Kristni er fjölmennasta trú veraldar. Kristni er eingyðistrú sem er upprunin í Ísrael, en breiddist út í gegnum Rómaveldi og Evrópu á seinni öldum. Hún á rætur að rekja til gyðingdóms, enda trúa kristnir og gyðingar á sama guðinn, og reyndar múslimar líka. Munurinn á kristni og gyðingdóm er sá að kristnir trúa því að frelsarinn, eða “Messías,” sé þegar fæddur, hann hafi heitið Jesús og hafi frelsað mannkynið undan syndum sínum, en gyðingar trúa ekki að Jesús sé frelsarinn og bíða því enn eftir Messíasi. Kristnir söfnuðir eru mjög margir og hafa mjög misjafnar áherslur og trúarkenningar, en hér eru nokkur aðalatriði.
Kristni í hnotskurn
- Nafn: Kristni, fylgjendur eru kristnir
- Guð: Eingyðistrú. Þríeinn guð (Guð, Jesús og heilagur andi)
- Algengust: Á vesturlöndum og í S-Afríku
- Bænarhús: Kirkjur
- Heilagasta hátíð: Páskar
- Helgidagur: Sunnudagur (Laugardagur hjá sumum söfnuðum)
- Helgirit: Biblían
- Fylgjendur í heiminum: um 2,1 milljarður
- Fylgjendur á íslandi: um 244.000
- Fjöldi íslenskra félaga: 32
Hver er Guð Kristinna manna ?
Kristnir trúa á hinn þríeina Guð, það er einn guð sem hefur þrjár birtingarmyndir.
- Guð faðir almáttugur, skapari himins og jarðar (Nafn hans er Jahve, en það er sjaldan notað).
- Jesús kristur, eingetinn sonur guðs og frelsari mannkyns.
- Heilagi andinn, sem svífur yfir öllu.
Túlkun kristinna á þrenningunni er mjög misjafn eftir söfnuðum, og sumir afneita þrenningunni reyndar alveg, og líta á Guð sem einn og óskiptan.
Samkvæmt Biblíunni fæddi María mey son Guðs, Jesú í Betlehem og þegarJesú ólst upp gerðist hann predikari, framdi kraftaverk, kenndi fyrirgefningu og umhyggju fyrir fátækum og sjúkum og kenndi fólki að trúa á Guð og biðja til hans. Jesús var krossfestur af Rómverjum en steig upp frá dauðum og reis til Himnaríkis til föður síns, Guðs. Kristnir trúa því að sá sem trúir á Guð og Jesú Krist verði frelsaður og fái fyrirgefningu synda. Að jafnaði eru börn skírð til kristni og geta síðar á ævinni staðfest skírnina sína með fermingu þegar þau játa trú á Jesú.
Hvar er kristni algengust ?
Kristni er algengust í Evrópu, Norður- og Suður-Ameríku, Ástralíu og sunnanverðri Afríku. Samkomustaðir kristinna nefnast kirkjur og kapellur.
Hvert er helgirit kristinna?
Helgirit kristinna er Biblían, en hún er samansafn margra bóka og bréfa sem skiptast í tvo hluta: Nýja Testamentið og Gamla Testamentið. Gamla Testamentið segir frá sköpun og sögu heimsins fyrir fæðingu krists, og segir frá ýmsum siðareglum, spádómum og dæmisögum. Gamla Testamentið er að mestu leiti sama rit og helgirit gyðinga. Nýja Testamentið segir frá ævi og störfum Jesú krists, kenningum hans og trúboði lærisveina hans.
Hverjar eru helstu trúarhátíðir kristinna?
- Langafasta hefst á öskudegi, 40 dögum fyrir páska. Þá fasta sumir kristnir.
- Páskavikan er á breytilegum tíma á vorin. Þá fagna kristnir síðustu ævidögum, krossfestingu og upprisu Jesú. Pálmasunnudagur, skírdagur, föstudagurinn langi og páskadagur tilheyra vikunni.
- Uppstigningardagur er 40 dögum eftir páska og þá fagna kristnir því að Jesú steig upp til himna.
- Hvítasunnudagur er sjö vikum eftir páska. Þá fagna kristnir því þegar heilagur andi steig yfir lærisveina Jesú.
- Allra heilagra messa er 1. nóvember. Þá minnast kristnir allra helgra manna, dýrlinga, píslarvotta, trúboða o.fl. Kvöldið fyrir Allra heilagra messu er nefnt Hrekkjavaka.
- Jól 25. desember – 6. janúar og aðventa í fjórar vikur á undan. Þá fagna kristnir fæðingu krists. Jól rétttrúnaðarkirkjunnar byrja þó aðeins seinna.
Hverjir eru helstu söfnuðir kristinna?
Kristnum mönnum má gróflega skipta í 4 hópa sem raðast í þessa röð eftir stærð: Kaþólska kirkjan, mótmælendur, rétttrúnaðarkirkjan (Orthodox) og mormónar
Hvað eru Kaþólsk trú?
Kaþólikkar trúa að Jesús Kristur hafi stofnað kirkjuna samkvæmt Mattheusarguðspjalli. Hann á að hafa nefnt Pétur postula sem fyrsta leiðtoga kirkjunnar. Arftaki Péturs postula er páfinn í Vatíkaninu í Róm og er hann leiðtogi kaþólsku kirkjunnar. Þúsundir heilagra dýrlinga tilheyra kaþólskum sið. Kaþólikkar trúa því að altarissakramentið sé í raun og veru líkami og blóð krists. Kaþólska kirkjan er langstærsti söfnuður kristinna.
Hvað er mótmælendatrú?
Mótmælendur er heitið á mjög mörgum söfnuðum kristinna manna. Mótmælendasöfnuðir eru mjög fjölbreyttir en eiga það sameiginlegt að hafa klofið sig frá kaþólsku kirkjunni. Dæmi um mótmælendakirkjur eru Enska Biskupakirkjan, Hvítasunnusöfnuðurinn, Aðventistar, Baptistar o.fl., en þekktustu mótmælendurnir á Íslandi eru Lútherstrúar. Þeir boða persónulegt og látlaust samband við Guð. Íslenska þjóðkirkjan er dæmi um Lúterska mótmælendakirkju.
Hvað er Rétttrúnaðarkirkja (Orthodox)?
Rétttrúnaðarkirkja (Orthodox) er heiti yfir fjölmargar kirkjudeildir frá Asíu, Afríku og Austur-Evrópu sem, líkt og kaþólska kirkjan, telja sig vera arftakar Péturs postula. Siðir rétttrúnaðarkirkna eru mjög fornir og hátíðlegir. Í hverri rétttrúnaðarkirkju er einn “patríarki” sem er trúarleiðtogi kirkjunnar, ekki ósvipað páfanum.
Hvað er Mormónstrú?
Mormónar tilheyra kirkju sem nefnist “Kirkja Jesú Krists, hinna síðari daga heilögu.” Mormónismi er uppruninn í Bandaríkjunum og byggir á Mormónsbók, sem Joseph Smith á að hafa þýtt úr fornmáli á 19. öld, og er oft kölluð Þriðja Testamentið eða “Annað vitni um Jesú Krist.” Samkvæmt Mormónsbók á Jesús að hafa boðað frumbyggjum trúna í Ameríku. Karlkyns mormónar þurfa á ákveðnum tímapunkti í lífi í sínu að leggja stund á trúboð.
Kristileg trúfélög á íslandi
Árið 2013 voru 32 skráð kristileg trúfélög á íslandi. Þau eru:
- Alþjóðleg kirkja Guðs og embætti Jesú Krists
- Betanía, kristið samfélag
- Boðunarkirkjan
- Bænahúsið
- Catch the fire (CTF)
- Emmanúel baptistakirkjan
- Endurfædd kristin kirkja af Guði
- Fjölskyldusamtök heimsfriðar og sameiningar
- Fríkirkjan í Hafnarfirði
- Fríkirkjan í Reykjavík
- Fríkirkjan Kefas
- Fyrsta baptistakirkjan
- Heimakirkja
- Himinn á jörðu (Betel)
- Hjálpræðisherinn trúfélag
- Hvítasunnukirkjan á Íslandi
- Ísland kristin þjóð
- Íslenska Kristskirkjan
- Kaþólska kirkjan
- Kirkja hins upprisna lífs
- Kirkja Jesú Krists hinna síðari daga heilögu
- Kirkja sjöunda dags aðventista á Íslandi
- Krossinn
- Óháði söfnuðurinn
- Rússneska rétttrúnaðarkirkjan
- Samfélag trúaðra
- Serbneska rétttrúnaðarkirkjan
- Sjónarhæðarsöfnuðurinn
- Vegurinn, kirkja fyrir þig
- Vottar Jehóva
- Þjóðkirkjan
Mynd fengin af wikipedia / breytt af Áttavitanum
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?