Viðhald eykur líftíma bílsins

Að kaupa bíl er töluverð fjárfesting og því vill fólk að sú fjárfesting dugi eitthvað til framtíðar. Með því að hugsa vel um bílinn sinn og sinna viðhaldi má auðveldlega lengja endingartíma hans. Viðhald kallar vissulega á auka útgjöld – en til lengri tíma litið margborgar það sig að hugsa vel um bílinn.
Hér að neðan má nálgast nokkur góð ráð þegar kemur að viðhaldi bifreiða.

Gott er að huga að dekkjunum

Of lítill loftþrýstingur í dekkjum eykur eldsneytiseyðslu. Ef dekkin eru lin eykur það álagið á gjörðunum og dekkjunum sjálfum. Auk þess er óþægilegra að keyra á linum dekkjum. Einnig er hægt að lengja líftíma dekkja með því að færa þau á milli. Á 5000 til 7000 kílómetra fresti er sniðugt að skipta afturdekkjunum út fyrir framdekkin og öfugt. Og svo er mikilvægt að muna að taka naglana undan: Ef fólk er nappað á nagladekkjum á milli 15. apríl og 31. október má það búast við háum sektum.

Regluleg þrif gera bílnum gott

Ekki er það eingöngu útlitsatriði að þrífa bílinn, heldur eyðir hreinn bíll minna bensíni og lengri ending verður á ytra byrði hans. Með þrifum má koma í veg fyrir ryð vegna götusöltunar, skemmda vegna tjörubletta og óþarfa slit á lakki.

Mæla þarf vélarolíu reglulega

Þetta er lítil fyrirhöfn og til lengri tíma borgar þetta sig. Best er að mæla olíuna þegar bílinn er kaldur. Ef olían mælist of lítil skal fylla á hana við fyrsta tækifæri – það fer illa með vélina að vera „þurr“.

Eins er gott að fylgjast með kælivökva

Það fer illa með vélina að ofhitna. Ef vélin hitnar upp úr öllu valdi getur það líka hreinlega verið hættulegt. Stöðuna á kælivökvanum er hægt að kanna á flestum bensínstöðvum.

Bílinn þarf að smyrja á 5000 til 7000 kílómetra fresti

Sniðugt er að halda utan um smurningu á bílnum í þjónustubók. Meðalaldur smurðra bíla á Íslandi er mun hærri en þeirra sem ekki eru smurðir reglulega.

Hrein loftsía er nauðsynleg

Óhrein sía getur aukið eldsneytiseyðslu bílsins til muna. Rétt eins og fólk þurfa bílar hreint og gott loft. Hægt er að hafa samband við verkstæði til að kanna hvort tími sé kominn á nýja síu.

Viftureim og vélarstilling

Rétt stillt vél eyðir minna bensíni og vinnur betur. Eins þarf að passa að viftureimin sé ekki of slök – það getur hreinlega verið skaðlegt fyrir vélina.

Reglulega þarf að athuga stöðuna á stýris- og bremsuvökvanum

Þetta eru fyrst og fremst öryggisatriði. Það fer hinsvegar ekki vel með stýris- og hemlabúnað bílsins að hafa of lítinn vökva.

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar