Femínistafélag Íslands

Heimasíða: www.feministinn.is

Hvernig er hægt að hafa samband ?

Í gegnum Fésbókina og netfangið feministinn@feministinn.is.
Á vef félagsins er listi yfir ráðskonur starfsársins, þar er sérstaklega tilgreind „talskona“ og mælst er til þess að haft sé samband við hana.

Hvað gerir Feministafélag Íslands?

Fastir liðir hafa skapast í áranna rás og má þar nefna afhendingu „Bleiku steinanna“ 19. júní ár hvert – sem eru hvatning til viðtakenda að taka tillit til jafnréttissjónarmiða – forvarnarátak Nei-hreyfingarinnar gegn nauðgunum og Hittin. Hittin eru opin öllum og góður vettvangur til að hlýða á framsögn um femínísk málefni, sem eru ofarlega á baugi, og taka þátt í umræðum. Hittin eru alla jafna mánaðarlega yfir vetrartímann. Að auki eru viðburðir af ýmsu tagi, sem félagsmenn ákveða oft með stuttum fyrirvara.

Ráð Femínistafélags Íslands skipar stjórn þess, en þar sitja 9-12 femínistar sem hittast reglulega til þess að ræða málin og aðgerðir félagsins. Þeir eru kjörnir á aðalfundi ár hvert. Aðgerðir félagsins eru oft viðbrögð við óréttlæti og því geta verkefnin verið margbreytileg, allt eftir því sem hæst ber í samfélaginu á hverjum tíma.

Helstu markmið feministafélagsins eru:

  • að vinna að jafnrétti kynjanna;
  • að vinna gegn hverskonar birtingarmyndum kynjamisréttis. Þar má nefna klámvæðingu, ágengar og lítilsvirðandi auglýsingar, ofbeldi, mansal og vændi;
  • að uppræta staðalmyndir um hlutverk og eðli kvenna og karla;
  • að bæta stöðu kvenna á vinnumarkaði, útrýma kynbundum launamun og auka hlut kvenna í stjórnun auðlinda og fjármagns;
  • að styrkja þátttöku kvenna í opinberu lífi, fjölmiðlum og stjórnmálum;
  • að stuðla að samfélagi sem tekur mið af mismunandi hagsmunum og sjónarmiðum karla og kvenna svo sem í atvinnu- og menntamálum, stjórnmálum, menningu og á vettvangi einkalífsins.
  • Markmiðum þessum er unnið að með lýðræðislegri, gagnrýnni og sýnilegri umræðu á fundum, Netinu og í öðrum fjölmiðlum.

Hvernig er hægt að taka þátt ?

Femínistafélagið er opið öllum femínistum. Aðalfundir félagsins eru haldnir á vorin og þar gefst öllum kostur á að mæta og bjóða fram krafta sína sem ráðskonur eða í hópastarf. Í ráðinu sitja bæði karlar og konur, ungir sem aldnir. Viðburðir á vegum félagsins eru oftast öllum opnir, ekki eingöngu félagsmönnum, og þeir eru auglýstir á vef félagsins og á Fésbókarsíðunni.

Starf félagsins byggir á sjálfboðaliðum sem vilja leggja sitt af mörkum til að efla framgang jafnréttismála. Þeim sem vilja taka þátt í starf félagsins er bent á að senda tölvupóst eða hafa samband við ráð félagsins. Ef áhugasamir vilja taka þátt í einstaka aðgerðum er hægt að hafa samband við talskonu ráðsins.

Femínistafélag Íslands var stofnað vorið 2003. Femínistafélag Íslands er samstarfsvettvangur femínista hér á landi. Í gegnum félagið er hægt nýta krafta sína í þágu kynjajafnréttis, taka þannig þátt í að búa til betra samfélag og kynnast um leið öðrum femínískum eldhugum.

 

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar