Orðið „asexual“ hefur verið þýtt sem eikynhneigð, en sumir notast við enska orðið „asexual“. Í þessari grein höfum við hjá Áttavitanum valið að nota orðið „eikynhneigð“ hér eftir.

Hvað er eikynhneigð (asexuality)?

Eikynhneigður einstaklingur er sá sem ekki finnur fyrir kynferðislegri löngun til að stunda kynlíf með öðrum aðila.  Ekki rugla eikynhneigð saman við skírlífi, sem oft er tengt trúarbrögðum eða öðrum lífsskoðunum; en eikynhneigð er ekki val frekar en aðrar kynhneigðir líkt og samkynhneigð, tvíkynhneigð gagnkynhneigð.
Flestir eikynhneigðir hafa alltaf verið eikynhneigðir og finna einfaldlega ekki fyrir þessari kynferðislegu löngun sem flestir finna fyrir og laðast því ekki að fólki kynferðislega.  Eikynhneigðir geta verið í ástarsamböndum og/eða stundað sjálfsfróun, en það er allt mjög breytilegt eftir einstaklingum og fjölbreytileiki eikynhneigðra talsverður.  Um 1% fólks telst vera eikynhneigt.

Er eikynhneigð vandamál?

Nei, eikynhneigðir líta ekki á eikynhneigð sína sem vandamál sem þarf að laga.  Nokkrar mýtur eru um eikynhneigð sem þarf að uppræta:

  • Þarftu ekki bara að prófa?  -Nei.  Þeir sem eru ekki eikynhneigðir þurfa yfirleitt ekki að prófa að stunda kynlíf til að langa til þess.  Sömuleiðis þurfa eikynhneigðir ekki að prófa að stunda kynlíf til að langa til að sleppa því.
  • Það langar bara engan til að sofa hjá þér og þú ert bitur.  Kjaftæði.  EIkynhneigðir hafa bara ekki löngun til að sofa hjá.
  • Þetta er trúarlegs eðlis.  Nei, aftur; þetta er ekki það sama og skírlífi, heldur er þetta kynhneigð, samofin persónuleika einstaklingsins.

Vilja eikynhneigðir vera í ástarsambandi?

Eikynhneigt fólk hefur þörf fyrir að mynda tilfinningaleg tengsl eins og aðrir og mynda þau á fjölbreytta vegu, líkt og aðrir óháð kynhneigð.  Sumt eikynhneigt fólk kýs að lifa lífi sínu í einveru, aðrir finna hamingjuna í hópi náinna vina á meðan aðrir hafa þörf fyrir að mynda náin ástarsambönd og kjósa að finna sér maka til framtíðar.  Eikynhneigðir eru hvort heldur sem er í sambandi við aðra eikynhneigða eða fólk með aðra kynhneigðir. Það getur stundum verið erfitt fyrir ástarsambönd ef annar aðilinn er eikynhneigður en hinn ekki.  Sumir eikynhneigðir stunda kynlíf með maka sínum, til að eignast börn eða fyrir hinn aðilann.  Það verður hver einstaklingur að velja hvað hann er tilbúinn að gera.

Laðast eikynhneigðir að öðrum?

Margir eikynhneigðir einstaklingar laðast að öðru fólki, en hafa ekki þörf fyrir að fá útrás fyrir aðdráttaraflið á kynferðislegan hátt.  Eikynhneigðir geta samsamað sig gagn-, sam-, pan- eða tvíkynhneigðum og viljað vera í sambandi við einstaklinga af einhverju kyni.  Eikynhneigðir geta líka haft lítinn sem engan áhuga á því að stofna til ástarsambands og kalla sig þá „aromantic“.  Þú getur lesið meira um undirskilgreiningar eikynhneigðar hérna og hérna.

Finna eikynhneigðir fyrir kynferðislegri örvun?

Sumir eikynhneigðir örvast reglulega kynferðislega, þó það tengist ekki löngun til að stunda kynlíf með öðrum. Sumir eikynhneigðir hafa kynhvöt, bara ekki gagnvart öðrum og sækja því ánægju úr sjálfsfróun, en aðrir líta á sjálfsfróun sem stresslosandi athöfn eða líkja þessu við að „hreinsa pípurnar“.  Aðrir eikynhneigðir finna fyrir lítilli eða engri kynferðislegri örvun eða kynhvöt.

Tákn sem eikynhneigðir nota

Talsvert hefur aukist við fánaflóruna í gleðigöngunni og er nú hægt að fjárfesta í fleiri fánum hinsegin fólks heldur en bara hinum þekkta regnbogafána. Við vildum til gamans fara aðeins yfir þann symbólisma sem eikynhneigðir nota sem sameiningartákn:

  • Fáni: Fáni eikynhneigðra er röndóttur; svartur, grár, hvítur og fjólublár.
  • Ásar: Orðið „Ace“ er notað sem stytting fyrir „asexual“.  Þeir sem eru hrifsnauðir (aromantic) nota spaðaásinn og þeir sem sækjast í ástarsambönd nota hjartaásinn.
  • Kaka: Hvað er betra en kynlíf? Kaka!  Eikynhneigðir nota köku sem sameiningartákn.

Athugið: Lítil sem engin kynhvöt er ekki óheilsusamleg, en getur í undantekningartilfellum verið einkenni alvarlegri heilbrigðisvandamála. Ef þú missir skyndilega áhuga á kynferðislegri örvun ættir þú að fara til læknis til öryggis.

Viltu fræðast meira um hinsegin hugtök? Hér má finna hinsegin orðabók Áttavitans.

Heimildir og nánari upplýsingar:

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar