Athugið að hér er notast við hugtakið „pankynhneigð“, en einnig er hægt að nota hugtökin „alkynhneigð“, „pansexúal“og „persónuhrifning“eða tala hreinlega um að laðast að fólki óháð kyni. Áttavitinn hefur ákveðið að nota þýðinguna „pankynhneigð“að þessu sinni en við erum að sjálfsögðu til í að taka umræðuna hér í kommentakerfinu að neðan.
Pankynhneigðir elska óháð kyni
Pankyneigð er oft ruglað saman við tvíkynhneigð. Pankynhneigðir geta laðast að einstaklingum óháð kyni eða kyngervi þeirra. Pankynhneigð er því kynferðisleg löngun, kynhvöt eða ást sem takmarkast ekki við eitt eða tvö kyn, heldur gera pankynhneigðir ráð fyrir því að kynin séu fleiri.
Pankynhneigðir lýsa kynhneigð sinni stundum sem því að þeir laðist að persónuleika annarra í stað kyns eða kynímynda. Pankynhneigðir geta verið af hvaða kyni eða kynvitund sem er (ciskynja, trans*, intersex, androgynus), enda lýsir pankynhneigð kynhneigð þeirra en ekki kyni.
Hvað þýðir þetta “pan”?
Forskeytið “pan” kemur úr forngrísku og er sambærilegt forskeytunum „all-“ eða „al-“. Þaðan kemur þýðingin „alkynhneigð“ sem stundum er notuð. Lesendur Áttavitans þekkja vafalaust orð eins og „Pangea“, sem var upphaflega meginlandið í heiminum sem síðan brotnaði upp í heimsálfurnar, og orðið „Panorama“, sem að þýðir víðsjá, þar sem maður hefur óbrotið útsýni í allar áttir. Það er því auðvelt að setja forskeytið framan við -kynhneigð og glöggva sig á því hvað orðið gæti þýtt.
Sigmundur Freud er talinn hafa notað orðið „pansexualism“ fyrstur, árið 1917, en þaðan er orðið „pansexual“ eða „pankynhneigður“ dregið. Það má þó ekki rugla saman hugtakinu hans Sigmundar og það hugtak sem við útskýrum núna, sem er nútímanotkunin á „pansexual“.
Hver er munurinn á pankynhneigð og tvíkynhneigð?
Forskeytið „tví-“ (eða „bi-“ á ensku) vísar til þess að kynin séu tvö (karlkyn og kvenkyn) og að kyngervin séu tvö (karl og kona). Tvíkynhneigðir geta því laðast að manneskju af eigin kyni og af gagnstæð kyni. Pankynhneigðir hafna tvíhyggju í kynferði, það er að kynin séu aðeins tvö, karlar og konur, og ekkert þar á milli. Pankynhneigðir geta því laðast að öllum kynjum en ekki „hvoru“ kyninu eða kyngervi. Pankynhneigðir eru opnir fyrir því að stofna til sambanda við fólk sem skilgreinir sig utan hinna hefðbundnu kynjaflokka. Pankynhneigt fólk, óháð því af hvaða kyni það er sjálft, getur því laðast að ciskörlum, intersex körlum, transkörlum, kynlausu fólki, kynfrjálsu fólki, transkonum, intersex konum, ciskonum og hvaða annarri blöndu af kyni, kyngervi og kyntjáningu.
Hver er munurinn á pankynhneigðum og fjölkynhneigðum (polysexual)?
Á meðan pankynhneigðir dragast að einstaklingum óháð kyni eða kyngervi dragast fjölkynhneigðir að mörgum kynjum en ekki endilega öllum.
Heimildir:
- Grein á Everyday Feminist
- Grein á íslensku síðunni G-unite
- Grein á Go Ask Alice
- Grein á Wikipedia
- Grein á Beyond the Talk
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?