Er mikið að gera hjá þér? Kannski of mikið? Þú ert ekki ein/n um það. Flestir hafa gott af því að forgangsraða. Þú vilt kannski hafa tíma til að læra, spila tölvuleiki, vinna um helgar, vera í fótbolta og baka vikulega en er raunhæft að hafa tíma fyrir þetta allt?

Því miður er ekki hægt að gera allt

Góðu fréttirnar

Um leið og þú nærð góðum tökum á forgangsröðun, nærðu meiri árangri í því sem skiptir þig mestu máli. Þá kláraru það sem þú ætlar þér af heilum hug.

Nokkur ráð varðandi forgangsröðun

Það má skipta öllum verkefnum upp í aðkallandi verkefni og mikilvæg verkefni.

Aðkallandi verkefni eru t.d. að svara tölvupóstum og símanum, versla í matinn, þrífa föt, taka úr vélinni og sinna öðrum heimilisstörfum.
Mikilvæg verkefni eru t.d. hreyfing, eiga stundir með vinum og fjölskyldu og vinna að langtímamarkmiðum sínum. Langtímamarkmiðin eru algjörlega persónubundin, þau geta t.d. verið að verða góð/ur á gítar, læra nýtt tungumál eða lesa bók.

Við eigum það stundum til að sinna því sem er mest aðkallandi á kostnað þess sem er mikilvægt.

Ef aðkallandi verkefni eru yfirþyrmandi og ekki virðist vera tími eftir til þess að sinna mikilvægum verkefnum, þá er spurning hvort hægt sé að auðvelda eitthvað við aðkallandi verkefnin.

  • Ertu alltaf búinn með sokkana þína og þarft því að þvo? Keyptu þér þá fleiri sokka.
  • Fer langur tími í að skoða tölvupóstinn? Hættu áskriftum af ruslpóstum.
  • Er mikið sem þarf að þrífa heimafyrir? Minnkaðu dótið og/eða flyttu í minni íbúð. 

Hvar skal byrja?

Gott er að setjast niður og skrifa lista af öllu því sem þig langar að gera. Jafnvel þó að þú áttir þig á því að þér takist það ekki allt. Með því að virða listann fyrir þér áttar þú þig betur í því sem skiptir þig mestu máli. Ef það eru tiltölulega fá atriði á listanum, þá getur þú hugsanlega komið þeim öllum fyrir í skipulaginu. Forgangsraðaðu mikilvægustu hlutunum efst, þú getur til dæmis merkt atriðin með tölustöfum (1=mikilvægast, 2=næst mikilvægast…). Ef þú skyldir ekki hafa tíma fyrir allt á listanum seinna meir, þá tekur þú það neðsta af honum.

  • Á myndinni hér fyrir neðan er aðeins um dæmi að ræða. Svona listar eru persónubundnir og fara eftir því hvað hverjum og einum þykir mikilvægast.
Dæmi um forgangsröðunarlista

Hvað ef ég er með allt of marga hluti á listanum sem mig langar að framkvæma?

Strikaðu yfir það sem skiptir minnstu máli

Við viljum oft framkvæma meira en við mögulega erum fær um. Þegar þú hefur skrifað allt sem þú værir til í að gera, þá getur þú farið að skoða og meta það mikilvægasta. Þegar þú hefur raðað því upp í röð, frá því mikilvægasta til hins minnst mikilvægasta, þá getur þú strikað yfir það sem þú veist að verður ekki tími fyrir. 

Mikilvægt er að hafa í huga að við þurfum öll að hafa tíma sem er alveg óskipulagður. Þá gefst tími til þess að gera nákvæmlega það sem þú vilt á þeirri stundu. Ef þú ofmetnast og sérð fram á að geta ekki klárað allt sem þú ætlaðir þér, reyndu að læra af því og gefa þér meira svigrúm næst.

Heimildir:

Observer.com

Reynsla höfundar

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar