Femínismi er stefna sem berst fyrir jafnrétti kynjanna.

Skilgreiningar á femínisma umfram það hafa löngum verið umdeildar og hugmyndir og baráttuaðferðir hans margvíslegar, en út frá þessum kjarna hefur femínismi þróast síðustu áratugi.

Hverjar eru þrjár bylgjur femínisma?

Femínismi á rætur sínar í baráttu fyrir mannréttindum kvenna og jöfnum rétti þeirra á við karla. Meginhluta mannkynssögunnar höfðu konur enda minni réttindi en karlar í samfélaginu, voru að mestu eða öllu útilokaðar frá áhrifastöðum og haldið á heimilinu við verkastörf og uppeldi.

Síðan þá hefur stefnan vitaskuld þróast og tekið breytingum og oft er talað um þrjár „bylgjur“ femínisma. Þessar bylgjur ná gróflega yfir þrjú tímabil hugmyndafræðinnar, sem hver hefur sín sérkenni.

1. Bylgja femínisma

Þegar leið á 19. öld varð barátta kvenna fyrir kosningarétti og öðrum réttindum, jafnrétti að lögum og aðgengi að vinnumarkaði og samfélagi háværari. Þessi barátta hefur verið kennd við femínista á borð við Mary Wollstonecraft og kölluð „fyrsta bylgja“ femínisma, sem barðist fyrir formlegum og lagalegum réttindum kvenna.

2. Bylgja femínisma

Hin svokallaða „önnur bylgja“ femínisma, sem kom fram upp úr 7. áratug 20. aldar, vildi hins vegar ganga lengra en að berjast fyrir formlegu jafnrétti kynjanna og lagði áherslu á dulda mismunun og ójafnrétti í samfélaginu. Þannig barðist sú hreyfing m.a. gegn kynbundnu ofbeldi, staðalmyndum, klámi og misrétti á vinnustað og heimili, auk formlegra réttinda og betri stöðu kvenna við barneignir.

3. Bylgja femínisma

„Þriðja bylgja“ femínisma kom síðan upp á 9. áratug 20. aldar og greinist í margar undirstefnur. Sú bylgja hefur m.a. lagt áherslu á að víkka sjónarhorn femínismans til fátækari kvenna, kvenna af öðrum kynþáttum og fleiri samfélagshópa. Þar eru hefðbundnar skilgreiningar á kyngervi, kynferði, karlmennsku og kvenleika dregnar í efa sem tilbúningur samfélagsins og feðraveldisins, þ.e. skipulegrar undirsetningar kvenna í valdakerfum. Hugmyndir femínista þriðju bylgjunnar um klám og kynfrelsi eru auk þess ekki jafn afgerandi andsnúnar og í annarri bylgjunni.

Femínismi í dag

Femínisma og barátta femínista nú á dögum er því af margvíslegum og oft ólíkum toga; baráttan gegn kynbundnu ofbeldi og fyrir grundvallarréttindum kvenna er enn áberandi viðfangsefni í stórum hluta heimsins og við hana hefur bæst barátta þriðju bylgjunnar gegn ýmsum hugmyndum og aðstæðum í vestrænu samfélagi.

Helstu markmið Femínistafélags Íslands eru skv. kynningu þeirra á Áttavitanum:

  • að vinna að jafnrétti kynjanna;
  • að vinna gegn hvers konar birtingarmyndum kynjamisréttis. Þar má nefna klámvæðinguna, ágengar og lítilsvirðandi auglýsingar, ofbeldi, mansal og vændi;
  • að uppræta staðalmyndir um hlutverk og eðli kvenna og karla;
  • að bæta stöðu kvenna á vinnumarkaði, útrýma kynbundum launamun og auka hlut kvenna í stjórnun auðlinda og fjármagns;
  • að styrkja þátttöku kvenna í opinberu lífi, fjölmiðlum og stjórnmálum;
  • að stuðla að samfélagi sem tekur mið af mismunandi hagsmunum og sjónarmiðum karla og kvenna svo sem í atvinnu- og menntamálum, stjórnmálum, menningu og á vettvangi einkalífsins.
  • Markmiðum þessum er unnið að með lýðræðislegri, gagnrýnni og sýnilegri umræðu á fundum, Netinu og í öðrum fjölmiðlum.

Femínismi á rætur sínar í baráttu fyrir mannréttindum kvenna og jöfnum rétti þeirra á við karla.

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar