Orðið kreppa getur þýtt ýmislegt en merking orðsins felur í sér að það þrengi að einhverju eða einhverjum. Fólk getur verið kreppt (samanbeygt), verið í kreppu (verið í vanda), kreppt hnefann, kroppið sig saman (beygt sig í kuðung) og fundið hvar skórinn kreppir (finna hvar úrbóta er þörf). Hér er þó átt við enn aðra merkingu, kreppu (efnahagskreppu) sem felur í sér mikla örðugleika í efnahagsmálum.
Kreppa er alvarlegur samdráttur í efnahagskerfinu.
Hagkerfi = Skipan samfélags að öllu sem tengist eignum, atvinnulífi og viðskiptum. Hagkerfi Íslands samanstendur af öllum þeim peningum sem eru í umferð á Íslandi. Við tökum öll þátt í hagkerfinu. Einstaklingar, fyrirtæki og stofnanir lifa og hrærast innan þess.
Samdráttur í efnahagskerfinu = þýðir að framleiðsla á vörum og þjónustu hefur minnkað.
Mikilvægt er að skilja þessi orð að ofan til þess að skilja greinina.
Hvað gerist fyrir kreppu?
Kreppur koma yfirleitt í kjölfar mikils og örs uppgangs, stundum kallað góðæri. Á tímum góðæris er enginn alvarlegur skortur í samfélaginu og efnahagslífið gengur vel, til dæmis er lítið um atvinnuleysi.
Árið 2008 skall á fjármálakreppa á Íslandi. Fyrir það hafði íslenska hagkerfið vaxið ógnarhratt, sérstaklega frá árinu 2000 til ársins 2007. Það sem gerðist á þessum árum var m.a. að:
- Hér voru miklar framkvæmdir á stuttum tíma. Í kjölfar þess höfðu fyrirtæki meira að gera. Þau fengu meiri pening og gátu þess vegna ráðið inn fleiri starfsmenn. Einnig gátu fyrirtæki borgað starfsfólki sínu hærri laun.
- Íslensku bankarnir og Íbúðarlánasjóður byrjuðu að bjóða upp á ódýrari og stærri lán til íbúðarkaupa. Þá gátu fleiri tekið sér lán en áður. Til þess að halda sér gangandi, brugðu bankarnir síðan á það ráð að taka stór lán í útlöndum.
Allt þetta leiddi til þess að meiri peningar komu inn í hagkerfið á Íslandi.
Hvað gerist í kreppu?
- Atvinnuleysi eykst
- Framleiðsla þjóðarinnar (þjóðarframleiðsla) dregst saman
- Mörg heimili skulda meira en áður
- Fyrirtækjarekstur verður erfiðari
- Lánastofnanir geta lent í vandræðum
Þegar fjármálahrunið skall á árið 2008, var ákaflega mikill peningur í hagkerfinu á Íslandi. Peningurinn var þó ekki allur í okkar eigu, heldur mest megnis lán frá öðrum þjóðum líkt og áður var nefnt. Hagkerfið sagði á endanum stopp. Við höfðum fengið of mikið lánað og það kom að því að við áttum verulega erfitt með að greiða lánið til baka. Heimskreppan árið 2008 leiddi til þess að allir stærstu bankarnir urðu gjaldþrota. Íslenska þjóðin kom verr út úr þessu en margar aðrar þjóðir, vegna lánanna.
Dæmi um það sem gerðist í kreppunni hér á landi árið 2008:
- Lán fólks hækkaði á meðan launin lækkuðu (skuldir heimilanna urðu meiri)
- Um 10% þjóðarinnar misstu vinnuna
- Íslenska krónan veiktist (sem þýðir að allt sem var keypt erlendis frá hækkaði í verði)
- Ríkið varð að skera niður þjónustu til þegna sinna (fólks í landinu), til þess að geta sparað og greitt niður skuldir.
Þarf að hafa áhyggjur?
Almennt eru minni sveiflur í efnahagskerfinu mjög eðlilegar. Því þarf ekki að óttast smávægilegar breytingar í efnahaginum. Þó það verði kreppa, þá kemur ekki endilega efnahagshrun, en það er þegar kreppan er verulega stór líkt og árið 2008. Slík hrun eru óalgeng og ef allir í samfélaginu beita skynsemi, þá er hægt að gera ýmislegt til þess að koma í veg fyrir að allt fari á versta veg.
Hvað get ég gert?
Það verður að þykja afar ólíklegt að einn einstaklingur eða eitt fyrirtæki geti valdið kreppu upp á eigin spýtur. Það er kannski helst ef að fyrirtækið er mjög stór hluti af hagkerfinu sem það getur valdið ójafnvægi. Þó er kreppa samspil margra þátta.
Almennt er það jákvætt ef allir eru skynsamir, reyna eftir mesta megni að eyða ekki mikið umfram það sem þeir eiga efni á, og ef ákveðið er að taka lán, að sjá fram á að geta greitt það til baka.
Svo krossum við öll fingur og vonum að ekkert fari á versta veg!
Nánari upplýsingar um sparnað má til dæmis finna hér og hér.
Heimildir:
Snara – Kreppa
Vísindavefurinn – Hvað er kreppa?
Vísindavefurinn – Hvað er fjármálakreppa?
Hvað kosta ég? – Bók Skólavefsins frá árinu 2011.
Skólavefurinn – Um hagkerfi
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?