Kynjakerfið ræður mörgu í okkar samfélagi og samanstendur af öllum þeim reglum og viðmiðum, að mestu óskrifuðum, sem segja hvernig stelpur eiga að vera annarsvegar og hvernig strákar eiga að vera hinsvegar.

Þetta nær m.a. yfir hvernig stelpur og strákar eiga að klæða sig, haga sér og jafnvel hverjum þau eiga að vera skotin í. Kynjakerfið skiptir öllum í tvö box, karlkyns og kvenkyns, og gefur lítið svigrúm fyrir þá sem falla utan þessara tveggja boxa eða mitt á milli. 

Reglur kerfisins

Dæmi um reglur sem mynda kynjakerfið eru að stelpur eiga að mála sig, vera með sítt hár og sýna öðrum umhyggju. Strákar eiga hinsvegar að vera sterkir, góðir í íþróttum og ekki að sýna tilfinningar sínar. Stelpur eiga að vera skotnar í strákum og vilja eignast börn þegar þær eru eldri. Strákar eiga að vera skotnir í stelpum og vera þeir sem borga fyrir stelpuna á stefnumótum. Þá mega strákar alls ekki mála sig, klæða sig í stelpuföt eða nota naglalakk. 

Þetta eru frekar ýkt dæmi um reglur kynjakerfisins en það geta eflaust allir látið sér detta í hug einhvers konar reglur sem lýsa hlutum sem skilja kynin að, hvort sem það er í hegðun, klæðnaði eða öðru. Þegar fólk brýtur þessar reglur þá finnst samfélaginu það oft vera frekar skrýtið og bregst við með ýmsum hætti.

Tökum dæmi um karlmann sem mætir í kjól í vinnuna einn daginn – hann myndi eflaust fá fullt af athugasemdum á kjólinn, hvort sem það eru hrós, undrun eða neikvæðni. Þetta gerist jafnan þegar fólk brýtur reglur kynjakerfisins; samfélagið er svo vant því að fylgja þessum reglum að því bregður beinlínis þegar fólk brýtur þær og úr verða alls konar viðbrögð. Þetta getur skapað leiðinlegar aðstæður og eru eflaust margir sem hafa stoppað sig í því að gera hluti vegna þess að þeir falla ekki inn í kynjakerfið og hræðast viðbrögðin.

En samfélagið lærir líka af reynslunni og því meira sem fólk brýtur þessar reglur því minna er brugðist við og reglurnar hætta smám saman að vera reglur. Ef umræddur karlmaður heldur áfram að mæta í kjól í vinnuna og aðrir karlmenn fara jafnvel að mæta í kjól líka þá hættir fólki að finnast það skrýtið á endanum. Alveg eins og gerðist þegar konur byrjuðu að ganga í buxum dagsdaglega og þegar samkynhneigðir fóru af stað í sína réttindabaráttu (sem er reyndar hvergi nærri lokið). 

Uppræting kerfisins

Það sem við getum þá gert til þess að losa okkur við þetta kynjakerfi er einfaldlega að hætta að pæla í því; sleppum því að bregðast við því þegar annað fólk brýtur reglur þess og forðumst að fylgja reglunum að óþörfu. Ölum börn upp án innkomu kynjakerfisins og leiðréttum þau ekki ef þau stíga út fyrir það. Þannig er hægt að uppræta kynjakerfið hægt og rólega, vonandi verður það ekki einu sinni til staðar í framtíðinni og fólk getur frekar litið inn á við til að ákveða eigin hegðun.

Þetta var bara örstutt og einfalt yfirlit yfir kynjakerfið og hvernig það hefur áhrif á okkar daglega líf. Nákvæmari umfjöllun má finna á vefnum Hinsegin frá Ö til A.

Höfundur:
Þórhildur Elínardóttir Magnúsdóttir

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar