Ef hvítt tau gulnar eða fær í sig lit má gera það aftur hvítt með því að leggja það í væga klórblöndu.

Klórblanda: 1 tappi af bleikingarklór á móti 2 lítrum af vatni. Varst skal að láta klór komast í snertingu við svört eða lituð föt, því það skemmir litinn. Svart fær t.d. á sig appelsínugulan lit þegar það kemst í snertingu við klór.

 • Ef efnið þolir suðu má einnig gera það aftur skjanna hvítt með því að sjóða það í vatni með nokkrum sítrónusneiðum, því sítróna er náttúrulegt bleikiefni.
 • Ef barn pissar undir má strá kartöflumjöli á blettinn og láta hann þorna. Kartöflumjölið dregur þvagið í sig. Kartöflumjölið er síðan ryksugað burt af dýnunni.
 • Grasgrænu má ná úr fötum með því að hella nýmjólk á blettinn og síðan uppþvottalegi og nudda blettinn úr.

Hvernig nær maður tyggjói úr?

Tyggigúmmí er best að ná úr teppum, fötum og hári með því að reyna að kæla það, t.d. með ísmolum, og reyna svo að plokka það burt þegar það er orðið kalt. Einnig má reyna að ná tyggjói burt með brennsluspritti eða hreinsuðu bensíni. Gott er að gera þetta á röngunni þegar um flík er að ræða, svo efnin skemmi síður útlitið á flíkinni.

Ef tyggjó festist í hári má einnig ná því úr með því að maka fyrst smjörlíki þar í kring og þvo síðan hárið vel á eftir.

Hvernig nær maður vaxi úr fötum?

Best er að bera terpentínu á flíkina áður en hún er þvegin. Kertavax má einnig strauja úr. Þá er dagblaðapappír eða þerripappír hafður á milli straujárnsins og vaxins. Pappírinn sýgur svo í sig vaxið. Þegar vax fer í gólfteppi er best að skafa það burt með hníf og hreinsa svo afganginn eins og fitublett; með hreinsuðu bensíni.

Hvað á að gera ef það kemur brunagat í teppi eða áklæði?

Gott er að safna dálítilli ló úr teppinu, hnoða henni saman í hnoðra og líma í gatið. Síðan má nudda yfir blettinn með skósólanum þar til hann jafnar sig og fellur inn í teppið.

Hér má finna fleiri góð húsráð.

 

 • Var efnið hjálplegt?
 •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar