Test Of English as a Foreign Language (TOEFL) er tungumálapróf sem athugar enskukunnáttu þeirra sem hafa ensku ekki að móðurmáli. TOEFL er algengasta alþjóðlega enskuprófið, og er viðurkennt af þúsundum háksóla, ríkja og menntastofnana.
Þarf ég að taka TOEFL prófið?
Þú gætir þurft að taka TOEFL prófið til að sanna að þú kunnir ensku ef:
- þú ert að sækja um nám í útlöndum
- þú ert að sækja um styrk
- þú ert að sækja um vinnu- eða dvalarleyfi í enskumælandi landi
- þú ert að klára enskunámskeið
- þig langar einfaldlega að kanna stöðu þína í ensku
Hvað kostar TOEFL prófið?
Það kostar $120 að taka prófið í hvert skipti (Um 17.500 krónur, nóvember 2022).
Hvar er TOEFL prófið haldið?
TOEFL prófið er haldið í kennslustofum Promennt Ehf.
Skeifan 11b, 108 Reykjavík
Sími: 519-7550
Vefsíða: Promennt
Ekki er tekið við greiðslum og pöntunum hjá Promennt. Slíkt þarf að fara fram á TOEFL-vefsíðunni.
Hvernig skrái ég mig í TOEFL próf?
Það getur virst flókið að skrá sig í TOEFL próf við fyrstu sýn, þar sem TOEFL-heimasíðan er ansi ruglingsleg, en örvæntið ei og fylgið þessum einföldu skrefum. Passaðu þig að gera ekkert annað í tölvunni á meðan þú ert inni á TOEFL-síðunni, því hún skráir þig út um leið og þú ferð að gera eitthvað annað.
- Búðu til prófíl á TOEFL-heimasíðunni. Fylgdu leiðbeiningunum til enda.
- Þegar prófíllinn er tilbúinn, veldu þá “register for a test” undir “my tests” og fylgdu leiðbeiningunum. Hægt er að velja um nokkrar dagsetningar. Veldu þá dagsetningu sem hentar þér. Þér verður boðið að kaupa hjálparpakka. Endilega nýttu þann möguleika ef þú vilt æfa þig fyrir prófið.
- Þér verður líka boðið að senda einkunnir strax til þess skóla sem þú ert að sækja um inngöngu í. ATHUGIÐ að það er mjög mikilvægt að samþykkja þann valmöguleika, vegna þess að skólar taka yfirleitt ekki við TOEFL prófskírteini sem maður sendir sjálfur, heldur verður það að koma beint frá TOEFL miðstöð til að teljast gilt. Ef maður ætlar að senda einkunnirnar eftir á, þá kostar það aukalegan pening.
- Þegar á enda skráningarinnar er komið þarf að borga. Skráningin verður ekki gild fyrr en búið er að borga. Á vefsíðunni segir að tekið sé við ýmsum kreditkortum, tékkum og PayPal. Viljir þú borga með kreditkorti gætirðu þurft að hringja í kortaþjónustuna þína til að heimila millifærsluna og hringja svo í þjónustuver TOEFL í Hollandi. Við mælum ekki með því. Það eina sem virkar vandræðalaust fyrir íslendinga er PayPal. Það er einfalt og fljótlegt. Vertu því búin(n) að stofna PayPal reikning áður en þú skráir þig í prófið.
- Þegar greiðslan er gengin í gegn er ekkert eftir nema að mæta í prófið. Mættu hálftíma fyrir próf, vegna þess að fyrir próf þarftu að ganga í gegnum stutt innritunarferli.
Hvernig er TOEFL prófið uppbyggt?
Prófið er tekið á tölvu í gegnum internetið. Það tekur fjóra til fjóra og hálfan tíma og skiptist í fjóra hluta:
- Lesskilningur. Þá færðu nokkra texta til að lesa, og þarft síðan að svara nokkrum krossaspurningum úr hverjum texta. Textarnir eru fjölbreyttir og meta skilning á fræðilegu máli, formlegu máli og óformlegu hversdagsmáli.
- Hlustun. Þá hlustarðu á nokkur hversdagsleg samtöl og nokkra fræðilega fyrirlestra og þarft síðan að svara nokkrum krossaspurningum um hvert hljóðdæmi.
- Talmál. Þá færðu nokkrar opnar spurningar sem þú þarft að svara og nokkra fræðilega texta sem þú þarft að endursegja, allt í hljóðnema.
- Ritmál. Þá færðu einn fræðilegan texta til þess að endurskrifa með eigin orðum eða svara nokkrum spurningum úr í stuttu rituðu máli, og eina opna spurningu sem þú þarft að skrifa lengri ritgerð um.
Fyrir hvern hluta er gefin einkunn á bilinu 0 til 30, samtals er því mest hægt að fá 120 fyrir alla hlutana. Samtalseinkunn undir 60 er metið sem ófullnægjandi kunnátta í ensku, einkunn á bilinu 60 til 95 telst sæmileg og allt yfir 95 er metið sem góð kunnátta í ensku. Hafið þó hugfast að mismunandi skólar og stofnanir gera mismunandi kröfur um TOEFL-einkunn. Í sumum skólum er nóg að ná yfir 60, og í öðrum þarf jafnvel að ná yfir 110. Langflestir samþykkja einkunn yfir 95.
Einkunnirnar, ásamt ítarlegri umsögn prófdómara um enskuskilning þinn eru birtar á prófílnum þínum á TOEFL-síðunni. Það getur verið gagnlegt að lesa umsögnina og nota hana til að bæta sig.
Hvernig undirbý ég mig fyrir TOEFL prófið?
Eins og fyrir öll próf er mikilvægt að sofa og borða vel á prófdag. Gott er að æfa sig í nokkra daga á undan með því að spreyta sig á því að skrifa smá texta eftir eigin höfði, spjalla við vini sína á ensku og lesa ensku sér til ánægju á netinu.
Fyrir þá sem telja sig samræðuhæfa á ensku og eiga auðvelt með að lesa enska texta ætti prófið ekki að vera erfitt.
Á heimasíðu TOEFL má finna æfingapróf og ýmis námsgögn fyrir þá sem telja sig þurfa meiri æfingu. Sumt þar er ókeypis, en annað þarf að borga fyrir. Noteful býður einnig upp á góðar æfingar fyrir TOEFL.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?