Hvað er fullnæging?
Fullnæging er lífeðlisleg svörun líkamans við kynferðislegri örvun. Blóð safnast fyrir á ákveðnum svæðum líkamans, einkum ytri og innri kynfærum, vöðvaspenna magnast og blóðþrýstingur og púls hækkar. Ef að kynferðislega örvunin heldur áfram að magnast leiðir það til þess að spennulosun verður og þá á fullnæging sér stað. Fullnæging varir yfirleitt í nokkrar sekúndur og í kjölfarið fylgir algjör slökun og manni líður vel.
Athugið að kynlíf getur verið gott og stuðlað að mikilli vellíðan jafnvel þó að hvorugur aðilinn, eða aðeins annar, fái fullnægingu.
Fullnæging kvenna
Munur er á upplifun kynjanna á fullnægingu. Talið er að 70-80% kvenna þurfi að örva snípinn til þess að fá fullnægingu í samförum. Snípurinn er hluti af píkunni og inniheldur um það bil 8000 taugaenda og er því bæði viðkvæmur og næmur. Þið getið lesið meira um snípinn í grein Áttavitans, “Hvað er snípurinn og hvað gerir hann?”.
Örvun snípsins
Það er staðreynd að snípurinn kemur alltaf við sögu við fullnægingu kvenna, beint eða óbeint. Ef snípurinn er nuddaður, soginn, sleiktur eða örvaður með t.d. titrandi kynlífsleikföngum, leiðir örvunin oft til fullnægingar. Oft þarf mislanga örvun til þess að konan fái fullnægingu (sem stundum gerist ekki) og eru ýmsir þættir sem geta komið þar við sögu. Það getur til dæmis farið eftir skapi, heilsu (andlegri og líkamlegri), stöðu í tíðarhring, öðrum þátttakanda/-endum (ef ekki er um sjálfsfróun að ræða) og fleira.
Örvun í leggöngum
Margt hefur verið skrifað um fullnægingu kvenna í gegnum leggöng og þá sérstaklega um g-blettinn margfræga. Ekki eru allir sammála um þetta – hvort g-bletturinn sé til og hvort yfirhöfuð hægt sé að fá fullnægingu í gegnum leggöng. Ekkert hefur heldur verið vísindalega sannað í þessum efnum, en margar konur telja sig þó hafa fundið g-blettinn sinn og/eða fengið fullnægingu í gegnum leggöng. Oft er talað um að g-bletturinn sé svæði rétt fyrir innan leggangaopið sem sé úr öðruvísi vef en svæðið í kring og að hjá sumum konum örvist þetta svæði kynferðislega – sem geti leitt til fullnægingar. Þó er talið að þetta sé einstaklingsbundið og því ekki allar konur sem finni þessa örvun, þetta svæði sé misnæmt hjá konum.
Einkenni fullnægingar kvenna
Við kynferðislega fullnægingu hjá konum verður taktbundinn samdráttur vöðva í grindarholi eins og í legi, ytri hluta legganga og endaþarmsvöðva. Einnig verður samdráttur vöðva annarsstaðar í líkamanum. Í kjölfarið verður svo algjör slökun. Upplifun kvenna á fullnægingu er bæði einstaklingsbundin og getur farið eftir því hvort um sjálfsfróun eða kynlíf með öðrum sé að ræða. Margar konur greina einnig frá muni á fullnægingu sem þær fá með snípsörvun eingöngu, leggangaörvun ásamt snípsörvun eða leggangaörvun eingöngu. Sumar lýsa fullnægingu eins og hnerra sem byggist upp þar til maður veit að ekki er aftur snúið og fær svo útrás fyrir með blossa. Aðrar líkja fullnægingunni við kitl sem er óþægilegt en samt svo gott og enn aðrar líkja því við spennu í hverjum einasta vöðva sem svo losnar eins og eldgos. Þá finnst sumum konum fullnægingin flæða eins og á, mjúklega en með ákveðnum krafti.
Algengt er að konur finni fyrir breytingum í andadrætti, hitatilfinningu, svita, líkamstitring eða spasma, sortnun fyrir augum eða þörf fyrir að öskra eða stynja. Við fullnægingu leysast endorfín úr læðingi sem geta valdið vellíðunartilfinningu og hafa róandi áhrif.
Fullnægingar geta varað mjög mislengi og það tekur mislangan tíma að fá það. Sumar konur fá það í nokkrar sekúndur og sumar lengur. Jafnvel er hægt að fá mjög langar fullnægingar í margar mínútur, með réttum aðferðum og tækni. Konur þurfa almennt ekki að bíða lengi á milli þess sem þær fá það öfugt við karla, en vissulega losar fullnægingin um hormóna sem valda syfju og slappleika, þannig að margar kjósa bara að fara að sofa fljótlega eftir að þær fá það.
Fullnæging karla
Í kynlífsfræðum (sexology) Masters og Johnson er greint frá muni á kynjunum varðandi kynferðislega fullnægingu. Til dæmis er talað um að konur geti upplifað raðfullnægingar (fleiri en ein fullnæging með stuttu millibili), sem að karlmenn geti ekki, en líða þarf lengri tími þar til þeir geti fengið fullnægingu aftur.
Hvernig fá strákar fullnægingu?
Drengir fá fullnægingu við örvun á getnaðarlim (typpi). Áður en karlmaður fær fullnægingu hefur getnaðarlimur orðið stinnur vegna aukinnar blóðsóknar. Það gerist meðal annars fyrir tilstilli kynferðislegrar spennu. Næsta skref er svo örvun á limnum sem hægt er að framkvæma með nokkru móti t.d. beinum samförum, rúnki, munnmökum eða sjálfsfróun. Engin regla er til um hve langan tíma það tekur fyrir drengi að fá fullnægingu.
Einkenni fullnægingar karla
Hjá karlmönnum verður kynferðisleg fullnæging í tveimur þrepum. Fyrra þrepið felur í sér að þrýsta sáðfrumum og sáðvökva inn í þvagrásina. Síðara þrepið felst í því að það verður samdráttur á getnaðarlim, þvagrás og blöðruhálskirtli til þess að koma sáðvökvanum út úr þvagrásinni og við það verður sáðlát. Fyrstu samdrættirnir eru mjög kröftugir en smám saman dregur úr krafti þeirra. Við fullnægingu verður auk þess samdráttur í grindarholinu svo sem í endaþarmsvöðva og víðar í líkamanum. Þá leysast endorfín úr læðingi sem geta valdið vellíðunartilfinningu og hafa róandi áhrif. Fullnægingar áhrif karla endist einungis í nokkrara sekúndur.
Eftir fullnægingu eru flestir karlmenn ófærir um að hefja ástarleik aftur fyrr en eftir nokkra hvíld. Almennt eiga karlmenn undir 30 ára auðveldara með að fá fullnægingu nokkrum sinnum með stuttum hléum. Margir karlar finna til sljóleika og eiga auðvelt með að sofna eftir fullnægingu.
Að lokum
Þrátt fyrir að líkamleg einkenni og lífeðlislegar svaranir einstaklinga við kynferðislegri örvun séu að mörgu leyti svipaða þá er algjörlega einstaklingsbundið hvernig fólk upplifir fullnægingar. Margir þættir koma hér við sögu eins og til dæmis tilfinningar, nánd þeirra aðila sem kynlífið er stundað með, hvort um sjálfsfróun sé að ræða, kringumstæður (eins og ytra umhverfi), fyrri upplifun af kynlífi og svo framvegis. Mörgum spurningum er þó enn ósvarað í þessum málaflokki en þangað til það hefur verið gert er um að gera að prófa sig áfram og finna út hvað lætur manni sjálfum líða vel og hvað kemur manni til.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?