Hvernig námslán eru í boði?

Algengast er að námsmenn sæki um framfærslulán (þ.e. lán fyrir uppihaldi) og skólagjaldalán hjá LÍN. Einnig eru fleiri lán í boði, s.s. bókalán, lán fyrir efniskostnaði, ferðalán og lán vegna sjúkratrygginga.

Hvaða nám er lánshæft?

LÍN veitir lán til náms í fjöldanum öllum af framhalds- og háskólum hérlendis og erlendis.

  • Allt háskólanám á Íslandi er lánshæft.
  • Nám á háskólastigi erlendis sem gerir sambærilegar kröfur og háskólar á Íslandi er yfirleitt lánshæft.
  • Starfs-, iðn- og tækninám á Íslandi er margt lánshæft.

Á heimasíðu LÍN má finna lista yfir lánshæfa skóla á Íslandi og erlendis.

Hvernig er sótt um námslán?

Sótt er um námslán á mínu svæði hjá LÍN. Mikilvægt er að kynna sér ábyrgðina sem fylgir því að taka námslán og úthlutunarreglur.

Bankinn lánar fyrir framfærslu þar til greiðsla berst frá LÍN

LÍN borgar ekki út námslán fyrr en námsmaður hefur staðið skil á ákveðnum einingafjölda – nánar til tekið 22 ECTS-einingum á önn.  Þurfi fólk hinsvegar að fá greitt fyrir uppihald áður en önninni líkur verður að leita til bankanna. Þá er farið með lánsyfirlýsinguna í þann banka sem fólk á viðskipti við og bankinn lánar fyrir framfærslunni. Oftast er um að ræða framfærslulán í formi yfirdráttar. LÍN greiðir svo út lánið í lok annar: nái námsmaðurinn öllum einingum getur hann þannig borgað yfirdráttarlánið upp með greiðslunni frá LÍN.

Á Áttavitanum má lesa frekar um yfirdrátt.

Hvenær rennur umsóknarfrestur út?

Sækja verður um námslán fyrir 1. desember fyrir haustönn. Hægt að sækja um námslán fyrir vorönn fram til 1. maí. Umsóknarfrestur fyrir nám á sumarönn rennur út 1. júlí.

Hvað fá nemendur mikið í námslán?

Grunnframfærsla á  Íslandi námsárið 2017-2018 er 177.107 kr. á mánuði eða 25.918 kr. fyrir hverja ECTS-einingu sem námsmaður lýkur en grunnframfærslan miðar við einhleypan námsmann í leigu- eða eigin húsnæði. Fullt lán fyrir námsmann í foreldrahúsnæði er 81.400 kr. á mánuði. Það má hafa allt að 930.000 kr. í tekjur á ári áður en lánið skeriðst. Framfærsla námsmanna erlendis miðast við grunnframfærslu þar sem skólinn er staðsettur.

Í reiknivél á heimasíðu LÍN má gróflega reikna út lánsupphæðina.

Hvenær eru námslán greidd út?

Námslánin er greidd út eftir hverja önn. Til að fólk fái greidd full námslán gerir LÍN kröfu um að fólk standist öll próf og áfanga. Ef fólk gerir það ekki fær það skert námslán. Námsmaður þarf þó að ljúka minnst 18 ECTS-einingum á önn til að eiga rétt á námslánum.

Hvað kostar að taka námslán?

Námslán eru sennilega hagstæðustu lán sem fólki bjóðast. Vextirnir á þeim eru 1% á ári. Lögum samkvæmt mega þeir vera 3%. Auk þess er dregið 1,2% af öllum lánum sem borguð eru út í lántökugjald. Þegar maður fær lánað hjá bankanum í formi yfirdráttar borgar fólk vexti af því láni líkt og um venjulegan yfirdrátt væri að ræða. Oft bjóða bankarnir námsmönnum þó aðeins hagstæðari lánakjör í þessum tilvikum.

 

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar