Hvað er Eurovison?

Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, eða eins og maður segir á góðri ensku the Eurovision Song Contest, er söngvakeppni sem er haldin árlega í maímánuði. Söngvakeppnin er milli þeirra þjóða sem hafa stjónvarpsstöðvar (hérlendis er það RÚV) sem eru í Sambandi evrópskra sjónvarpsstöðva (SES).
Keppnin er upprunalega byggð á ítölsku keppninni ,,Festival di Sanremo’’ og hefur verið haldin alveg frá árinu 1956. Litið var á keppnina sem eins konar sameiningartákn Evrópu eftir fyrri og seinni heimsstyrjöldina.
Einnig er Söngvakeppnin send út til landa utan Evrópu sem ekki keppa, s.s. Kína, Kanada, Nýja Sjáland og Bandaríkin. Þegar keppnin varð 60 ára, árið 2015, var tekin ákvörðun um að leyfa Ástralíu að keppa. Ástralía átti einungis að keppa einu sinni en eftir velgengni heimsálfunnar var Ástralíu leyft að keppa næstu 3 árin.

Hvernig virkar Eurovision?

Árlega sendir hvert þátttökuland upprunalegt lag sem verður flutt í beinni útsendingu í sjónvarpi, útvarpi og á internetinu.
Nokkur skilyrði þarf að uppfylla til þess að geta tekið þátt í Eurovision:

    • Framlögin þurfa að innihalda söng og þarf allur söngur að vera sunginn í beinni (einu sinni máttu löndin einungis syngja á sínu móðurmáli! En núna má syngja á hvaða tungumáli sem er).
    • Lögin mega ekki vera lengri en þrjár mínútur.
    • Aðeins 6 manns mega vera á sviðinu og engin dýr eru leyfð.
    • Fulltrúar síns lands verða að hafa náð 16 ára aldri á úrslitakvöldinu sjálfu.
    • Fulltrúar mega ekki keppa fyrir fleiri en eitt land ár hvert.
    • Hvert framlag má ekki innihalda einhvers konar óviðeigandi texta, pólitískan áróður, kynningarefni fyrirtækis/stofnun/o.fl.

Hægt er að sjá allar reglurnar á vefsíðu Eurovision.

Oft eru haldnar undankeppnir í hverju landi fyrir sig, eins og við höldum Söngvakeppni Sjónvarpsins á RÚV, til þess að ákveða hver verði fulltrúi síns lands. Aðeins 44 lönd fá að taka þátt í keppninni og þegar þau eru komin með sitt framlag er þeim skipt í tvo ,,riðla’’. Margir kannast við þessa riðla sem undanúrslitakvöld 1 og undanúrslitakvöld 2 (UK1/UK2). Aðeins þau lönd sem eru að keppa á UK 1 geta kosið lögin á UK 1, það sama gengur um UK 2.

Á úrslitakvöldinu, sem er venjulega á laugardegi, keppa 26 lönd. Þau sem komust upp úr sínu UK og þau sem eru helstu bakhjarlar keppninnar (Frakkland, Þýskaland, Spánn, Ítalía og England) og sigurlandið árið áður.

Hvar er Eurovison haldið?

Frá árinu 1981 hefur Söngvakeppnin verið haldin í sigurlandinu sem vann árið áður. T.d. Ítalía vann árið 2021, því verður næsta keppni haldin á Ítalíu árið 2022 (Ef landið er til í það og er með húsnæði/ bæ eða borg sem ná að hýsa keppnina).

Hvað gerist ef Ástralía skyldi vinna?

Þá ákveður SBS, útsendingarstöð Ástralíu, í samstarfi við SES, Samband evrópskra sjónvarpsstöðva, hvar keppnin verður næsta ár.

Hvernig fer atkvæðagreiðslan fram?

Stigagjöf byggist á símakosningu (símtal, SMS og í gegnum App) og 5 manna dómarateymi hvers lands.

Hér er dæmi:
Ísland er að velja sitt uppáhalds framlag. Hver dómari raðar framlögunum í röð frá 1 upp í 26 (1 verandi besta framlagið og 26 verandi versta framlagið). 12, 10, 8-1 stig eru gefin.

    • 12 stig eru gefin til framlagsins sem er efst hjá dómarateyminu.
    • 10 stig eru gefin til framlagsins sem er næstefst hjá dómarateyminu (Og síðan koll af kolli..)

Það framlag sem fær flest atkvæði úr símakosningunni fær 12 stig, það næstefsta fær 10 stig, stigagjöfin fer svo frá 8 og niður í 1 stig.

Til þess að endanlega velja hvaða framlög fá stigin frá Íslandi er dómaraatkvæðunum og símaatkvæðunum safnað saman. Atkvæðunum úr símakosningunni og atkvæðum dómaranna er skipt 50/50 og er stigagjöf hvers lands komin út frá því. Framlagið sem er með flest atkvæði frá samansafninu fær 12 stig frá Íslandi. Framlagið með næstflest atkvæði fær 10 stig, það næsta fær 8 stig, … 7 stig, síðan koll af kolli.

Hvað gerist ef það er jafntefli?

Samkvæmt gildandi reglum, ef fleiri en eitt land endar með sama heildarfjölda stiga er talið fjölda þeirra landa sem veittu jafnteflislöndunum stig. Það land sem fékk flest stig frá flestum löndum er sigurvegari.
Ef það er enn þá jafntefli eftir talninguna er talið hversu mörg sett af 12 stigum hvert jafnteflisland fékk. Ef það er enn þá jafntefli er talið hversu mörg sett af 10 stigum hvert jafnteflistland fékk. Þetta heldur áfram alveg þangað til að talið er hversu mörg sett af 1 stigi hvert jafnteflisland fékk.

Ef svo ólíklega vill til að það sé ennþá jafntefli eftir allar talningarnar, er landið sem var á undan að flytja sitt framlag yfirlýstur sigurvegari.

Saga Íslands í Eurovision

Árið 1986 tók Ísland fyrst þátt í Söngvakeppninni. Dægurlagið, Gleðibankinn, var fyrsta framlag Íslands og var það flutt af söngflokknum ICY. Gleðibankinn lenti í 16 sæti það ár.
Ísland hefur tvisvar sinnum lent í öðru sæti, í fyrra skiptið var það árið 1999 þegar Selma Björnsdóttir flutti ,,All out of Luck’’. Í seinna skiptið var það árið 2009 þegar Jóhanna Guðrún Jónsdóttir flutti ,,Is it true?’’.

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar