1. Kristni – 2,1 milljarðar

Kristni er fjölmennasta trú veraldar. Kristni er eingyðistrú sem á rætur að rekja til gyðingdóms, enda trúa kristnir og gyðingar á sama guðinn. Kristnir trúa því að frelsarinn, eða “Messías,” sé fæddur, hann hafi heitið Jesús og hafi frelsað mannkynið undan syndum sínum. Kristnir söfnuðir eru mjög margir og hafa mjög misjafnar áherslur og trúarkenningar.

2. Islam – 1,5 milljarðir

Islam er næstfjömennasta trú heimsins og er upprunin í Arabíu. Islam er eingyðistrú, og þeir sem aðhyllast Islam eru kallaðir múslimar. Orið Islam þýðir undirgefni, og vísar til þess að múslimi er sá sem er undirgefinn Guði. Múslimar trúa á sama Guð og kristnir og gyðingar, en kalla hann öðru nafni, Allah. Upphafsmaður Islam er spámaðurinn Múhammeð, sem skrifaði kóraninn.

3. Hindúismi – 1 milljarður

Hindúatrú er elsta trúarbragð sem enn er iðkað í heiminum. Hún er upprunin á Indlandi og er samansafn gríðarlega margra þjóðtrúa, goðsagna, hefða og heimspekikenninga. Hindúar eru yfirleitt algyðistrúar, en sumir eru eingyðistrúar, fjölgyðistrúar og jafnvel guðlausir. Hindúismi byggir á hinum fornu Veda-ritum, og felur í sér átrúnað á borð við Jóga, endurfæðingu, hugleiðslu og grænmetisát. Hindúatrú er flókin og siðir hindúa margbrotnir og skrautlegir.

4. Búddismi  – Um 500 miljónir

Búddistar fylgja heimspekikenningum Búdda, sem hét réttu nafni Siddharta Gautama og var indverskur prins. Búdda þýðir “hinn upplýsti” og vísar til þess að Búddistar reyna að öðlast uppljómun í lífi sínu, verða eitt með almættinu. Allir geta orðið upplýstir Búddar með því að iðka Búddisma. Búdda byggði kenningar sínar á hindúisma, þannig að segja má að Búddismi sé afbrigði eða afkvæmi hindúisma. Búddistar styðjast við hin göfugu sannindi fjögur, hina áttföldu leið og siðareglurnar fimm.

5. Kínversk þjóðtrú – 450 miljónir

Kínversk þjóðtrú byggir á tilbeiðslu goða, náttúruanda, dreka og forfeðra. Kínversk þjóðtrú er fjölbreytt og í hverju héraði í Kína er mismunandi tegund tilbeiðslu iðkuð. Margir Kínverjar trúa á Qi, sem er lífsorkan. Taoismi er hluti af kínversku þjóðtrúnni, en hann gengur út á það að lifa í sátt við Dao, eða veginn, sem er undirliggjandi kraftur alheimsins. Einnig líta margir á speki Konfúsíusar sem mikilvægan þátt í Kínverskri þjóðtrú.

6. Shinto – 50 miljónir

Shinto er japönsk þjóðtrú sem gengur út á að hreinsa sál sína af óhreinindum, öðlast innri frið og tengjast visku fortíðarinnar með því að iðka margs konar tilbeiðslu og íhugun. Shinto felur í sér margar japanskar þjóðsögur um sköpun heimsins og vitringa fortíðar. Shinto-istar biðja við skríni utandyra, halda miklar dans- og tónlistarhátíðir og stunda íhugun.

7. Síkismi – 25 Miljónir

Síkismi er eingyðistrú sem er að mörgu leiti byggð á Hindúisma. Síkar trúa á einn guð sem skapaði heiminn og ræður öllu, og allt er gert úr þessum eina guði. Þar að auki fylgja Síkar kenningum og siðaboðskap hinna tíu gúrúa, sem voru uppi á 16. og 17. öld í Indlandi. Síkar fylgja látlausum og ströngum lífstíl sem byggir á hreinleika og stunda sína trú á mjög persónulegan hátt.

8. Gyðingdómur – 14 Miljónir

Gyðingdómur er ein af elstu trúarbrögðum sem enn eru iðkuð í heiminum. Flókið er að skilgreina gyðinga vegna þess að gyðingar eru bæði trúarbrögð og þjóð. Gyðingar eru í þeirra eigin skilningi Guðs útvalda þjóð. Rétttrúnaðargyðingar trúa því að jafnvel þó maður hætti að trúa á guð, þá verði maður alltaf af gyðingaþjóð. Gyðingdómur er eingyðistrú sem byggir á hinni fornu Tanakh.

9.  Jaínismi – 10 miljónir

Jaínismi er ein af elstu trúarbrögðum sem til eru í heiminum og á rætur að rekja til Indlands. Jaínismi er algyðistrú sem gengur út á mikla sjálfsögun, föstu, friðsemd og bænir. Jaínar trúa á endurholdgun og jafnrétti alls sem lifir. Allir hlutir hafa sál sem er fjötruð í efni sínu og myndast fyrir tilstuðlan karma.

10. Bahá’í trú – 7 milljónir

Bahá’í trúin er eingyðistrú sem var stofnuð á 19. öld af spámanninum Bahá’u’lláh í Íran. Bahá’íar trúa því að allir spámenn og sendiboðar sögunnar hafi verið sendir af eina og sama guðinum. Þessi eini guð hefur verið kallaður mörgum nöfnum í gegnum aldirnar og öll trúarbrögð heimsins koma frá þessum eina guði. Allir guðir eru sami guðinn, öll trúarbrögð eru eitt og allt mannkynið er sameinað. Bahá’í trú er látlaus eingyðistrú.

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar