Hvað er intersex?
Intersex, sem stundum hefur verið kallað „millikyn“, er meðfætt ástand líffræðilegs kyns og getur komið fram með eftirfarandi hætti:
- Líkamleg frávik á kynfærum, svo sem eistum, getnaðarlim, sköpum, sníp, eggjastokkum og svo framvegis. Dæmi um frávik eru til dæmis klofinn pungur, sem líkist skapabörmum, mjög lítill limur, mjög stór snípur sem svipar til getnaðarlims, bæði leggangaop og getnaðarlimur og fleira.
- Frávik á öðrum líkamlegum kyneinkennum, svo sem vöðvamassa, hárútbreiðslu, brjóstamyndun og hæð.
- Ósýnileg einkenni, svo sem litninga- eða hormónafrávik. Slík frávik geta komið fram í kynfærum og kyneinkennum, hvort heldur sem er innvortis eða útvortis. Þá er um að ræða karla sem ekki eru með XY-litninga og konur sem ekki eru með XX-litninga, heldur fólk með til dæmis XO-litninga, XXX, XXY, XYY og svo framvegis.
Intersex fólk er því intersex, því það er líkamlega einhversstaðar á kynskalanum milli tveggja póla; karlkyns og kvenkyns. Intersex er ekki alltaf bersýnilegt. Stundum sést að útlit ytri kynfæra samsvarar ekki venjulegum kynfærum karla eða kvenna. Hins vegar, og það er mun algengara, kemur intersex-ástand í ljós með kynlitningagreiningu, til dæmis þegar fólk leitar til læknis vegna ófrjósemi. Fólk með óræð ytri kynfæri er því bara hluti af þeim margbreytilega hópi sem er intersex.
Hvað eru margir intersex?
Talið er að um 1,7% fólks getið fallið undir hópskilgreininguna intersex. Samtökin Intersex Ísland eru hagsmunasamtök intersex fólks og standa fyrir fræðslu og ráðgjöf.
Hvað er intersex ekki?
Intersex er ekki kynhneigð.
Intersex fólk getur verið samkynhneigt, gagnkynhneigt, tvíkynhneigt, pankynhneigt, ókynhneigt eða með einhverja aðra kynhneigð. Intersex virðist ekki hafa afgerandi áhrif á kynhneigð fólks.
Intersex er ekki kyngervi eða kynvitund, heldur kyn.
Kyngervi eru samfélagslegar hugmyndir um einkenni kvenkyns og karlkyns. „Kyn“ snýst um líffærafræði, hvort heldur líffæri eins og þau eru af náttúrunnar hendi eða endursköpuð af læknum og „kyngervi“ snýst um það hvernig við sýnum þau félagslegu viðbrögð sem samfélagið parar við hvort kyn. Kyngervi snýst því um kynvitund. Ekki skal rugla saman intersex og transgender. Intersex er ekki kynáttunarvandi (transgender). Intersex er frávik í líkamsfræðilegum skilningi. Flestir sem hafa intersex-frávik vita ekki af því.
Intersex er ekki sjúkdómur, fötlun eða heilkenni.
Intersex er breytileiki, líkt og hæð, þyngd, hárlitur og fleiri einkenni fólks eru breytileg. Aðeins fáir eiginleikar intersex geta leitt til heilbrigðisvandamála.
Helstu baráttumál intersex fólks
Helstu áherslur intersex fólks eru:
- Viðurkenning á breytileika kynja, -að tvíhyggja í kynjum sé gölluð hugsun og að karlkyn og kvenkyn séu ekki algild hugtök, heldur útiloki þau fólk sem ekki passar inn í annan hvorn flokkinn.
- Intersex fólk vill jafnrétti fyrir lögum og vernd gegn misrétti. Lögin þurfa að endurspegla mismunandi líkamsgerðir. Intersex fólk vill jafnrétti, án þess að þurfa að láta sem líkamar þeirra séu annað hvort karlkyns eða kvenkyns.
- Að ósamþykktar skurðaðgerðir á nýburum séu lagðar af. Afar fáir nýburar eiga við heilbrigðisvandamál að stríða vegna intersex-breytileika á kynfærum sínum. Þrátt fyrir það eru ósjaldan gerðar skurðaðgerði á kynfærum þeirra til að breyta kynfærum þeirra svo þau líkist sem mest „venjulegum“ kynfærum kvenna og karla. Aðgerðin getur haft alvarleg áhrif á einstaklinginn seinna meir, verið andstæð því kyngervi sem einstaklingurinn samsamar sig við á fullorðinsárunum og dregið úr ánægju við ástundun kynlífs, enda oft búið að fjarlægja mikilvæga taugaenda. Ekki hefur verið sýnt fram á nauðsyn þess að gera þessar aðgerðir og telja hagsmunasamtök intersex fólks best að bíða meða slíkar aðgerðir, þar til einstaklingurinn er sjálfur fær um að taka ákvörðun, vilji einstaklingurinn breyta kynfærum sínum með einhverjum hætti.
Heimildir
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?