Það er eðlilegur hluti af lífinu að hafa kynferðislegar langanir og vera sáttur í eigin líkama. Að koma út úr skápnum er stór ákvörðun sem getur verið ógnvænleg. Mundu að enginn ætti að þurfa að skammast sín fyrir kynhneigð sína.

Er ég tilbúin/n?

Því miður er eki hægt að fá greiningu á því hvort þú sért tilbúin/n til þess að koma út úr skápnum, sú tilfinning og ákvörðun liggur alfarið hjá þér. Það er einstaklingsbundið hversu sterka tilfinningu einstaklingar hafa fyrir því. Sumir hafa alltaf vitað það og aðrir hafa velt því fyrir sér í fleiri ár. Þegar þér finnst rétti tíminn vera kominn, þá ert þú tilbúin/n.

Hvernig segi ég frá?

Ef þú getur planað hvernig þú segir frá er það betra, það getur komið í veg fyrir ófyrirséð vandamál og gert stundina eftirminnilegri. Sem dæmi, ef þú telur þína nánustu skilningsríka þá getur þú verið búin/n að plana veislu í kjölfarið. Ef þú óttast að foreldrar þínir taki það ekki í mál og hendi þér út af heimilinu er gott að vera búin/n að skipuleggja hvert þú gætir farið.

Fyrir suma getur virkað að setjast niður með sínum nánustu, frá augliti til auglitis og segjast hreint út laðast að sama kyni eða hvað annað sem liggur þeim á hjarta. Fyrir aðra er hægt að fara fleiri leiðir, svo sem:

  • Að skrifa bréf, senda tölvupóst eða skilaboð. Sú aðferð veitir þínum nánustu möguleika til þess að melta upplýsingarnar og stjórna viðbrögðum sínum betur.
  • Þú getur spurt þína nánustu hvort þeim dettur í hug hvað það er sem þú ert að fara að segja þeim. Þau gætu hafa grunað eitthvað í lengri tíma og verið sjálf að bíða þar til þú varst tilbúin/n.
  • Þetta myndband getur einnig gefið þér hugmyndir út frá reynslu einstaklinga sem hafa tekið skrefið og komið úr skápnum.

Stuðningur skiptir máli

Það getur hjálpað að segja einni manneskju sem þú treystir vel frá, áður en þú segir öðrum. Reyndu að finna manneskju sem þú veist að mun styðja ákvörðun þína og dæmir þig ekki. Það er gott að geta snúið sér til einhvers ef illa gengur og þig vantar stuðning.

Ekki dæma fyrstu viðbrögð annarra

Það er mikilvægt að muna að upplýsingarnar gætu komið flatt upp á þann sem þú ert að tala við og það eru ekkert allir sem eru vanir því að vera í þeirri stöðu. Gefðu þeim tíma til þess að melta það sem þú varst að segja þeim og ekki búast við því að fyrstu viðbrögð þeirra séu meitluð í stein. Það eru ágætis líkur á því að afstaða þeirra verði önnur viku síðar.

Hvað hentar mér?

Þér gæti liðið eins og að þú þurfir að segja foreldrum þínum fyrst frá en ef þú finnur að þér líður betur með að segja vinum þínum fyrst frá þá er það í góðu lagi. Hugaðu vel að eigin líðan því það að koma út úr skápnum snýst á endanum ekki um hvernig foreldrar þínir taka því heldur snýst það um þig.

En ef ég fæ slæm viðbrögð?

Það er sárt ef að fjölskylda þín og þínir nánustu brugðust ekki við eins og þú hefðir viljað. Ef það gerist reyndu þá að eyða tíma þínum með fólki sem lætur þér líða vel svona fyrst um sinn, hugaðu að þér. Samtökin 78 veita einnig ókeypis ráðgjöf til hinsegin fólks og aðstandenda þeirra, reynslan innan samtakanna gæti reynst ómetanleg.

Heimildir
TheMix

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar