Fyrirvari: Sumt í þessum texta gengur út frá því að par sé að velja nafn saman.  Auðvitað eru fullt af tilvikum þar sem barnið er alið upp af einu foreldri eða forsjáraðila, eða jafnvel fleirum. Systkini geta einnig komið að nafngjöf, þannig að þessu skal ekki taka of hátíðlega.

Reglur og lög um nöfn

Mannanafnalög setja ákveðnar kvaðir á nafngiftir.

  • Skrá verður nafn barns fyrir 6 mánaða aldur.  Það er gert  með íslykli á vef Þjóðskrár.  Ekki þarf lengur prest eða athafnastjóra til að staðfesta nafnið.  Margir velja hins vegar að halda skírn eða aðra athöfn um leið og barninu er gefið nafn.
  • Aðeins má gefa börnum nafn sem er á mannanafnaskrá.  Foreldrarnir geta þó sótt um að fá nýju nafni bætt á skránna, með því að vísa málinu til mannanafnanefndar.  Nafnið verður þó að lúta þessum lögmálum:
    • Nafnið þarf að geta tekið íslenskri eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli.
    • Það má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi.
    • Það skal ritað í samræmi við íslenskar ritvenjur nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess.
    • Það má ekki vera þannig að það geti orðið þeim sem ber það til ama.
    • Stúlku má aðeins gefa kvenmannsnafn og dreng aðeins karlmannsnafn.

Margir kjósa að halda skírnarathöfn eða nafngjafarathöfn.  Áttavitinn hefur einmitt fjallað um það.

Hjálpartæki við nafnaval

Það eru til ýmis hjálpartæki til að hjálpa foreldrum að velja nafn á barnið sitt.  Hér eru nokkur:

  • Notaðu Nafnavitann, slembinafnavél Áttavitans.  Þá færðu 3 tvínefni af handahófi.
  • Nefna appið fyrir iPhone er með lista yfir öll leyfð nöfn á Íslandi og hjálpar þér að skipuleggja leitina.  Þú getur gert lista með uppáhaldsnöfnunum þínum, sett saman tvö nöfn og margt fleira.
  • Bókin Nöfn Íslendinga geymir ýmsan fróðleik um íslensk mannanöfn, svo sem merkingu og uppruna.

Að finna rétta nafnið

Nafn af handahófi

Það er allt í lagi að láta bara lukkudísirnar ráða og velja nafn af handahófi.  Þú getur notað þessar aðferðir:

  • Rífðu tíundu hverja blaðsíðu úr símaskránni og veggfóðraðu vegginn hjá þér.  Kauptu þér pílusett og kastaðu í vegginn úr fjarlægð.  Þar sem pílan lendir, þar er nafnið.  Vonandi lendir hún samt ekki á Loftorku eða Rafiðn.
  • Taktu skraflpoka og dragðu nokkrar flísar.  Athugaðu hvort þú getur búið til nafn úr flísunum, jafnvel þó þú þurfir að bæta við einhverjum stöfum eða taka í burtu.
  • Tryggingastofnun Ríkisins hefur slengt öllum íslenskum mannanöfnum á gluggana hjá sér á Laugavegi 114.  Farðu og kastaðu snjóbolta í gluggann með lokuð augun og veldu nafnið sem snjóboltinn lenti á.

Í höfuðið á einhverjum

Það er mjög algengt á Íslandi að börn séu nefnd í höfuðið eða til höfuðs einhverjum.  Margir nefna börn eftir foreldrum sínum, en það getur verið pínlegt ef þú ert seinna á ferð í barneignum heldur en systkini þín og nú þegar eru komnar fimm Fjólur í nánustu fjölskyldu í höfuðið á móður þinni.  Þá getur verið sniðugt að fara aðeins aftar í ættarbogan og skoða nöfn formæðra og -feðra frá fyrri öldum.  Nafn langömmu gæti til að mynda verið nokkuð lítið notað í dag og því skemmtilega frumlegt og einstakt.  Til að skoða ættartréð sitt er gott að nota Íslendingabók, sem bæði er með vefsíðu og app. islendingabok.is
Svo má taka nöfn foreldra eða annarra skyldmenna og blanda þeim saman.  Steinþór og Bergdís gætu orðið að Bergþóru og Björgvin og Sigurður gætu orðið að Sigurbjörgu, Már og Nicole gætu orðið Máni.

Sameiginlegt áhugamál parsins

Kynntust þið á siglingarnámskeiði?  Hvernig væri þá að velja nafn eins og Ægir eða Unnur, eða eitthvað annað sem hefur skírskotun í sæinn?  Eða eruð þið bæði rosalega hrifin af sömu bókmenntunum?  Hvorki Tyrian né Sansa eru á skrá yfir íslensk mannanöfn, en það er Aría sem hentar vel þeim sem eru brjálaðir í Game of Thrones og þeir sem hylla Harry Potter geta nefnt barnið sitt Harry.

Gott að hafa í huga þegar búið er að velja nafn:

Skammstöfun

Þegar þið teljið ykkur hafa fundið fallegt nafn sem hæfir barninu vel er sniðugt að skoða skammstöfunina.  Sigurður Aron Unu-Ragnarsson gæti verið óhress með upphafsstafina sína þegar hann skrifar undir sinn fyrsta húsnæðiskaupasamning og sömuleiðis Fjóla Ólöf Leirfjörð og Friðrik Ívar Friðiksson Löve.

Er nafnið mjög vinsælt um þessar mundir?

Það er ekkert að því að heita vinsælu nafni, -flestir Jónar eru frábærir og allar Emilíurnar og Aronarnir sem eru í grunnskóla núna verða flott fólk.  Það getur hins vegar verið þægilegt og komið í veg fyrir misskilning að heita ekki sama nafni og fjórar aðrar stelpur í bekknum.  Á vef Hagstofunnar má sjá lista yfir vinsæl nöfn, bæði núlifandi Íslendinga og nýfæddra barna.

Er nafnið einstakt?

Það er auðvitað alls ekki nauðsynlegt að heita nafni sem enginn annar heitir og margar fjölskyldur eru með nafnahefðir þar sem allir heita Jón Björnsson eða Björn Jónsson, sem er skemmtilegur siður.  Sumir foreldrar vilja þó velja barninu sínu tvínefni sem enginn heitir nú þegar og þó maður velji sjaldgæf nöfn gætu tvínefnin verið algeng.  Til dæmis eru aðeins fjórir drengir á Íslandi sem heita hinu sjaldgæfa nafni Liljar.  Tveir þeirra heita þó Liljar Már og sá þriðji Liljar Mar, enda falla þessi nöfn virkilega fallega saman.  Ef þú vilt vera alveg viss um að enginn annar heiti þessu nafni skaltu fletta því upp á vef Hagstofunnar. 

Hvernig beygist nafnið?

Leifur Arnar er fallegt nafn en það hljómar skringilega að ætla að sækja “leifarnar” í skólann.  Beygið tvínefnið í öllum myndum áður en þið skráið það endanlega.  Ef þú ert ekki viss um hvernig nafnið beygist geturðu flett því upp hjá Árnastofnun og mundu að bæði nöfnin beygjast; maður fer heim til Jóns Þórs, ekki Jón Þórs.

Merking nafnsins

Skoðaðu merkingu nafnsins.  Hún þarf ekki að skipta höfuðmáli en foreldrar gætu samt viljað gæta að því hver merking og uppruni nafnsins er.  Það eru engar reglur sem banna einstaka samsetningu nafna en það gæti verið gott fyrir foreldrana að vera meðvitaðir um að Þorkell Hjálmar heitir í raun tvisvar nafni sem merkir hjálmur (Þorkell = Hjálmur Þórs) og Nadía Von heitir tvisvar von (Nadiya þýðir von á úkraínsku og svipaðar orðmyndir má finna í slavneskum málum).

Heimildir:

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar