Flest okkar ganga í skóm eða hafa að minnsta kosti prufað það á einhverjum tímapunkti. Þeir sem ganga í skóm, vita að það er ekki ódýrt að kaupa þá. Hvað þá sæmilega skó sem endast lengur en mánuð. Einnig vitum við Íslendingar að  veðráttan hér á landi krefst þess af okkur að eiga mismunandi skó fyrir ólíkar árstíðir og veður. Þunnir strigaskór endast til dæmis skammt í slabbinu í febrúar. Til þess að skórnir okkar endist sem best og við þurfum ekki að endurnýja þá í sífellu er gott að læra hvernig á að viðhalda þeim. Mismunandi skór krefjast ólíks viðhalds.

Viðhald á leðurskóm:

Leðurskó þarf að þrífa og bera á reglulega til þess að leðrið endist og skórnir líti vel út. Þegar keyptir eru leðurskór sem nota á úti er nauðsynlegt að bera á þá vörn strax, áður en þú byrjar að nota þá. Eftir það þarf að bera reglulega á þá leðurfeiti eða úða (spreyja) þá með vatns og blettafráhrindadi leðurúða.

Ef skór blotna mikið er hægt að troða dagblaðapappír inn í þá og láta standa yfir nótt, blöðin draga þá í sig rakann. Ekki reyna að þurrka leðurskó með hárblásara, eða yfir ofni, því þá geta þeir minnkað um ½ -1 númer.  Bíddu heldur eftir því að þeir þorni að fullu við stofuhita áður en þeir eru notaðir aftur.

Til að hafa skóna enn hreinni og fínni er ráð að kaupa skósvamp með glansefni til að þeir haldist eins og nýir. Ef að saltrendur myndast á skónum setjið þá nokkra dropa af sítrónusafa út í volgt vatn og þvoið burt með mjúkum klút eða bursta. Leðrið getur sprungið ef saltröndum er leyft að vera.

Viðhald á rúskinnsskóm:

Hægt er að kaupa sérstakan bursta, ætlaðan til þess að bursta rúskinn. Einnig er hægt að kaupa sérstakt blettaefni ef blettir koma á rúskinnskó og hreinsa þá varlega af með því. Þegar rúskinn blotnar verður efnið oft skrítið og áferðin breytist. Hægt er að laga þetta með strokleðri eða sandpappír og nudda svo með handklæði eftirá.

Viðhald á skóm úr gerviefni:

Skór úr gerviefnum eru oft ekki jafn viðkvæmir og skór úr náttúrulegum efnum, en auðvitað þarf að hugsa vel um þá líka eigi þeir að endast. Gott er að bera skóáburð/feiti á slíka skó og þurrka með mjúkum klút; þá haldast þeir fínni lengur.
Umhirða á gúmmístígvélum:
Best er að þrífa gúmmístígvél reglulega með vatni og sápu. Ef stígvélin eru orðin mött og gúmmíið farið að þorna upp er gott að bera matarolíu á þau.

Viðhald á strigaskóm:

Sumum strigaskóm er einfaldlega hægt að skella í þvottavélina og þá verða þeir eins og nýir. Hins vegar mega ekki allir strigaskór fara í þvottavélina og ef það á við er hægt að þvo þá upp úr teppasjampói. Svartar rendur má til dæmis fjarlægja með kveikjarabensíni. Grasgrænka næst af með uppþvottalegi og vatni og til dæmis er hægt að nota naglabursta við verkið.

Önnur góð ráð í skóhirðu:

 • Skiptu um skó daglega. Flestir skósólar og skór eru úr efnum sem þurfa um sólarhring í hvíd til að jafna sig eftir notkun. Ef þú hvílir skóna endast þeir töluvert fleiri kílómetra, halda betur lögun sinni og minni líkur eru á því að vond lykt festist í þeim. Þessi regla er þó mikilvægust þegar um leðurskó er að ræða.
 • Hægt er að ná svörtum röndum af ljósum spariskóm með því að setja smá kveikjarabensín á eyrnapinna og nudda varlega af.
 • Hægt er að ná táfýlu og vondri lykt úr skóm með því að strá matarsóda inn í þá, láta  þá standa yfir nótt og hrista svo vel úr þeim áður en farið er í þá. Matarsódi drepur bakteríurnar sem mynda ólykt. Einnig má fá sérstök efni til þess að ná lykt úr.
 • Það skiptir máli að ganga vel frá skóm sem ekki eru í notkun. Hægt er að fá þvingur í spariskó og aðra viðkvæma skó svo að þeir haldi betur lögun sinni. Einnig er hægt að fá glæra kassa til að geyma skóna í og hafa góða yfirsýn yfir skósafnið.
 • Mikið notuðum skóm sem eru farnir að láta á sjá og eru orðnir illa gengnir er best að henda. Það fer illa með fæturnar að ganga í lélegum skóm.
 • Gott er að setja til dæmis harðan pappa inn í upphá stígvél þannig að þau haldi lögun sinni og ekki myndist krumpur við ökklana.
 • Fyrir konur og aðra sem ganga í háum hælum er gott ráð að hafa flatbotnaskó í bílnum og nota þá þegar ekið er. Annars hættir þú á að brjóta hælana.
 • Verndaðu skóna þína fyrir vatni. Það er gert með því að bera á þá vax eða skóbón reglulega. Það ver ekki eingöngu skóna heldur mun það einnig gera þá hreinni og fallegri. Varaðu þig þó á því að kaupa réttan lit á vaxi/bóni fyrir skóna. Ef þú sérð þig ekki í að pússa og bera á skóna reglulega er gott ráð að úða (spreyja) skóna reglulega með vatns og bletta fráhrindandi úða, tvisvar sinnum í hvert skipti.
 • Aldrei fara í  leðurskóm í rigningu. En ef þú kemst ekki hjá því er vissara að láta skóna þorna alveg áður en þú ferð í þá aftur.

Heimildir

 • Var efnið hjálplegt?
 •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar