Besta leiðin til að draga úr neyslu er að halda bókhald

Ef fólk fylgist vel með því hvert peningarnir fara getur það stjórnað því betur. Best er að gera fjárhagsáætlun: ákveða hversu miklu má eyða í skemmtanalíf, mat, föt eða annað og hversu miklu maður ætlar að eyða mánaðarlega í sparnað.

  • Heimasíðan Meniga.is býður upp á ókeypis bókhald á Netinu en það er beintengt einkabanka einstaklinga. Þar er hægt að sjá í hvað er eytt og sníða fjárhagsáætlun.
  • Á heimasíðu Landsbankans má nálgast einfalt bókhald í Excel-formi þar sem hægt er að gera mánaðarlega fjárhagsáætlun og haldi úti bókhaldi.

Útgjöld eru bara þrenns konar

Útgjöldin flokkast í þrennt; sparnað, neyslu og niðurgreiðslu lána. Til að ná varanlegum tökum á fjármálunum er nauðsynlegt að setja sparnað í forgang og víkja ekki frá þeirri reglu. Sparnaður kemur í veg fyrir frekari lántöku síðar meir.

Það er sniðugt að nota vasapening

Ef fólk sleppir því að nota kredit- og debitkort og tekur vasapening út mánaðarlega er auðveldara að finna fyrir neyslunni. Eins að setja sjálfum sér ákveðin mörk: að eyða ekki meira en ákveðinni upphæð vikulega. Þessi áætlun verður þó að vera raunhæf: Ef fólk telur að það eyði 15.000 krónum í mat á viku þá er ólíklegt að 7.000 króna markmiðið gangi upp.

Höfuðstóll lána

Til að lækka greiðslubyrði lána er mikilvægt að skoða hvaða lán eru dýrust, þ.e. bera hæstu vextina, og borga reglulega inn á höfuðstól þeirra. Þegar höfuðstóllinn minnkar lækkar vaxtabyrðin, því vextir eru ákveðið hlutfall af höfuðstólnum.

Óhollu hlutirnir virðast oft vera þeir dýrustu

Fólk getur oft minnkað peningaeyðsluna með því að lifa heilsusamlegra lífi. Óhollu hlutirnir eru nefnilega oft þeir dýrustu. Það er góð byrjun að borða minna nammi, drekka sjaldnar áfengi og reykja minna. Þar að auki er mun ódýrara að fara í sund eða á kaffihús en að kíkja í bíó eða á skemmtistað.

Gott er að skilgreina þarfir og langanir

Áður en farið er út í stór innkaup, s.s. á heimilistækjum eða dýrum fatnaði, er ágætt að fólk velti fyrir sér hvort það þurfi ákveðinn hlut – eða langi í hann. Sé þörfin ekki til staðar, má eflaust bíða með kaupin áfram. Ef til vill má kaupa hann fyrir sparnaðinn sem safnast hefur upp síðar meir.

Fólk þarf að færa fórnir annað slagið

Það þarf hinsvegar ekki að fórna miklu, því margt smátt gerir eitt stórt. Ef fólk fórnar einhverju reglulega, þó ekki nema blandi í poka eða það hellir upp á kaffi heima í stað þess að fara á kaffihús, er hægt að spara talsverða upphæð. Ef fólk drekkur fimm gosflöskum minna á mánuði, sleppir því að panta pítsu í eitt skipti og sleppir einni bíóferð er strax búið að spara 5000 krónur.

Sparnaðarreikningar geta hjálpað

Snjallræði er að leggja inn ákveðna, fasta upphæð á sparnaðarreikning mánaðarlega. Reikningurinn þarf ekkert endilega að vera lokaður, en þó skal forðast að hafa debitkort tengt við hann. Þannig er hægt að byggja upp varasjóð eða safna pening upp í eitthvað eins og föt eða raftæki. Mælt er með því að taka alltaf 10% tekna í upphafi mánaðar og leggja inn á sérstakan sparnaðarreikning.

Það kostar að eyða pening sem maður á ekki

Fólk ætti því eftir fremsta magni að reyna að losa sig við yfirdráttinn og Visa-kortið. Það kostar nefnilega helling að skulda og það er svolítið eins og að henda peningum að láta þá fara í vexti til bankanna. Betra er að bankavextirnir vinni fólki í hag, þ.e. að ávaxta upphæðina á sparireikningi.

Inneign frekar en símreikning?

Með því að kaupa inneign er hægt að koma í veg fyrir að símreikningar fari upp úr öllu valdi. Fólk er oft ómeðvitað um símanotkun sína þegar hún er í áskrift. Því er snjallræði að láta breyta áskriftarleiðinni úr símreikningi yfir í frelsi.

Tilboð og útsölur geta verið vinir manns

Ef maður tapar sér ekki í kaupgleðinni má draga verulega úr eyðslu með að nýta sér tilboð í matvöruverslunum og kaupa hlutina sem vantar á útsölum. Ef fólk nýtir sér tilboð og útsölur á skynsaman hátt getur það oft með góðu móti sparað auka pening.

 

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar