Þegar fólk ruglar saman reitum er ekki víst að það vilji rugla saman fjármálunum
Því er mikilvægt að vera hreinskilin með peningamálin – rétt eins og annað í sambandinu. Ef fólk er opið með hversu mikið það þénar og hversu mikið það getur eytt koma síður upp vandamál varðandi peninga. Ef til vill þénar annar aðilinn meira en hinn og getur því lagt meira út. En þetta þarf auðvitað að ræða – og ekki gera ráð fyrir að betri helmingurinn sé alltaf tilbúinn að borga brúsann!
Ekki taka lán fyrir stefnumótinu
Ef fólk á ekki mikla peninga í lok mánaðar er sniðugra að bíða með deitið þar til eftir mánaðarmót heldur en að taka það á yfirdrætti. Í staðinn er hægt að gera eitthvað saman sem kostar minna, eins og að hafa vídjókvöld eða taka rómantískan göngutúr um Heiðmörkina. Það er fátt óskynsamlegra en að koma sér í neysluskuldir.
Hægt er að deila kostnaði með sameiginlegum bankareikningi
Ef pör kjósa að deila kostnaði geta þau farið í banka og opnað sameiginlegan reikning. Hann er þá opnaður á nafni annars aðilans en báðir fá debetkort á sínu nafni. Við útborgun er svo hægt hægt að leggja inn jafn háa upphæð. Kortið er þá einungis notað í daglegum og sameiginlegum útgjöldum, s.s. í kaupum á matvöru, salernispappír, ferðum í bíó, út að borða, o. s. frv. Með þessu móti má auðveldlega deila kostnaðinum þannig að annar aðilinn standi ekki alltaf straum af útgjöldunum.
Af hverju er annar aðilinn alltaf blankur?
Ef annar aðilinn er blankur vegna óhóflegra eða óþarfa eyðslu þarf sennilega að ræða málin. Til að mynda er hægt að benda viðkomandi á greinina „Hvernig má draga úr eyðslu“ hér á Áttavitanum. Fólk kann misvel að fara með peninga – og því er kjörið að hjálpast að við að hafa fjármálin á hreinu.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?