Hvernig námslán eru í boði?
Algengast er að námsmenn sæki um framfærslulán (þ.e. lán fyrir uppihaldi) og skólagjaldalán hjá Menntasjóði námsmanna (MSNM áður LÍN). Einnig eru fleiri lán í boði, s.s. bókalán, lán fyrir efniskostnaði, ferðalán og lán vegna sjúkratrygginga.
Hvaða nám er lánshæft?
MSNM veitir lán til náms í fjöldanum öllum af framhalds- og háskólum hérlendis og erlendis.
- Allt háskólanám á Íslandi er lánshæft.
- Nám á háskólastigi erlendis sem gerir sambærilegar kröfur og háskólar á Íslandi er yfirleitt lánshæft.
- Starfs-, iðn- og tækninám á Íslandi er margt lánshæft.
Á heimasíðu MSNM er hægt að fletta upp lánshæfu námi og skólum á Íslandi og erlendis.
Hvernig er sótt um námslán?
Sótt er um námslán í gegnum Mitt lán á heimasíðu MSNM. Mikilvægt er að kynna sér ábyrgðina sem fylgir því að taka námslán og lánareglur.
Hvenær rennur umsóknarfrestur út?
Sækja verður um námslán fyrir 15. október fyrir haustönn. Hægt að sækja um námslán fyrir vorönn 2023 til og með 15. janúar. Umsóknarfrestur fyrir nám á sumarönn rennur út 15. júlí.
Hvað fá nemendur mikið í námslán?
Grunnframfærsla á Íslandi er breytileg eftir aðstæðum og fjölskylduhögum. Miðað er við námsmann í fullu námi, sbr. 60 ECTS-einingar á skólaári. Fyrir námsmann sem býr í foreldrahúsum er grunnframfærsla 106.320 kr. á mánuði eða 15.948 kr. fyrir hverja ECTS-einingu. Ef námsmaður býr í leigu- eða eigin húsnæði eru þetta 137.100 kr. á mánuði eða 20.565 kr. fyrir hverja einingu.
Í reiknivél á heimasíðu MSNM má gróflega reikna út lánsupphæðina.
Hvenær eru námslán greidd út?
Námslánin er greidd út eftir hverja önn. Til að fólk fái greidd full námslán gerir MSNM kröfu um að fólk standist öll próf og áfanga. Ef fólk gerir það ekki fær það skert námslán. Námsmaður þarf þó að ljúka minnst 22 ECTS-einingum á önn til að eiga rétt á námslánum.
Hvað kostar að taka námslán?
Námslán eru sennilega hagstæðustu lán sem fólki býðst. Vextirnireru breytilegir og er miðað við bestu fáanlegu vexti á hverjum tíma. Lögum samkvæmt mega þeir vera 4%. Námslán eru verðtryggð meðan á námi stendur en eftir að námi lýkur er hægt að velja hvort lánið sé verðtryggt eða óverðtryggt.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?