Bahá’í trúin er eingyðistrú sem var stofnuð á 19. öld af spámanninum Bahá’u’lláh í Íran. Bahá’íar trúa því að allir spámenn og sendiboðar sögunnar (Móses, Jesús, Abraham, Múhammeð, Búdda, Krishna o.fl) hafi verið sendir af eina og sama guðinum. Þessi eini guð hefur verið kallaður mörgum nöfnum í gegnum aldirnar og öll trúarbrögð heimsins koma frá þessum eina guði. Það þýðir að guð kristinna, gyðinga og múslima, guðir hindúa, heiðnir æsir og allir aðrir guðir, eru í raun einn og sami guðinn undir mismunandi nöfnum. Bahá’u’lláh var síðasti spámaður guðs.

Bahá’í í hnotskurn:

 • Nafn: Bahá’í, fylgjendur eru Bahá’íar
 • Guð: Bahá, eingyðistrú
 • Algengust: Í Eyjaálfu, Evrópu og M-Ameríku
 • Bænarhús: Bahá’í miðstöð
 • Heilagasta hátíð: Ridván
 • Helgidagur: Föstudagur
 • Helgirit: Helgasta bókin, Fullvissubókin, Hulin orð, Sjödæla o.fl.
 • Fylgjendur í heiminum: um 7 milljónir
 • Fylgjendur á Íslandi: um 400
 • Fjöldi íslenskra félaga: 1

Bahá’íar leggja mikla áherslu á að mannkynið sé ein heild og öll trúarbrögð séu eitt hið sama. Þess vegna banna Bahá’íar ofbeldi og þátttöku í stjórnmálum, en predika þess í stað um frið, jafnrétti kynja og kynþátta og vilja auk þess taka upp eitt sameiginegt alheimstungumál. Þeir hafa aldrei skipt sér í mismunandi söfnuði eða fylkingar og tilheyra allir sömu sameinuðu trúnni. Allir Bahá’íar geta kosið sína fulltrúa í þjóðarráð, og þjóðarráðin kjósa svo níu fulltrúa í Allsherjarhús réttvísinnar. Það er í Ísrael, ákveður reglur Bahá’ía og gefur út helgirit.

Bænir eru sagðar á hverjum degi og sérstakar helgistundir eru haldnar með 19 daga millibili. Helgistundir og athafnir Bahá’ía eru einfaldar, stuttar, lausar við helgisiði eða skraut og snúast aðallega um hugleiðslu, bænir og samveru.

Talan níu er heilög í Bahá’í trú. Merki þeirra er níhyrnd stjarna, bænarhús þeirra eru yfirleitt níhyrndar byggingar og í allsherjarhúsinu sitja níu fultrúar.

Hvar er Bahá’í trú algengust?

Bahá’í trú er upprunin í Íran, og á því dygga fylgjendur þar og í löndum þar í kring. Algengust er hún þó í Eyjaálfu, Evrópu og Mið-Ameríku.

Hvert er helgirit Bahá’ía?

Áður en Bahá’í trú varð til skrifaði Bábinn tvær bækur sem nefnast Bayán og skipta Bahá’ía miklu máli. Það var síðan sjálfur Bahá’u’lláh sem skrifaði helstu trúarrit Bahá’ía. Helgiritin eru mjög mörg, en þau fjögur mikilvægustu eru:

 1. Helgasta bókin (Aqdas) lýsir lögum og siðaboðskap Bahá’í.
 2. Fullvissubókin (Íqán) lýsir helstu og mikilvægustu trúarkenningum Bahá’ía.
 3. Hulin orð er samansafn stuttra málshátta sem lýsa andlegum sannleika.
 4. Sjödæla er ljóðræn bók sem lýsir ferðalagi sálarinnar um “dalina sjö.”

Eftir tíma Bahá’u’lláh hafa komið út mörg heilög rit um Bahá’í, meðal annars eftir Abdu’l-Bahá og Shoghi Effendi

Hverjar eru helstu trúarhátíðir Bahá’ía?

Trúarhátíðir Bahá’ía fylgja Bahá’í-dagatalinu, sem er jafnlangt og hið vestræna. Nokkrar helstu hátíðir þeirra eru:

 • Ridván er tólf daga hátíð frá 20. apríl til 2. maí þar sem Bahá’íar minnast uppljómunar Bahá’u’lláh. Ridván er helgasta hátíð Bahá’ía.
 • Nýársdagur Bahá’ía er haldinn hátíðlegur 21. mars
 • Haldið er upp á fæðingardag Bahá’u’llah 12. nóvember og uppstigningu hans 29. maí
 • Haldið er upp á fæðingu Bábsins 20. október, yfirlýsingu Bábsins 23. maí og píslarvætti Bábsins 9. júlí.
 • Aukadagar, sem tilheyra engum mánuði í Bahá’í dagatalinu, eru frá 26. febrúar til 1. mars. Þá eru gefnar gjafir og haldnar veislur.

Bahá’í trúfélög á Íslandi:

Það er aðeins eitt Bahá’í trúfélag á íslandi og það heitir einfaldlega Bahá’í samfélagið

Myndin er fengin af wikipedia og breytt af Áttavitanum

 

 • Var efnið hjálplegt?
 •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar