Það er hægt að þvo föt of oft og þvo föt of sjaldan.  Ef maður þvær fötin sín of oft sér fyrr á þeim, en ef maður þvær þau of sjaldan getur það verið óheilsusamlegt og skapað vettvang fyrir bakteríur.

Aðalreglan er náttúrulega sú að ef það eru blettir er best að þvo flíkina sem fyrst svo að blettirnir festist ekki og ef að flíkin lyktar illa er gott að þvo hana.  Þó að hvorugt eigi við, er best að fara eftir þessum lista:

  • Nærfatnaður og sokkar; eftir hvert skipti.  Það dugar sko ekki að lykta af nærbuxunum eða snúa þeim við.  Bara að þvo!
  • Stuttermabolir; eftir hvert skipti.
  • Sokkabuxur; eftir hvert skipti.
  • Brjóstahaldarar; eftir þrjú til fjögur skipti. Brjóstahaldararnir endast betur ef þeir eru handþvegnir. Þá eru þeir lagðir í bleyti með smá sápu, skolaðir vel og lagðir til þerris.
  • Íþróttafatnaður og sundföt; eftir hvert skipti.  Maður svitnar mikið við íþróttaiðkun og fótsveppur getur borist á milli fata nema þau séu þvegin vel.  Mundu líka að þvo íþróttatöskuna eða þurrka úr henni með sótthreinsiklút.  Ef þú stundar líkamsrækt oft í viku þá getur verið mjög sniðugt að henda íþróttafötunum beint í vélina eftir æfingu á hraðprógramm sem er oft ekki meira en 40 mín.
  • Gallabuxur; eftir hver 5-6 skipti.  Þess má þó geta að framkvæmdastjóri LeviStrauss & Co. mælir með að gallabuxur séu aðeins þrifnar á sex mánaða fresti.
  • Toppar; eftir eitt eða tvö skipti.
  • Kjólar; eftir eitt eða tvö skipti.Athugið að einnig er að blettaþvo ef kjóllinn er hreinn og sullast hefur á hann. Takið þá vatn og smá sápu eða blettahreinsi, setjið á blettinn og skolið úr. Leggið til þerris.
  • Leggings; eftir eitt eða tvö skipti.
  • Buxur, pils og stuttbuxur; eftir þrjú eða fjögur skipti.
  • Jakkar; eftir fimm eða sex skipti. Athugið að sumir jakkar þarf að setja í hreinsun, skoðið því þvottaleiðbeiningar vel. Einnig getur oft verið nóg að setja jakkann á herðatré og út á svalir sé aðeins vond lykt af jakkanum en hann ekki skítugur.
  • Jakkaföt; Jökkum getur maður klæðst fimm eða sex sinnum áður en maður sendir þau í hreinsun (þurrhreinsun) ef að engir sýnilegir blettir eru á jakkanum.  Farðu alltaf með jakkann og buxurnar saman í hreinsun svo að þau aflitist ekki ójafnt.
  • Kápur eða útijakkar; annan hvern mánuð. Hér á einnig það sama við og um jakka, athugið vel hvort þurfi að setja kápuna eða útijakkann í hreinsun.
  • Náttföt; eftir þrjú til fjögur skipti.
  • Skyrtur; eftir eitt eða tvö skipti.  Ef þú ert í bol undir er oft hægt að vera í skyrtunni tvisvar.
  • Peysur; ef þú ert í skyrtu eða bol undir peysunni getur þú verið í flíkinni 6 sinnum ef ekki eru blettir og þú svitnar ekki mikið.
  • Handklæði á að hengja til þerris á milli nota og þá er hægt að nota þau þrisvar til fjórum sinnum.
  • Rúmföt; skiptu um rúmföt á einnar eða tveggja viku fresti.  Notaðu mjög heitan þvott til að drepa alla sýklana.
  • Kodda á að þvo á sex mánaða fresti, helst tvo saman svo að þunginn í tromlunni sé ekki ójafn og gott er að setja tennisbolta með svo þeir haldist loftkenndir.  Það má þvo fíber- og dúnkodda í þvottavél, en heilsukodda úr frauði má ekki þvo. Einnig bjóða dú-n og fiðurhreinsanir að hreinsa kodda og sængur sem getur verið gott að gera einu sinni á ári.

Gott að hafa í huga:

  • Notaðu mismunandi vindu á þvottavélinni eftir því hvað er verið að þvo. Viðkvæm föt á t.d. alltaf að þvo á minni snúning en tuskur og handklæði.
  • Athugið að nota ekki of mikið þvottaefni en oft dugar ein matskeið í heila vél.
  • Ef föt eru ekki blettótt eða skítug en aðeins með vonda lykt er gott að hengja þau aðeins út og viðra þau.

Heimildir

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar